BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Áfram veginn.

01.12.2019

Blikar léku í dag lokaleik sinn í riðlakeppni BOSE mótsins gegn góðkunningjum úr Stjörnunni. Veður var hið blíðasta miðað við árstíma, hiti plúsmegin við frostmarkið í hægri golu og vetrarsól með fallegu skýjafari. Völlurinn rennandi blautur.

Fætur leikmanna beggja liða voru eilítið mislagðar í fyrri hálfleik og endaði hann markalaus þrátt fyrir góðan slatta af marktækifærum. Leikur Blika bar þess greinileg merki að það er verið að breyta upplegginu og spiláherslum og voru áhættuatriði við eigin vítateig með allra mesta móti að þessu sinni og með nokkrum ólíkindum að gestirnir skyldu ekki gera sér mat úr sumum feilunum. En það slapp til. Að sama skapi hefðu Blikar mátt nýta sín færi betur þvi af þeim var nóg. Nokkrar sóknarlotur okkar manna voru með allra snotrasta móti miðað við árstíma og hefðu að ósekju mátt skila marki eða tveim, í það minnsta. En þetta gerði sig semsagt ekki frekar en sósan í vel kunnum dægurlagatexta sem var ,,í það þynnsta“. Og þá þarf að þykkja.

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum og sá fyrri. Ágæt tilþrif á báða bóga í bland við mislukkaðar samleikstilraunir. Það var engan bilbug að finna á okkar mönnum þó spilið gengi brösuglega á köflum, menn héldu áfram að reyna og voru svo fljótir að skella í pressu jafnharðan ef boltinn tapaðist. Sem var nokkuð oft. Svo leit fyrsta mark dagsins ljós þegar nokkuð var liðið á hálfleikinn og það var í dýrari kantinum. Markið kom eftir að gestirnir höfðu gert harða hríð að okkar mönnum, sem náðu að snú vörn i sókn sem endaði með að Höskuldur lagði boltann snyrtilega í fjærhornið, af c.a. 20 metra færi, yfir markvörð gestanna sem hafði hætt sér helst til langt út úr markinu. Snaggaralega gert hjá Höskuldi. Skömmu síðar var Thomas nálægt því að bæta við marki eftir flotta sókn en skotið fór hárfínt framhjá. Og Adam var ekki lengi í Paradís að sagt er, og gestirnir jöfnuðu metin skömmu síðar eftir barning við vítateig Blika. Þar hefðu okkar menn átt að gera betur.

Áfram var puðað og milli þess sem bæði lið gerðu nokkrar breytingar og skiptu inn ferskum mönum, var sóknarleikurinn hafður í öndvegi á meðan varnarleikur og varkárni voru í öruggu 2. og 3ja sæti. Mikið fjör. Þegar skammt var til leiksloka náðu Blikar svo forystunni þegar Karl Friðleifur skoraði laglegt mark með góðu skoti úr teignum. Undirritaður var nú eiginlega að vona að þetta væri sigurmarkið en jólin eru enn ekki komin og gestirnir náðu að jafna á ný eftir hornspyrnu þegar skammt var til leiksloka og þar við sat. Blikar þar með komnir á endastöð í þessu móti og það er eins og það er.

Blikar hafa notað marga leikmenn í mótinu og ljóst að það er góður efniviður fyrir þjálfarana til að moða úr. Ungir leikmenn sem við sáum glitta í í sumar eru nú farnir að gera sig gildandi og fá meiri spiltíma. Það verður fróðlegt að sjá hverjir taka skrefið alla leið.

Næsti leikur Blika er gegn HK í Fótbolta.net mótinu þann 11. janúar 2020 en því hefur verið fleygt að það verði jafnvel einn ,,æfingaleikur“ fyrir jól. Það skýrist síðar.

Áfram Breiðablik !
OWK

Byrjunarlið Blika: Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m). Eiríkur Blöndal - Viktor Örn Margeirsson - Davíð Ingvarsson - Viktor Karl Einarsson - Bjarni Þór Hafstein - Guðjón Pétur Lýðsson - Alexander Helgi Sigurðarson - Höskuldur Gunnlaugsson - Brynjólfur Darri Willumsson - Thomas Mikkelsen.

Varamenn: Anton Ari Einarsson (m) - Ólafur Guðmundsson - Benedikt Warén - Karl Friðleifur Gunnarsson - Ísak Eyþór Guðlaugsson - Þorleifur Úlfarsson - Nikola Dean Djuric - Kristian Nökkvi Hlynsson - Þórbergur Þór Steinarsson.

Sjúkralisti
Damir Muminovic - Gísli Eyjólfsson - Elfar Freyr Helgason - Róbert Orri Þorkelsson

Til baka