BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Góður sigur á Grindavík

21.04.2018

Blikar unnu góðan 1:3 sigur á Grindavík í síðasta æfingaleik áður en Pepsí-deldiin hefst vorið 2018. Mörk Blika settu Sveinn Aron í fyrri hálfleik og síðan bættu þeir Arnþór Ari og Arnór Gauti við mörkum áður en heimamenn klóruðu í bakkann rétt fyrir leikslok. Sigur okkur pilta var sanngjarn og mörkin komu öll eftir mjög góðan undirbúning. Þessi sigur lofar góðu fyrir fyrsta heimaleikinn sem verður gegn ÍBV á laugardaginn á Kópavogsvelli.

Leikurinn fór fram á gamla heimavelli Grindavíkur á grasi. Hressilegar skúrir rennbleyttu völlinn þannig að boltinn flaut vel en erfiðara var að ná upp fallegu spili við þannig aðstæður.  Samt sem áður náði Gísli að prjóna sig í gegnum varnarmenn þeirra gulklæddu og átti snilldarsendingu á Svein Aron sem kláraði færið mjög vel. Hin mörkin voru ekki síðri. Arnþór Ari þrumaði knettinum óverjandi í markvinkilinn eftir að boltinn hafði gengið manna á milli og þversending splundraði vörn þeirra gulklæddu. Willum Þór tæklaði sig síðan gegnum vörn Grindvíkinga í þriðja markinu og boltinn barst síðan til Arnórs Gauta sem setti knöttinn örugglega i netið.

Við lágum aftarlega og leyfðum heimadrengjum að spila boltanum. En þeir náðu nánast aldrei að ógna marki okkar pilta í leiknum. Einu skiptin sem hætta skapaðist var þegar miðjumenn okkar töpuðu boltanum á hættulegum stöðum. Við verðum að passa okkur að það gerist ekki í alvöruleikjum því sterkara sóknarlið hefði refsað okkur. Einnig þýðir lítið að væla í dómaranum, hengja haus og heimta aukaspyrnu þegar við töpum boltanum á miðjusvæðinu.  Knattspyrna er kontaktíþrótt og stundum er ekki dæmt þótt manni finnist að andstæðingurinn hafi gerst brotlegur.

Gaman er að geta þess að Oliver Sigurjónsson spilaði sinn fyrsta leik eftir veruna í Noregi. Hann sýndi gamalkunna takta en vantar enn smá upp á gamla kraftinn. En það kemur örugglega með meiri spilatíma.

Allir leikmenn Blikaliðsins fengu að spreyta sig og stóðu varamennirnir sig með miklum sóma. Það verður því ekki létt verk að velja byrjunarliðið gegn ÍBV á laugardaginn. Þetta verður eitthvað!

Mörkin og leikurinn í heild í boði BlikarTV.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka