BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar áberandi gegn silfurþjóð EM

08.03.2018

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu vann frækinn sigur á Danmörku, silfurliði Evrópumótsins í fyrra, í leik um 9. sætið í Algarve-bikarnum í Portúgal í gær. Staðan var 1:1 eftir venjulegan leiktíma og var gripið til vítaspyrnukeppni til þess að ná fram úrslitum. Þar komu Blikar mikið við sögu, svo ekki sé meira sagt.

Íslenska liðið skoraði úr öllum fimm spyrnum sínum og skoruðu Blikar úr fjórum þeirra! Ingibjörg Sigurðardóttir, Rakel Hönnudóttir og Agla María Albertsdóttir skoruðu úr sínum spyrnum, áður en Andrea Rán Hauksdóttir tryggði íslenskan sigur með því að skora úr síðustu spyrnunni. Áður hafði Sonný Lára Þráinsdóttir, sem stóð í marki Íslands í leiknum, varið þriðju spyrnu Dana frá einum af þeirra leikreyndustu leikmönnum.

Glæsilegur árangur hjá stelpunum okkar, en þess má geta að af 23 leikmönnum í landsliðshópnum voru 11 annað hvort núverandi eða fyrrverandi leikmenn Breiðabliks.

(mynd fengin af Twitter reikningi KSÍ)

Til baka