BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sterkur Blikasvipur í landsliðinu

20.08.2018

Það hefur heldur betur verið ástæða til þess að gleðjast yfir kvennaliði Breiðabliks síðustu daga. Eftir að hafa orðið bikarmeistari í 12. sinn á föstudagskvöld undirstrikuðu Blikastelpur styrk sinn með því að vera mest áberandi af öllum liðum þegar íslenski landsliðshópurinn var tilkynntur í dag.

Alls eiga Blikar sex fulltrúa af 23 í A-landsliðinu en það eru Agla María Albertsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Guðrún Arnardóttir, Selma Sól Magnúsdóttir og Sonný Lára Þráinsdóttir. Alexandra er valin í fyrsta sinn og Guðrún kemur inn á ný eftir nokkurt hlé og er hvoru tveggja mikið fagnaðarefni.

Það vekur einnig sérstaka eftirtekt að þrátt fyrir að fimm leikmenn liðsins hafi haldið í atvinnumennsku frá síðasta tímabili þá eigum við Blikar samt sex fulltrúa í hópnum.

Framundan eru síðustu tveir leikir Íslands í undankeppni HM 2019, gegn Þýskalandi 1. september og Tékklandi 4. september en báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli og munu skera úr um hvort A-landslið kvenna komist í fyrsta sinn á HM.

Við erum stolt að eiga svo stóran hluta af landsliðshópnum og óskum okkar stelpum og landsliðinu góðs gengis í komandi leikjum.

Áfram Breiðablik!

Til baka