BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

1992

Eftir frábært tímabil árinu áður áttu menn ekki von á öðru en góðu sumri hjá Breiðabliksliðinu. Litlar breytingar voru á hópnum. Hajrudin Cardaklija, markvörður, kom frá Bosníu til að leysa Eirík Þorvarðarson af, en hann fótbrotnaði undir lok árs 1991. Gústaf Ómarsson gekk til liðs við Val frá Reyðarfirði og Guðmundur Þ. Guðmundsson fór til Danmerkur. Til liðs við okkur gengu tveir varnarmenn úr ÍK - þeir Reynir Björnsson og Úlfar Óttarsson.

Gömul hetja úr félaginu, Vignir Baldursson, var ráðinn þjálfari fyrir tímabilið. 

Efsta deild kallaðist Samskipadeildin árið 1992. Breiðabliki var spáð 6. sæti í spá þjálfara og forráðamanna fyrir mót og þótti það nokkuð hátt fyrir Breiðabliksliðið á þessum árum. Fram var spáð titlinum og nýliðum Skagamanna 2. sæti. Norðanmönnum í KA og Þór var spáð falli í 2. deild.


1. umferð

24.05
1992
FH
Breiðablik
2:1
1
2
1
A-deild | 1. umferð
Kaplakrikavöllur | #

Fyrsti leikur sumarsins var gegn FH á útivelli. Kaplakrikavöllur var ekki tilbúinn og fór leikurinn því fram á frjálsíþróttavellinum. Heimamenn leiddu 1-0 í hálfleik en Blikar náðu sér vel í strik í þeim síðari. Steindór Elísson jafnaði metin og líðið var ekki langt frá því að tryggja sér sigurinn því það sótti mun meira eftir hlé. Sofandaháttur í vörninni á síðustu mínútu leiksins varð til þess að FH skoraði eftir fast leikatriði og tryggði sér 2-1 sigur.

Þrátt fyrir tap voru skrefin ekki svo þung á leið af vellinum því liðið lék vel í leiknum.


2. umferð

28.05
1992
Breiðablik
Þór
0:1
1
2
1
1
A-deild | 2. umferð
Kópavogsvöllur | #

Nýliðar Þórs komu í heimsókn í 2. umferð og menn vongóðir um sigur eftir fínan leik í Hafnarfirði. Allt fór þetta þokkalega af stað og Grétar Steindórsson spyrnti knettinum í tréverkið á Þórsmarkinu í fyrri hálfleik þar sem Blikar gerðu sig líklega til að taka forystuna.

Varnarmistök í síðari hálfleik enduðu með því að Þórsarar skoruðu markið sem dugði til sigurs og Blikar því án stiga eftir tvo leiki gegn liðum sem spáð var í neðstu þrjú sætin.


3. umferð

09.06
1992
KR
Breiðablik
1:0
1
2
1
A-deild | 3. umferð
KR-völlur | #

Eftir töp í fyrstu tveimur umferðunum var ekki óskastaðan að þurfa að fara vestur í bæ og mæta KR. Heimamenn skoruðu á 7. mínutu og þar við sat. Hajrudin Cardaklija varði vítaspyrnu í fyrri hálfleik.


4. umferð

15.06
1992
Breiðablik
ÍA
0:1
1
2
1
A-deild | 4. umferð
Kópavogsvöllur | #

Sjóðheitir Skagamenn komu í heimsókn í Kópavoginn í 4. umferð og mættu stigalausum Blikum. Okkar menn girtu sig í brók og léku stórvel gegn verðandi meisturum ÍA. Fjölmörg færi fóru forgörðum en það voru þeir gulklæddu sem stálu sigrinum á 86. mínútu með skalla af löngu færi. Eftir á að hyggja var grátlegt að tapa þessum leik ásamt fyrsta leiknum við FH. Þegar þarna var komið við sögu fannst mörgum að við Blikar ættu að vera með 4-6 stig frekar en ekkert - sem var þó raunin.


5. umferð

20.06
1992
Fram
Breiðablik
3:0
1
1
2
1
A-deild | 5. umferð
Valbjarnarvöllur | #

Það voru niðurbrotnir Breiðabliksmenn sem mættu á Valbjarnarvöll og þurftu að kljást við gott lið Safamýrarpilta. Okkar menn áttu enga möguleika þennan daginn og lágu með þremur mörkum gegn engu. Blikar skoruðu ekki fjórða leikinn í röð og töpuðu þeim fimmta í röð.


6. umferð

25.06
1992
Valur
Breiðablik
2:0
1
2
1
A-deild | 6. umferð
Hlíðarendi | #

Ekki skánaði ástandið mikið í 6. umferð þegar Breiðablik lá á Hlíðarenda 2-0. Fimmta leikinn í röð náðum við ekki að koma knettinum í netið þrátt fyrir ágætis færi.

Staðan var orðin fjári slæm þegar þriðjungur af búinn af mótinu. Breiðablik án stiga á botninum með markatöluna 1-10. Skipt var um mann í brúnni og Hörður Hilmarsson mætti aftur til starfa.

Staðan á botninum eftir 6 umferðir:

KA 6 1 3 2 9-9 6
Víkingur 6 2 0 4 5-11 6
ÍBV 6 1 0 5 4-10 3
Breiðablik 6 0 0 6 1-10 0

7. umferð

29.06
1992
Breiðablik
KA
2:1
1
2
1
A-deild | 7. umferð
Kópavogsvöllur | #

KA kom í heimsókn í 7. umferð og öllum ljóst að stig yrðu að fara að koma í hús ef ekki ætti illa að fara. Allt var þó í sama farinu framan af. Blikar sóttu en nýttu ekki ágætis færi og gestirnir komust yfir með þrumufleyg fyrir utan teig.

Rétt fyrir hálfleik gerðist þó það að Sigurjón Kristjánsson gaf góðan bolta fyrir á fjærstöng hvar Reynir Björnsson, ÍK-ingurinn, kom aðvífandi og þrumaði knettinum upp í þaknetið og jafnaði metin. Þetta var fyrsta mark Breiðabliks í 516 mínútur. Sigurjón var ekki hættur og skoraði hann sigurmarkið eftir stungusendingu Arnars Grétarsson í síðari hálfleiknum. Fyrsti sigurinn á tímabilinu staðreynd og mikið fagnað.


8. umferð

02.07
1992
ÍBV
Breiðablik
0:0
1
1
A-deild | 8. umferð
Hásteinsvöllur | #

Eyjamenn tóku á móti okkur Blikum í 8. umferð í uppgjöri botnliðanna sem höfðu 3 stig hvort. Bæði lið fengu ágætis færi og Willum Þór Þórsson átti m.a. skot í þverslánna. Niðurstaðan var þó 0-0 jafntefli.


BIKAR: 16 liða úrslit

07.07
1992
Breiðablik
Valur
0:3
2
2
Bikarkeppni KSÍ | 16-liða úrslit
Kópavogsvöllur | #

Þriðja árið í röð féllu Blikar úr Bikarkeppninni eftir tap gegn Valsmönnum. Gestirnir komust í 2-0 yfir 10 mínútna leik, Blikar fengu góð færi til að laga stöðuna en ekki vildi boltinn inn frekar en oft áður um sumarið. Valsmenn kláruðu leikinn með þriðja markinu undir lok leiks.


9. umferð

12.07
1992
Breiðablik
Víkingur
0:0
1
1
1
A-deild | 9. umferð
Kópavogsvöllur | #

Íslandsmeistarar Víkings mættu í Kópavoginn í síðasta leik fyrri umferðarinnar. Þeir röndóttu voru nær sigri í leik þar sem prúðmennið Sigurjón Kristjánsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir að stugga við leikmanni Víkinga og til að bæta gráu ofan á svart - þeim svartklædda líka! Niðurstaðan 0-0 jafntefli annan leikinn í röð. Blikar luku því fyrri umferðinni með 5 stigum í síðustu þremur leikjunum eftir 6 töp í röð í byrjun. Athyglisvert að mörkin eru aðeins þrjú.

Staðan eftir 9 umferðir:

ÍA 9 6 3 0 15-5 21
Fram 9 6 1 2 18-9 19
KR 9 5 3 1 15-7 18
Þór 9 4 3 2 9-5 15
Valur 9 3 4 2 12-9 13
Víkingur 9 2 3 4 9-15 9
FH 9 2 3 4 9-16 9
ÍBV 9 2 1 6 8-14 7
KA 9 1 3 5 11-18 6
Breiðablik 9 1 2 6 3-11 5

10. umferð

16.07
1992
Breiðablik
FH
1:3
1
3
1
A-deild | 10. umferð
Kópavogsvöllur | #

Breiðablik tók á móti Fimleikafélagi Hafnarfjarðar í 10. umferð og tókst ekki að hefna fyrir tapið í fyrsta leik mótsins. Hafnfirðingar höfðu 3-1 sigur. Hilmar Sighvatsson skoraði úr vítaspyrnu á síðustu mínútu leiksins.


11. umferð

24.07
1992
Þór
Breiðablik
1:1
A-deild | 11. umferð
Akureyrarvöllur | #

Arnar Grétarsson jafnaði leikinn í 1-1 gegn Þór á Akureyri og tryggði Blikum jafntefli.


12. umferð

Blikar úr botnsætinu

30.07
1992
Breiðablik
KR
1:0
1
2
1
A-deild | 12. umferð
Kópavogsvöllur | #

Blikar komust úr botnsæti deildarinnar í fyrsta skipti eftir sanngjarnan sigur á KR. Grétar Steindórsson skoraði eina mark leiksins eftir sendingu frá Arnari Grétarssyni.


13. umferð

12.08
1992
ÍA
Breiðablik
4:2
1
2
1
A-deild | 13. umferð
Akranesvöllur | #

Okkur menn fóru stigalausir heim af Akranesi þrátt fyrir að Valur Valsson hafi skorað í tvígang eftir að hafa verið færður í framlínuna. Skagamenn höfðu 4-2 sigur sem þótti sanngjarn.


14. umferð

Góður sigur á Fram

17.08
1992
Breiðablik
Fram
1:0
1
2
1
A-deild | 14. umferð
Kópavogsvöllur | #

Þrátt fyrir að vera með bæði Arnar Grétarsson og Pavol Kretovic í banni náðu Blikar að leggja Framara, 1-0, í Kópavoginum. Sigurjón Kristjánsson skoraði með góðu skoti fyrir utan teig - í stöngina og inn. Blikar sýndu góða baráttu og unnu sanngjarnan sigur sem gaf okkur góða möguleika á að halda sæti okkar í deildinni. Blikar voru nú 5 stigum á undan ÍBV og einu á eftir KA.

Staðan á botninum þegar fjórar umferðir voru eftir:

KA 14 3 4 7 15-25 13
Breiðablik 14 3 3 8 9-19 12
ÍBV 14 2 1 11 13-32 7

15. umferð

Skellur í Kópavogi

26.08
1992
Breiðablik
Valur
0:5
1
2
1
A-deild | 15. umferð
Kópavogsvöllur | #

Það gekk ekkert upp þegar Valsmen komu í heimsókn í 15. umferð. Blikar þurftu að sækja knöttinn 5 sinnum í netið - þar af í fjórgang eftir fyrirgjafir frá vinstri kanti, fimmta markið kom úr umdeildri vítaspyrnu.


16. umferð

Blikar unnu fallslaginn á Akureyri

29.08
1992
KA
Breiðablik
1:2
1
2
A-deild | 16. umferð
Akureyrarvöllur | #

Breiðablik lagði KA í miklum fallslag á Akureyri. Heimamenn voru stigi á undan okkur í 8. sæti fyrir leikinn og því um svokallaðan 6 stiga leik að ræða. Grétar Steindórsson skoraði bæði mörkin áður en KA náði að minnka muninn.

Með þessum úrslitum komust Blikar úr fallsæti í fyrsta sinn á tímabilinu - voru 5 stigum á undan ÍBV og einu á undan KA þegar aðeins tveir leikir voru eftir. Liðið var svo gott sem búið að bjarga sér, einn sigur í síðustu tveimur leikjunum myndi tryggja sætið í deildinni.


17. umferð

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi

05.09
1992
Breiðablik
ÍBV
2:3
1
2
A-deild | 17. umferð
Kópavogsvöllur | #

Fallslagurinn við ÍBV þann 5. september árið 1992 er einhver dramatískasti kappleikur sem farið hefur fram á Kópavogsvellinum. Eyjamenn voru í 10. og neðsta sæti, 5 stigum á eftir okkur Blikum sem vorum í 8. sæti og aðeins 6 stig eftir í pottinum. Ekkert nema sigur myndi halda lífi í þeirra vonum.

Breiðablik hóf leikinn af miklum krafti og ekki voru liðnar nema 4 mínútur þegar Eyjamenn máttu sækja knöttinn í netið eftir skot Arnars Grétarssonar. Blikar voru frískir og ekki stefndi í annað en að menn myndu ylja sér með 1-0 forystu og tesopanum í hálfleik. 

Rétt undir lok fyrri hálfleiks átti ótrúlegt atvik sér stað. Blikar voru með boltann við eigin vítateig og engin hætta á ferðum. Varnarmaður okkar gefur til baka á Hajrudin Cardaklija markvörð sem tekur boltann upp með höndum. Ekkert athugavert við það enda búið að stunda slíkja iðju frá upphafi knattspyrnu í heiminum. Og þó - nú mátti þetta ekki lengur. KSÍ ákvað nefnilega að breyta reglum Íslandsmótsins í knattspyrnu þegar 3 leikir voru eftir af mótinu. Orðið á götunni var að þessi breyting hefði verið gerð til að búa íslensku liðin sem tóku þátt í Evrópukeppninni um haustið undir að spila eftir þessum nýju reglum FIFA. Eyjólfur Ólafsson blés því í hljóðpípu sína og dæmdi óbeina aukaspyrnu á markteig Breiðabliks sem Eyjamenn skoruðu úr. Á örskotsstundu breyttist taktur leiksins úr öruggri stjórn okkar manna í algjört uppþot.

Ekki skánaði ástandi á 60. mínútu þegar knötturinn fór í hönd okkar manns í teignum þegar lítil hætta var á ferðum. Vítaspyrna var dæmd. Cardaklija varði vítið en Eyjamenn náðu að fylgja eftir og skora. Staðan 2-1 fyrir gestina! Valur Valsson var þó fljótur að jafna leikinn með góðu skoti úr teignum og staðan orðin 2-2.

Allt stefndi í jafntefli þegar komið var fram á síðustu mínútu leiksins. Þá gáfu Eyjamenn langa sendingu utarlega í vítateiginn þar sem framherji Eyjamanna tók við boltanum. Varnarmaður Breiðabliks renndi sér í boltann á löglegan hátt að flestum fannst en dómari leiksins dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu.  Það er skemmst frá því að segja að annað eins uppþot hefur ekki orðið í Kópavogsdalnum. Hörður Hilmarsson þjálfari fékk að líta rauða spjaldið fyrir mótmæli, liðsstjóra ÍBV biðu sömu örlög, líklegast fyrir að malda í móinn. Enginn mótmæli þó harðar en Tékkinn geðþekki Pavol Kretovic sem hljóp bókstaflega á dómarann. Var hann einnig sendur í bað.

Ef þetta tafði ekki nógu mikið framkvæmd spyrnunnar þá bættist það við að enginn Eyjamaður þorði að fara á punktinn. Cardaklija var nú þegar búinn að verja eina spyrnu í leiknum. Á endanum steig Leifur Geir Hafsteinsson fram fyrir skjöldu og tók spyrnuna. Cardaklija fór í rétt horn og virtist ekki eiga annað eftir en að góma knöttinn þegar hann skoppaði á þúfu á vellinum og yfir Bosníumanninn.

Leik lokið með 3-2 sigri Eyjamanna sem ærðust af fögnuði. Blikar gengu hnípnir af velli enda var öruggt sæti í deildinni í augsýn allan leikinn. Skrautleg mörk gestanna voru þannig að enginn mannlegur máttur hefði getað komið í veg fyrir þessa niðurstöðu.

Eyjamenn gengu til okkar manna eftir leik og báðust afsökunar en sögðu jafnframt að þeir yrðu að þiggja þessi þrjú stig. „Örlögin sáu um sigurinn“ var haft eftir hetju þeirra af vítapunktinum.

Ungmennafélagið hefur gengið í gegnum ýmislegt en þetta tap hlýtur að teljast eitt það allra sárasta í sögunni.

Þegar þarna var komið við sögu var þó enn von. Við vorum enn í 8. sæti og eitt stig í lokaleiknum myndi duga okkur.


18. umferð

Grátlegt tap í Fossvoginum

13.09
1992
Víkingur
Breiðablik
3:1
1
2
A-deild | 18. umferð
Víkingsvöllur | #

Úrslitaleikjunum tveimur milli Víkings og Breiðabliks annars vegar og ÍBV og KA hins vegar var báðum frestað um sólarhring þar sem ófært var til Eyja. Það hefur lítið hjálpað til með spennustigið sem var hátt.

Örlögin voru þó í okkar höndum en okkar beið ferð í Fossvoginn þar sem við áttum að mæta Íslandsmeisturum Víkings - sem gátu mögulega fallið sem verður að teljast ansi magnað þar sem þeir voru með nánast sama hóp og vann mótið árinu áður.

Tap hefði getað dugað okkur ef Eyjamenn og KA gerðu jafntefli í Eyjum. Eitt stig myndi duga ef Eyjamenn hefðu betur. Það þyrfti allt að fara á versta veg ef við ættum að fara niður.

Kópavogspiltar ætluðu ekkert að vera í slíkum spekúlasjónum og sóttu á Víkingsmarkið af kappi. Tvö mjög góð færi fóru forgörðum hjá okkur mönnum en klaufagangurinn hinumegin vallarsins var eftir öðru um sumarið. Rangstöðugildra brást á 19. mínútu og Víkingur komust yfir eftir stungusendingu. Átta mínútum síðar hitti markvörður okkar ekki boltann þegar hann hugðist hreinsa frá og framherji Víkings renndi knettinum í netið. Staðan orðin 2-0 og áhorfendur farnir að stilla viðtækin til að heyra stöðuna í Eyjum. Þar stóð 0-0 og Blikar því enn uppi.

Blikar komu sterkir inn í seinni hálfleikinn þrátt fyrir mótlætið í þessum leik og svo ekki sé minnst á þann þar á undan. Grétar Steindórsson minnkaði muninn á 52. mínútu og þeir grænklæddu sóttu af kappi. Hver boltinn á eftir öðrum stefndi upp í samskeytin á marki meistaranna en Guðmundur Hreiðarsson, sem síðar átti eftir að ganga til liðs við Ungmennafélagið, varði allt sem á markið kom.

Á 80. mínútu bárust þau tíðindi frá Eyjum að ÍBV væri komið 2-1 yfir og við því á leið niður. Áhorfendur sem höfðu raðað sér fyrir aftan Víkingsmarkið og meðfram vellinum færðu sóknarmönnum Breiðabliks þessi tíðindi sjálfir enda fór leikurinn að mestu fram á vallarhelmingi Víkinga. Kópavogspiltar settu enn meira kapp í sóknina en náðu ekki að koma knettinum í netið. Síðasti naglinn var negldur í kistuna þegar Víkingar fengu vítaspyrnu eftir skyndisókn og tryggðu 3-1 sigur.

Hetjuleg barátta eftir hræðilega byrjun var svo gott sem búin að bjarga félaginu frá falli. Lygilegt lánleysi í síðustu tveimur leikjunum varð þó til þess að spútnikliðið frá árinu áður féll niður um deild í þriðja sinn á átta árum.


Lokastaðan 1992

L U J T MÖRK STIG
ÍA 18 12 4 2 40-19 40
KR 18 11 4 3 41-17 37
Þór 18 10 5 3 30-14 35
Valur 18 9 4 5 33-27 31
Fram 18 8 1 9 25-27 25
FH 18 5 6 7 25-29 21
Víkingur 18 5 4 9 25-33 19
ÍBV 18 5 1 12 23-44 16
Breiðablik 18 4 3 11 14-31 15
KA 18 3 4 11 18-133 13