BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Blikar í Götu

26.08.2019

Veðrið í Kaplakrika í kvöld var öllu skárra en í gær þegar leikur FH og Blika átti að fara fram. Menn létu fegurðina ráða og ákváðu að spila ekki í mannskaðaveðri heldur treysta spánni. Óhætt er að segja að sú ákvörðun hafi verið góð – enda ríkti fegurðin ein í kvöld í Krikanum. Að mestu.

Blikar stilltu upp þriggja manna vörn með Damir, Elfar Frey og Viktor Örn sem miðverði fyrir framan Gulla í markinu. Alfons og Davíð voru vængbakverðir, Andri Rafn og Guðjón Pétur á miðjunni en frammi Brynjólfur Darri, Thomas og Höskuldur. Í liði FH var það helst að frétta að Færeyingurinn Brandur Hendriksson Olsen var mættur með sína eitruðu fætur sem hafa skilað ófáum mikilvægum mörkum fyrir Hafnarfjarðarliðið.

Og hann átti sannarlega eftir að koma við sögu.

Liðsuppstiling kvöldsins.    Leikskýrsla KSÍ     Úrslit.net skýrsla

Vængjahurð

Okkar menn byrjuðu af miklum krafti. Elfar var nánast eins og framliggjandi miðjumaður, Guðjón Pétur tók aukaspyrnu hratt á miðjum velli, stakk inn á Höskuld sem hitti boltann illa og allt að gerast hjá Blikum. Og þó. Brandur Olsen átti í sömu svifum stórhættulega sendingu inn fyrir vörn gestanna en Atli Guðnason var naumlega rangstæður. Mínútu síðar fékk Gulli boltann til baka frá Damir, hikaði við útsparkið sem fór svo í Lennon og þaðan í stöngina. Fór nú að fara um Blika í stúkunni.

Sá færeyski var ekki hættur. Hann tók hornspyrnu á 10. mínútu, Davíð fleytti boltanum óvart inn í teig og þar var einn lágvaxnasti maður vallarins á auðum sjó, Steven Lennon, og skallaði í markið. Þetta leit ekki vel út. FH-ingar voru með öll völd á vellinum. Þriggja manna vörn okkar pilta eins og vængjahurð. Á 13. mínútu komst FH-ingur einn inn fyrir en Gulli varði naumlega. Síðan liðu þrjár mínútur. Damir óð út í Brand á miðjum velli, tapaði tæklingu sem varð að stungusendingu á Lennon. Hann renndi boltanum á Atla Guðnason fyrir opnu marki og ekki að sökum að spyrja. 2-0 – og 17. mínútur á klukkunni.

Líkt og á móti Val á dögunum fannst manni eins og Blikar væru enn á leiðinni á völlinn, sætu fastir í umferðaröngþveiti við IKEA. Í það minnsta virkaði þessi sorglegi kafli okkar manna eins og hálfgerður brandari.

Galdrar og herkænska

Á þessari stundu var ég farinn að halda að Brandur Olsen yrði eins og landi hans forðum, Þrándur í Götu. Frá Þrándi segir í Færeyingasögu sem rituð var á Íslandi á þrettándu öld. Þar koma ýmsar hetjur við sögu. Þrándur er afar áberandi persóna í sögunni, slóttugur í meira lagi og hugsar mest um eigin hag (sbr. orðtakið að vera einhverjum þrándur í götu), og minnir hann jafnvel á hinn viðsjála Óðin. Óðinn er guð visku, herkænsku, stríðs, galdra og skáldskapar. Ætlaði Brandur færeyski að feta í fótspor landa síns og fara með sigur af hólmi með göldróttum fótum sínum?

En þá mundi ég að Brandur er alls ekkert frá Götu í Færeyjum heldur Sandey sem er ein Suðureyja en þær koma einmitt víða fyrir í Færeyingasögu. Helsti andstæðingur Þrándar í deilunum í sögunni er líka frá Suðureyjum, Sigmundur Brestisson. Þegar Þrándi var tekið að leiðast þófið í deilum þeirra Sigmundar fór hann að kappanum í Skúfey að næturlagi og lagði eld að bæ hans. Bóndi slapp út um jarðgöng og stökk fyrir björg á flótta. Hann náði landi í Sandvík á Suðurey  en þar var hann drepinn.

Það má kannski segja að FH-ingar hafi um þetta leyti brugðið sér í hlutverk Sigmundar en Blikar íklæðst gervi Þrándar því að nú fór landið heldur betur að rísa.

Ballið byrjar

Strax eftir seinna mark FH-inga skaut Thomas framhjá úr erfiðu færi, mínútu síðar fékk Brandur gult spjald fyrir að brjóta á Brynjólfi Darra – sem kannski var lýsandi fyrir gang mála – og svo byrjaði ballið. Alfons vippaði á Brynjólf upp í hornið, hann lék að teignum, lagði boltann snyrtilega út á Viktor sem laumaði honum í fjærhornið. 2-1. Ekki liðu margar mínútur þar til brotið var fólskulega á markaskoraranum úti á miðjum velli og í kjölfarið gerðu heimamenn aðsúg að dómaranum. Þarna fór maður að þekkja brestina í liði FH-inga.

Blikar áttu sviðið það sem eftir lifði hálfleiks án þess þó að ná að jafna. Þarna skipti máli að breytt var í fjögurra manna vörn með Viktor Örn sem afturliggjandi miðjumann.

Í hálfleik var nokkuð gott hljóð í mönnum. Bjartsýni í lofti, jafnvel vongleði, þrátt fyrir að vera marki undir.

Víti?

Þegar síðari hálfleikur hófst hafði heldur bætt í vind sem Blikar léku á móti og auk þess var farið að rigna hressilega. Þetta var þekkt trix hjá Þrándi forðum, þeir sem sóttu að honum lentu gjarnan í miklum straumum, óvæntri þoku, vonskuveðrum og brutu skip, svo aftur fór maður að velta fyrir sér hvort Brandur væri eins og þessi gamla hetja Færeyinga – með veðurguðina á sínu bandi.

En okkar menn héldu sínu striki. Kannski vann veðrið með þeim? Að minnsta kosti áttum við flotta sókn upp hægri kant á 50. mínútu sem endaði með frábærri fyrirgjöf en Thomas skaut rétt framhjá. Mínútu síðar slapp hann í gegn og töldu allir sanngjarnir menn að brotið hefði verið á honum en niðurstaðan var horn. Upp úr henni átti Davíð þrumuskot af löngu færi en yfir. Það lá eitthvað í loftinu.

Thomas Mikkelsen var á skotskónum í kvöld. Hann skorði þriðja og fjórða mark Blikamanna og var valinn leikmaður 18. umferðar hjá .net.

Vendipunkturinn

Og þá varð vendipunktur í leiknum. Alfons var að sleppa í gegn eftir léttleikandi og lipurt spil en fyrirliði heimamanna greip í hann og „rændi hann upplögðu marktækifæri“ eins og það heitir víst í reglunum. Að launum uppskar hann rautt spjald. Þetta kom reyndar svolítið á óvart því að Davíð Þór Viðarsson hafði verið svolítið ólíkur sjálfum sér í leiknum, varla sagt orð við dómarann, skipulagt nánast engar hópferðir að honum, verið almennt hinn prúðasti og stýrt spili heimamanna.

Brynjólfur Darri skaut í varnarvegginn úr aukaspyrnunni, Thomas átti aðra neglu lengst utan af velli strax á eftir en yfir – það lá á FH-ingum.

Á 56. mínútu sendi Brynjólfur Darri frábæran bolta fyrir af hægri kanti, beint á kollinn á Höskuldi sem þakkaði pent með fallegum skalla. 2-2. Tveimur mínútum síðar skaut Guðjón Pétur naumlega framhjá úr teignum, Brynjólfur Darri vippaði snyrtilega inn á Höskuld við endamörk en hann skaut í hliðarnetið.

Galdrasending

Eins og glöggir lesendur sjá voru okkar menn með fullkomin tök á leiknum þegar þarna var komið sögu og ljóst að fleiri mörk voru í vændum. Á 61. mínútu átti Guðjón Pétur eina af sínum gullfallegu sendingum inn í teig. Thomas stakk sér fram fyrir varnarmann FH og skallaði örugglega í netið. 3-2.

Brynjólfur Darri fór út af eftir að hafa átt frábæran leik og Viktor Karl kom inn á en áfram hélt fjörið. Tveimur mínútum eftir þriðja markið náði Höskuldur boltanum af varnarmanni FH, gat gefið á Thomas sem beið og beið í opnu færi en hann kaus að skjóta sjálfur. Markvörður heimamanna var aftur á móti vandanum vaxinn. Jafnvel sannarlega betri en enginn. Hins vegar var Thomas alls ekki sáttur við félaga sinn og er hægt að taka hraðkúrsinn „dönsk blótsyrði 101“ með því að tímaflakka leikinn (að því gefnu að menn séu góðir í varalestri!).

Örlögin ráðast

Thomas var líklega enn að kenna þessi fræði þegar Cedric d‘Ulivo dansaði í kringum varnarmenn Blika uns brotið var á honum. Birtist þá Brandur hinn færeyski keikur og stillti sér upp við boltann. Þrándur í Götu eða Sigmundur Brestisson? Menn nöguðu neglur og báðu bænir í stúkunni. Tilhlaupið var stutt, spyrnan föst, boltinn sveif yfir varnarvegginn og lenti ofan á slánni. Þar með má segja að örlög FH-inga hafi verið ráðin því að tveimur mínútum síðar sendi Guðjón Pétur lystilega upp í horn þar sem Viktor Karl kom eins og eldibrandur, þrykkti boltanum fyrir þar sem Thomas, sem var rétt hættur að blóta, setti boltann snyrtilega í netið. 4-2.

Eftir þetta dofnaði yfir leiknum. FH-ingar gáfust í raun upp. Brandur var horfinn af yfirborði jarðar. Þetta fjaraði út síðasta korterið. Ég segi ekki að heimamenn hafi stokkið fyrir björg eins og Sigmundur Brestisson forðum en Blikar léku heimamenn sundur og saman, spiluðu fram og til baka, út og suður, norður og niður og ef FH-ingar komust í boltann tóku gestirnir hann óðara aftur af þeim. Menn sýndu visku, herkænsku, galdra og jafnvel skáldskap, svo vísað sé aftur í Óðin.  Í lokin kom Gísli inn fyrir Höskuld og batt hann endahnút á þennan stórskemmtilega leik, átti þrumuskot fyrir utan teig sem fór naumlega framhjá.

Atvik og mörk í boði BlikarTV

Fegurðin ein

Það hlýtur að vera áhyggjuefni að okkar menn skuli annan leikinn í röð mæta eftir 20 mínútur og vera þá komnir 2-0 undir. Og þriggja manna vörnin var sannarlega ekki til mikillar fyrirmyndar í kvöld. En um leið og því var kippt í liðinn var ekki að sökum að spyrja. Eftir að Blikar hrukku í gang ríkti fegurðin ein og sigurinn var (nánast) aldrei í hættu.

FH-ingar gátu með sigri haft sætaskipti við Blika í baráttunni um silfrið en okkar menn reyndust mikill þrándur í götu þeirra. Nú er það spurningin hvort KR-ingar misstígi sig frekar á lokasprettinum – en Blikar mega að minnsta kosti gjarnan vera mættir á fyrstu mínútu í næsta leik. Hann er á móti Fylkismönnum á sunnudaginn á Kópavogsvelli en þeir eru sannarlega sýnd veiði en ekki gefin.

PMÓ

Umfjallanir netmiðla.

Fyrirliðinn með enn einn leikjaáfangann. Leikurinn í kvöld var 300. efstu deildar leikur Gunnleifs á Íslandi frá upphafi og 149. efstu deildar leikur hans með Breiðabliki. Leikurinn var jafnframt 50. innbyrðis leikur liðanna í efstu deild. Mynd: HVH

Mbl.is: Sá þriðji í þrjúhundruð leiki

Til baka