BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Endurkomusigur í slagnum um Kjartan Einarsson

27.06.2020 image

Blikar komnir í 16-liða úrslit eftir sigur á Keflvíkingum.

Þetta árið fór Kjartan Einarsson slagurinn fram í Mjólkurbikarnum þar sem Keflavík leikur í ár í Lengjudeildinni líkt og í fyrra, þá kennd við fyrirtækið Inkasso.  Kjartan Einarsson er svokallað „two club legend“ en hann spilaði bæði fyrir Keflavík og síðar Blika, því hafa gárungarnir kallað viðureignir Breiðabliks og Keflavíkur „Kjartan Einarsson slagurinn“.

Vel var veitt í sjoppunni, kaffið rjúkandi heitt og grillið glamraði. Café Catalina fékk sinn skerf af stuðningsmönnum fyrir leik og er það vel. Mætingin var ekkert frábær en 728 manneskjur létu sjá sig. Það er hugsanlegt að einhverjir úr stuðningssveitinni Big Glacier Mafia hafi ekki drifið úr Smáranum, þar sem sveitin hitaði upp, og í stúkuna á Kópavogsvöll en ég kýs að láta það liggja milli hluta.

Byrjunarlið þeirra grænklæddu var eftirfarandi:

image

Má sjá að umtalsverð breyting var gerð á byrjunarliðinu frá seinasta leik í Lautinni gegn Fylkismönnum. Elfar Freyr, sá spænski, og Brynjólfur Andersen voru báðir í banni í þessum leik. Menn sem eru nýstignir upp úr meiðslum á borð við Viktor Örn og Arnar Svein fengu tækifæri í byrjunarliðinu ásamt hinum unga og bráðefnilega Stefáni Inga Sigurðssyni en hann átti eftir að láta til sín taka.

Leikurinn fór fjörlega af stað en strax eftir átta mínútur skoraði Guðjón Pétur Lýðsson að því virtist úr stúkunni löglegt mark. Eftir að hafa fagnað markinu ágæta sést línuvörðurinn lyfta upp flagginu og rangstaða dæmd. Fyrir hvað? Stefán Ingi átti að hafa staðið í vegi fyrir Sindra markverði Keflavíkur og því var dæmd rangstaða á hann. Áhugaverð ákvörðun en þó það. Eftir þetta atvik datt leikurinn aðeins niður en Blikar höfðu tögl og hagldir á leiknum. Eftir um hálftíma leik fóru hlutirnir að gerast. Davíð Ingvarsson átti „hættulega“ hornspyrnu sem endaði ofan á þverslánni en stúkan kippti sér lítið upp við það. Mínútu síðar barst boltinn út til hægri á Kwame Quee sem kom með glæsilega fyrirgjöf beint á kollinn á Stefáni unga sem skallaði boltann eins mikið í sammann og hægt var, glæsilegt mark, 1-0. Eftir markið rofaði til og stóðu Sunny Kef undir nafni því þeir ógnuðu marki Blika nokkuð fram að hálfleik en maður var þó rólegur enda héldum við áfram að stjórna leiknum.

Þetta var fínn fyrri hálfleikur, við komumst oft í mjög góðar stöður en áttum erfitt með að setja punkt yfir i-ið. Liðið mætti virða þær stöður sem það kemst í og flækja þá hlutina ekki um of. Við fórum þó með yfirhöndina í hálfleikinn.

Seinni hálfleikurinn byrjaði heldur dauft af okkar hálfu en komumst í ágætis sókn sem rann út í sandinn eins og margar aðrar í þessum leik. Guttarnir úr Bítlabænum jöfnuðu svo leikinn á 50. mínútu. Valssendingin svokallaða, Anton Ari og Arnar Sveinn, litu ekki vel út í því marki en Arnar virtist beygja sig undir boltann í staðinn fyrir að stanga hann burt og mark beint úr hornspyrnu Rúnars Sigurgeirssonar staðreynd. Blaut tuska í andlitið á Blikum en Keflvíkingar tvíefldust og fengu trú á verkefninu. Óskar hafði lítinn húmor fyrir þessu marki og tók Arnar Svein, Davíð Ingvars, Viktor Örn og Stefán Inga út af og inn komu Damir, Andri Rafn, Höskuldur og Mikkelsen. Sá danski lét strax að sér kveða og átti fínt skot sem Guðjón Pétur fylgdi eftir en Sindri, markvörður Keflvíkinga, stóð vaktina í bæði skiptin. Stuttu síðar voru Keflvíkingar komnir yfir. Eftir laglegt samspil kom fyrirgjöf þar sem Kian Williams var á undan Antoni Ara í boltann og potaði honum yfir línuna. 1-2 og meðlimir GPL club komnir með óbragð í munninn. Viktor Karl kom nokkru síðar inn á fyrir Guðjón Pétur við það kom aðeins meiri hraði inn á miðjuna og pressa Blika byrjaði að þyngjast. Við uppskárum svo jöfnunarmark á 81. mínútu og var þar að sjálfsögðu heimalingurinn Kiddi Steindórs að verki. Gísli dansaði við endalínuna kom boltanum inn í teiginn sem endaði svo hjá Kidda. Hægri fótur hægra horn, bæng 2-2. Einfalt. Já takk. Fimm mínútum síðar var nánast sama uppskrift nema þá barst boltinn frá hægri kantinum inn í teiginn en ekki þeim vinstri eins og í jöfnunarmarkinu. Viktor Karl kom boltanum á Kwame sem fór snyrtilega framhjá einum Keflvíkingi, gaf á Gísla hann út á Kidda og aftur; hægri fótur, hægra horn. Alvöru slútt hjá þessum góða dreng sem líður hvergi betur en á Kópavogsvelli. Þetta var seinasta stóra atriðið í þessum furðulega leik. 3-2 sigur staðreynd en við hleyptum Keflavík alltof mikið inn í þennan leik. Kjartan Einarsson getur verið stoltur af báðum liðum, því Keflavík gáfu okkur Blikum hörkuleik og geta verið ánægðir með sína frammistöðu.

Mörkin úr leiknum koma hér.

image

Það er ljóst að í pottinum fyrir 16-liða úrslit í bikarkeppni íslenskra mjólkurbænda verða feikisterk lið en lítið var um svokölluð „cupset“ í þessari umferð. Það er því nánast óhjákvæmilegt að einn eða fleiri stórleikir verði í 16-liða úrslitum bikarsins, en það verður dregið föstudaginn 26. júní. Á meðan bíðum við og vonumst til að fá ekki útileik þar sem allir vita, og þá allra helst Kiddi Steindórs, að heima er best.

Freyr Snorrason

Frétt uppfærð 26.6: Blikamenn fá Gróttu heimsókn á Kópavogsvöll í 16-liða úrslitum.

BlikarTV: Viðtöl eftir leik við Óskar Hrafn og markaskorarana Stefán Inga og Kristinn Steindórs. 

Til baka