BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: KR - Breiðablik

16.07.2021 image

Á sunnudaginn ferðast Blikaliðið sem leið liggur í vesturbæ Reykjavíkur til að etja kappi við svarthvita og röndótta KR-inga í 13. umferð Pepsi MAX deildarinnar. Á undanförnum árum hefur stigasöfnun á heimavelli þeirra röndóttu gengið bölvanlega. Leikurinn er sannkallaður toppslagur. Blikar eru í 3. sæti með 22 stig eftir 11 leiki - einu stigi á eftir Reykjavíkur Víkingum í 2. sæti og þegar þetta er skrifað 5 stigum á eftir Valsmönnum í efsta sæti en Valsmenn eiga leik gegn ÍA á laugardaginn. Bæði lið í tveimur efstu sætunum hafa hafa spilað leik meira en Blikamenn sem á líka við um KR-inga sem eru í 4. sæti með 21 stig eftir 12 leiki. 

Blikaliðið á leik inni vegna frestaðs leiks við KA úr 7. umferð. Leikurinn er nú skráður á 29. júlí en eftir öruggan sigur okkar manna á Racing FC Union í gærkvöld er ljóst að við fáum Austria Vín í heimsókn á Kópavogsvöll fimmtudaginn 29. júlí. 

Hinsvegar var leik Vals og Blika í 12. umferð flýtt vegna þáttöku liðanna í Evrópuverkefnum þannig að Breiðabliksliðið hefur leiið 11 leiki af 22. Stigaárangur Blikaliðsins til þessa í Pepsi MAX  (11 leikir) er 22 stig. Ef þetta er borið saman við gengi Blikaliðsins síðustu 16 ár - þ.e. frá því að Blikaliðið tryggði sér aftur sæti meðal þeirra bestu - þá jafnar þessi stigaárangur árin 2019 og 2015. Aðeins tvisvar á þessum 16 árum er félagið með fleiri stig - 2010 þegar liðið landaði Íslandsmeistaratitlinum og "Evrópuárið" mikla 2013 var Blikaliðið með 23 stig eftir 11 umferðir bæði árin.

Leikur okkar manna gegn KR verður flautaður á kl.19:15 á sunnudagskvöld. 

Stöð 2 Sport sýnir beint frá leiknum.

Stöðutaflan fyrir leikinn á sunnudaginn. Blikar eru í 3. sæti með 22 stig eftir 11 leiki og 3 sigurleiki í röð. KR fylgir fast á eftir með 21 stig eftir 12 leiki og 2 sigurleiki í röð:

image

Sagan

Innbyrðis leikir KR og Breiðabliks í efstu deild frá upphafi eru 69. KR-ingar hafa vinninginn með 33 sigra gegn 15 sigrum Blikamanna. Jafnteflin eru 21.

Fróðleiksmoli. Allra fyrsti leikur Blika og KR í efstu deild var fyrir 50 árum - árið 1971 sem var jafnframt fyrsta ár Blika í efstu deild. Leikið var á gamla Melavellinum sem þá var heimavöllur Breiðabliks í efstu deild - þar til að Kópavogsvöllur var vígður í júní 1975 Okkar menn gerðu sér lítið fyrir og unnu þennan fyrsta leik við KR-inga með einu marki gegn engu. Það var snillingurinn Haraldur Erlendsson sem skoraði markið - þá 26 ára gamall. En Haraldur er enn að 50 árum síðar - nú 76 ára ungur. Hann er nýbakaður Íslandsmeistari (ópinberlega) í flokki 60+ í knattspyrnu eftir þriggja liða mót í Fífunni um daginn. Haraldur var elsti maður mótsins. Haraldur hefur unnið mikil afrek fyrir félagið en hann lék 158 leiki með meistaraflokki Breiðabliks á árunum 1969 -1976 og skoraði fyrsta mark Breiðabliks gegn KR í efstu deild þegar Blikar unnu leikinn 1971. Hann var einnig þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Breiðabliki þegar þær lönduðu fyrsta Íslandsmeistaratitlinum, af 18 titlum til þessa, árið 1977.

image

Haraldur Erlendendsson með boltann. Einnig á mynd er maður mótsins - Konráð Konráðsson markvörður, sem kom sá og sigraði með glæsilegri frammistöðu milli stanganna.

23.06 18:00
1971
Breiðablik
KR
1:0
4
1
A-deild | 4. umferð
Melavöllur | #

Síðustu 5 á KR velli

Síðustu tvær heimsóknir í Skjólið skiluðu okkar mönnum engum stigum. En ef gluggað er í síðustu 15 ár (2006-2020) þá kemur í ljós að árin 2013-2018 gera liðin sex jafntefli í röð: fimm 1:1 jafntefli og eitt 0:0 jafntefli. Heilt yfir árin 2006-2020 eru jafnteflin 7, KR sigrar eru 5 og Blikasigrar eru 3. 

Leikmenn & þjálfarar

Finnur Orri Margeirsson, þriðji leikjahæsti núverandi leikmanna Blika, lék 103 leiki með KR-liðinu á árunum 2016-2020 en Finnur gekk til liðs við KR eftir að hafa spilað í Noregi árið 2015.

Nokkrir uppaldir Blikar leika með Vesturbæjarliðinu. Kristinn Jónsson gekk til liðs við KR eftir keppnistímabilið 2017. Arnór Sveinn Aðalsteinsson söðlaði um árið 2016. Og fyrrverandi leikmaður Blika, Akureyringurinn Atli Sigurjónsson, leikur nú aftur með KR en hann lék 49 mótsleiki með Breiðabliki á árunum 2015 til 2017.

Þjálfarateymi Breiðabliks er með sterka tengingu við KR sem leikmenn og þjálfarar.

Leikmannahópur Breiðabliks 2021

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 13. umferðar er hamhleypa til verka og lætur fátt stoppa sig. Hún var formaður meistaraflokksráðs kvenna og síðar formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks í 5 ár og er eina konan sem gegnt hefur því starfi þ.m.t árið 2013 þegar Breiðabliksliðið náði þeima áfanga að spila 3 umferðir í Evrópudeild UEFA. SpáBlikinn á margar minningar úr starfinu hjá Breiðabliki. Eftirminnanlegur er sigur Breiðabliks á Sturm Graz í Austurríki þar sem Austurríkismennirnir höfðu þegar gengið frá ferð í næstu umferð Evrópukeppninnar. Einnig Íslands og bikarmeistaratitlum kvennaliðsins. Stoltust segist samt SpáBliki umferðarinnar vera af yngri flokka starfi Breiðabliks og þegar hún mæti á Símamótið í Kópavogsdalnum og sjái þann ótrúlega fjölda ungra þátttakenda og fleiri hundruðu sjálfboðaliða sem geri félagi eins og Breiðablik kleyft að halda þetta stærsta barna og unglingamót á Íslandi. SpáBliki 13. umferðar á sæti í stjórn KSÍ og er annar varaformaður sambandsins.

Borghildur Sigurðardóttir: hvernig fer leikurinn:

Þetta er snúið og verður gríðarlega erfiður leikur. VIð höfum ekki átt góðu gengi að fagna gegn KR undanfarin misseri en einhverntíma snýst það við og af hverju ekki núna. Okkar menn eru á góðu skriði og ná vonandi að taka það með sér inn í þennan leik. KR-ingar hafa verið svolítið heitir og kaldir til skiptist en virðast alltaf finna sig vel á móti okkur.

Núna verður þetta þannig að við komumst í 2-0 í fyrrihálfleik með mörkum frá Andra Rafni og Kidda Steindórs. KR-ingar koma dýrvitlausir í síðari hálfleik og ná að pota inn marki eftir 60 mínútna leik og verður það að sjálfsögðu Blikinn í bakverðinum sem gerir það. Eftir það þéttum við raðrnar og klárum hjartapillurnar okkar í stúkunni en strákarnir halda þetta út og landa langþráðum sigri í Frostaskjólinu.

En ég vil hvetja alla Blika til að mæta á völlinn en það hefur verið sorglega fátt í stúkunni á leikjum í sumar í báðum Pepsídeildum- koma svo áfram Breiðablik!

image

Borghildur Sigurðardóttir við störf sem varaformaður KSÍ.

Kópacabana

Okkar allra bestu stuðningsmenn í Kópacabana sveitinni, með Valdimar Pál Brynjólfsson og félaga í broddi fylkingar, hafa staðið vaktina á öllum leikjum til þessa í sumar. Þeir mæta örugglega á leikinn á sunnudaginn til að hvetja sína menn eins og áður. Ekki láta þitt eftir liggja!

image

Dagskrá

Flautað verður til leiks á KR vellinum í Frostaskjólinu kl.19:15 á sunnudaginn. 

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka