BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Þolinmæði þrautir vinnur allar

19.05.2015

Það var heldur hráslagarlegt í Mosfellsbænum þegar flautað var til leiks í leik Aftureldingar og Blika í annari umferð Pepsídeildarinnar í kvöld.  Rigningarúði, nokkur vindur og frekar kalt. Blikar stilltu upp sterku liði, allar heilar nema Ingibjörg sem á við smávægileg meiðsli að stríða.  Byrjunarliðið var þannig skipað:  Í vörn voru þær Hallbera, Fríða, Guðrún og Fjolla  á miðjunni voru Andea og Rakel, Fanndís og Svava á köntunum, Telma Hjaltalín fremst og Aldís í holunni.

Leikskýrsla

Það var ágætlega mætt á leikinn og af áhorfendum voru um 80% Blikar.  En menn voru rétt að koma sér fyrir þegar Afturelding brunaði í sókn og skoraði mark. Þar var að verki Lovísa Mjöll, reyndar kolrangstæð en við Blikar höfum svo sem séð þess háttar æfingar hjá línuvörðum áður.  Staðan orðin 1-0 og okkar stelpur greinilega nokkuð slegnar út af laginu strax í byrjun.  Vorum reyndar um 80% með boltann í fyrri hálfleik án þess að skapa okkur umtalsverð færi ef undan er skilin góð aukaspyrna Hallberu sem fór í slá en önnur skot Blika rötuðu beint í hendur Mistar markvarðar þeirra Mosfellinga.

En það var allt annað lið sem mætti til leiks í síðari hálfleik, og mikill kraftur strax frá fyrstu mínútu.  Þjálfararnir gerðu eina breytingu, Fjolla fór af velli og inná kom Ásta Eir. Taktísk breyting, Fjolla hafði verið lifleg í fyrri halfleik en með þessari skiptingu var farið í þriggja manna vörn.  Pressa Blika skilaði síðan jöfnunarmarki á 56  mínútu þegar Fanndís átti góða fyrirgjöf sem Telma kláraði gegn sínum gömlu félögum, ekki í fyrsta skipti sem hún skorar í þessum viðureignum.

Jóna kom inná fyrir Aldísi á 79 mínútu og áfram hélt baráttan, Mosfellingar vörðust hetjulega en á 82 mínútu opnuðust flóðgáttirnar, Hallbera átti þá góða fyrirgjöf sem Svava hamraði af ótrúlegum krafti í markið, glæsilegur skalli, frábært mark.  Tveimur mínútum síðar átti Ásta fyrirgjöf af hægri vængnum á Rakel sem skoraði fínt mark, og nú héldu stelpunum engin bönd, Ásta átti aftur góða fyrirgjöf á 87 minútu á Fanndísi sem setti boltann í netið og á lokamínútunni geystist Svava svo fram völlinn og kláraði þessar ótrúlegu lokamínútur með flottu marki.  Lokastaðan 1- 5 og annar sigur okkar í deildinni og toppsætið tryggt.

Stelpurnar sýndu fínan karakter í þessum leik. Lentu undir gegn mjög varnarsinnuðu lið en komu stelkar inn í síðari hálfelik og kláruðu leikinn meistaralega,

Næsti leikur er síðan á Kópavogsvelli þann 28 maí þegar nýliðar KR koma í heimsókn. Vonandi sjáum við sem flesta á þeim leik. 

Til baka