BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Það má stóla á stelpurnar

06.08.2021

Það sást að Örlygsstaðir eru ekki langt undan þegar Blikastelpurnar fóru á Krókinn í kvöld. Þar var háð fjölmennasta orrusta Sturlungaaldar og miklar tilfinningar í gangi þar sem „Sunnanfólk“ hafði betur, rétt eins og í kvöld. Gríðarleg barátta einkenndi leik Tindastóls og Breiðabliks og okkar konur höfðu betur, eins og við var að búast þegar baráttuleikur er spilaður.

Tíðindamaður Blikar.is fylgdist með leiknum í gegnum sjónvarp (takk, Stöð2 Sport!) og það verður að segjast að fá sjónarhorn myndavéla á fótboltaleik standast vellinum á Sauðárkróki snúning. Með reglulegu millibili blöstu við sólu baðaðar Drangey og Málmey sem var heppilegt til að lækka blóðþrýsting tíðindamanns með reglulegu millibili í þessum baráttuleik, sem byrjaði reyndar ekki vel frekar en sumir aðrir Breiðabliksleikir þessa dagana.

Villi gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá vonbrigðajafnteflisleiknum á móti Þór/KA. Kristín Dís, Karítas og Tiffany komu inn í stað Hildar Þóru, Hildar Antonsdóttur og Taylor. Það kom ekki í veg fyrir að heimakonur negldu á okkur rosamarki beint úr aukaspyrnu strax á 3. mínútu.

Úbbs. Var þetta dagur Sturlunga?

Neibbs. Nú sáu okkar konur, sem voru hvítklæddar í kvöld, við sér og við hvað var að eiga og tóku við sér. Þegar þrýstingur var settur á heimakonur út um allan völl tók það korter að finna markið. Það var einkar snoturt og kröftugt einkaframtak Karítasar sem skilaði boltanum í netið og blóðþrýstingur tíðindamanns snarlækkaði jafnvel þótt ekkert sæist til eyjanna á Skagafirði það augnablikið.

Mörkin í fyrri hálfleik hefðu alveg getað orðið fleiri, beggja vegna, en staðan 1-1 þegar blásið var bardagahlés.

Í síðari hálfleik var heldur engin miskunn í bardaganum í Skagafirði. Þótt mannfall væri með minna móti var gríðarlega hart barist um allan völl en gæði spilamennskunnar aðgreindi liðin. Breiðablikskonur voru svakalega duglegar að finna afburðakonurnar á köntunum og það skilaði stöðugri ógn; skotum rétt framhjá, aukaspyrnum á varasömum stöðum og hornspyrnum. Eftir tæplega klukkutíma leik skilaði eljusemin og dugnaðurinn marki úr horni Áslaugar Mundu sem Ásta Eir sett í netið við nærstöngina.

Það var klókt hjá Villa að gera tvöfalda skiptingu skömmu síðar til að halda uppi vinnuseminni og hlaupunum. Hildur og hin skagfirska Vigdís komu þá inn fyrir Tiffany og Chloé. Tindastóll gerði strax á eftir líka tvöfalda skiptingu og þar komu inn nýjustu fjárfestingar skagfirska efnahagssvæðisins úr félagaskiptaglugganum.

Það tapaðist ekki slag úr taktinum hjá okkar konum við breytingarnar, síður en svo. Mark var dæmt af vegna rangstöðu örskömmu síðar (líklega réttilega) en svo náði tíðindamaður nánast hvíldarpúlsi eftir að Karítas bætti þriðja markinu við á 68. mínútu. Enda héldu okkar konur áfram að ógna látlaust og vörnin var vakandi þegar andstæðingarnir sóttu nokkrum sinnum hvasst. Sigrinum var siglt heim.

Eftir að Valskonur kreistu fram sigur í uppbótartíma á móti Eyjakonum í kvöld er ljóst að frekari misstig í deildinni eru ekki í boði og að næsti leikur í deild – föstudaginn 13. á móti Val – gerir út um það hvort við eigum yfirleitt séns á að ná þeim. Þá þarf nú að mæta á völlinn.

Baráttuleikurinn fyrir norðan í kvöld gefur líka góðar vonir fyrir bikarúrslitin. Það gæti einmitt orðið svona leikur.

Eiríkur Hjálmarsson

Umfjöllun á visir.is og mbl.is

Til baka