Baráttusigur á öflugu Selfossliði
24.06.2015Það var fallegur dagur á Kópavogsvelli í gærkvöldi, milt og gott veður og toppslagur í Pepsídeildinni á milli Breiðabliks og Selfoss.
Ein breytng var gerð á byrjunarliði Blika frá Valssigrinum í síðustu viku. Fjolla Shala fór á bekkinn en inn kom Ásta Eir. En að öðru leit var uppstillingin hefðbundin, Sonný í markinu, Hallbera, Málfríður, Guðrún og Ásta í vörninni, Rakel, Andrea og Jóna á miðjunni og síðan Svava, Fanndís og Telma frammi.
Ingibjörg var komin á bekkinn eftir nokkra fjarveru vegna meiðsla og var það ánægulegt að sjá enda stóð hún sig vel á undirbúningstímabilinu og við viljum fara að sjá hana í alvöru Pepsíslag.
Það voru tæplega 500 áhorfendur mættir til að sjá leikinn. Selfyssingar mættu vel og Kopacabana voru mættir ásamt fjölda annara stuðningsmanna Blika. Stuðningur í stúkunni var til fyrirmyndar frá báðum liðum þó svo að sjálfsögðu hafi Kópacabana og Blikar haft nokkra yfirhönd þar. Það er búin að vera frábær mæting hjá okkur í sumar og vonandi verður framhald á því.
Selfossliðið hefur verið á mikilli siglingu og hafði fyrir þennan leik unnið 5 leiki í röð og aðeins tapað einum leik í mótinu. Þetta var því sannkallaður toppslagur og hann stóð undir nafni sem slíkur. Leikurinn einkenndis af mikilli stöðubaráttu frá fyrstu mínútu og lítið um færi í öllum leiknum. Hjá Selfyssingum var Guðmunda spræk enda þar á ferðinni einn allra besti leikmaður deildarinnar hún gerði nokkrum sinnum nokkur ursla en hafði ekki erindi sem erfiði. Blikar áttu nokkrar ágætis sóknir í fyrri hálfleik en það vantaði kraft í að klára og það var ekki fyrr en á 43 mínútu sem Fanndís fær frábæra sendingu frá Andreu inn fyrir vörn Selfyssinga þar sem Summer Williams hafði ekki önnur úrræði en að brjóta á henni og að sjálfsögðu umsvifalaust dæmt víti. Þjálfarateymi Selfyssinga vara algerlega brjálað vegna þessa dóms og sömuleiðis þjálfarar Blika þar sem Summer fékk einungis gult spjald fyrir vikið en ekki rautt eins og rétt hefði verið að gera. En nóg um það, Fanndís skoraði að sjálfsögðu af miklu öryggi úr vítaspyrnunni og skömmu síðar voru liðin send til búningsherbergja í leikhlé.
Eftir hlé var svipað upp á teningnum, Selfyssingar voru reyndar meira með boltan en í fyrri hálfleik en sköpuðu sér engin færi enda Blikavörnin ekki árennileg og einungis búin að fá á sig 2 mörk í allt sumar. Bestu færi síðari hálfleiks komu eftir skyndisóknir Blika en inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan sanngjarn sigur Blika í miklum baráttuleik þar sem lítið var gefið eftir.
Eftir leikinn eru Blikarnir komnir með 4 stiga forystu á toppi deildarinnar en það eru erfiðir leikir framundan, næst þann 29 júní heima gegn Þór/KA og síðan 4 júlí úti gegn ÍBV.