Breiðablik - Rosengard á morgun
04.10.2016Á morgun miðvikudag kl. 15:30 fer fram stórleikur á Kópavogsvelli þegar Breiðablik tekur á móti Rosengard frá Svíþjóð í 32 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Það er óhætt að segja að þetta sé stórviðburður því í liði Rosengard leikur meðal annarra hin brasilíska Marta sem er af flestum talin besti leikmaður allra tíma í kvennaboltanum og hefur verið líkt við hinn goðsagnakennda Pele. Hún er markahæsti leikmaður allra tíma í lokamótum HM og var valinn besti leikmaður í heimi 5 ár í röð hjá FIFA sem er nokkuð sem enginn hefur leikið eftir. Þetta er því viðburður sem enginn áhugamaður um kvennaknattspyrnu getur látið fram hjá sér fara.
Með liðinu leikur líka hin sænska Lotta Schelin sem hefur leikið um árabil með einu allra besta kvennaliði heims, Lyon í Frakklandi, þar sem hún skoraði 143 mörk í 138 leikjum en hún skipti yfir í Rosengard fyrir þetta tímabil.
Leikurinn hefst eins og áður sagði kl. 15:30 á Kópavogsvelli.
Það kostar ekki nema 1000 kr. fyrir fullorðna en frítt fyrir börn. Meðlimir Blikaklúbbsins greiða 500 kr.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!