ÍBV – Breiðablik
09.07.2015Miðvikudaginn 8 júlí 2015
Hásteinsvöllur, 10 stiga hiti 9m/s
Byrjunarlið Breiðabliks:
NR. 1 Sonný Lára Þráinsdóttir
2 Svava Rós Guðmundsdóttir
8 Málfríður Erna Sigurðardóttir
9 Telma Hjaltalín Þrastardóttir
10 Jóna Kristín Hauksdóttir
13 Ásta Eir Árnadóttir
14 Hallbera Guðný Gísladóttir
22 Rakel Hönnudóttir
23 Fanndís Friðriksdóttir
28 Guðrún Arnardóttir
29 Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir
Hér má nálgast leikskýrslu.
Mín. 00:00 Breiðablik byrjar með boltann og leikur með vindi.
Fanndís fær gott færi á 7.mín en skot hennar framhjá, fer í leikmann ÍBV og Blikar fá hornspyrnu. Hornspyrnunni lýkur með skoti Fanndísar framhjá. Fyrstu tvö færi leiksins voru Blika. Svava Rós á sendingu fyrir markið á 11.mín, ÍBV hreinsar og Blikar fá aukaspyrnu hægra meginn sem ekkert verður úr. Á 12.mín á ÍBV sókn sem, fá hornspyrnu og Svava Rós bjargar á línu. ÍBV hresstist aðeins á þessum kafla leiksins og fengu aukaspyrnu á 20.mín sem var vægast sagt af lélegustu gerð! Á 22.mín átti Rakel Hönnu gott skot rétt framhjá sem kom eftir að markmaður ÍBV hafði kýlt fasta og góða fyrirgjöfu Svövu Rós út í teig. Þegar hér var komið við sögu þá voru Blikar búnir að vera meira með boltann, ÍBV beitti löngum sendingum upp í vindinn til að Shaneka Jodian Gordon gæti unnið úr. Miðju og varnarmenn Blika mjög sterkir og skipulagðar í sínum leik. Sóknir Blika einnig vel útfærðar í sterkum meðvind sem oft reyndust hættulegar. Á 29.mín komst Telma næstum í gegnum vörn ÍBV. Á 39.mín á Fanndís flotta fyrirgjöf sem markmaður ÍBV greip. Á 42.mínútu áttu Blikar sókn, komust ekki í gegn en einn leikmaður ÍBV sendir á Andreu Rán og skorar hún glæsilegt mark, flestir áhorfendur á Hásteinsvelli fyrir utan 10 – 15 vildu meina að um rangstöðu hefði verið að ræða en mjög góður ,annar línuvörður, leiksins sá að leikmaður ÍBV gaf sendinguna, markið stóð og var algjörlega í takt við leikinn. Staðan 0 – 1 í hálfleik en hefði með smá heppni getað verið allavega 0 – 2.
Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og komust í gegnum vörn ÍBV en skotið fór yfir. Fanndís með annað mark Blika á 49.mín eftir að markmaður ÍBV hafði farið í útlhlaup og rekist í samherja sinn. Fanndís með gott skot og staðan orðin 0 – 2. Fanndís á svo skot í Telmu á 52.mín sem endar í markinu en Telma er rangstæði og markið því ekki dæmt gott. Enn eru Blikar í færi mínútu síðar þar sem að Andrea Rán skallar að marki en markvörður ÍBV bjargar frábærlega, boltinn berst til Fanndísar sem er dæmd rangstæð. Á 55.mín á Svava Rós frábæran sprett upp hægri kantinn þar sem að hún hleypur hverja ÍBV meyjuna af sér og kemst í gott færi, brotið á henni og víti dæmt. Fanndís tekur spyrnuna en er ekki örugg með hvort hornið hún á að velja og markamðurinn les hana og ver spyrnuna. Eftir þessa markvörslu sóttu Eyjameyjar aðeins í sig veðrið og eiga aðeins meira í leiknum. Einnig lægði aðeins og aðstæður skánuðu mikið til fótbolta iðkunnar. Á 70.mín skiptu Blikar, Aldís Kara kom inn á fyrir Telmu, Telma búin að vera ógnandi og sý vinnandi. Þremur mínútum síðar á Rakel Hönnu glæsilega stungusendingu inn á Fanndís sem skorar auðveldlega. Þegar hér var komið við sögu var farið að draga mjög á köggulinn hana Rakel Hönnu enda búin að vera „aðeins“ lasin undanfarið, henni var skipt útaf og inn á völlinn kom Fjolla, flottur leikur hjá fyrirliðanum þó að oft hafi maður séð hana eiga betri leik. Aldís kom vel inni leikinn og á 80.mín átti Jóna flotta stungu sendingu á hana en skot hennar fór rétt framhjá. Þriðja og síðasta skipingin átti sér stað á 84.mín þegar Svava Rós fór útaf og Hildur Sif kom inná. Svava Rós átti mjög góðan leik, sífellt ógnandi á hægri kantinum með hraða sínum og dugnaði. Jóna átti frábærann „klobba“ á 85.mínútu J J alltaf gaman að sjá klobba í leikjum. Á 89.mín skoraði Fanndís þriðja markið sitt, og erum við Blikar í stúkunni alveg búnir að gleyma að hún lét verja frá sér vítið. Glæsilegur leikur hennar í kvöld. Svo undir lok venjulegs leiktíma hefði alveg verið hægt að flauta annað víti þar sem að brotið (allavega eins og ég sá það) var á Fanndísi inni í teig ÍBV.
Leiknum lauk með 0 – 4 sigri Breiðabliks og hefði sá sigur getað orðið stærri og hefði það ekki verið gegn gangi leiksins. Enn og aftur heldur frábær vörn og markmaður hreinu og er liðið „bara“ búið að fá á sig 2 mörk en skora 29. Frábær markatala og klárt mál að liðið hefur á að skipa frábærri vörn með mjög góðan markmann fyrir aftan. Miðjan var sterk og gaf ekki mörg færi á sendingum á milli varnar og miðjunnar þar sem að vinnusemin var mikil. Heilt yfir þá var liðið allt að vinna vel fyrir hverja aðra og er gott til þess að vita hvað hópurinn er góður og þó að skipt hafi verið inná þremur leikmönnum þá veikist liðið ekki. Dómarar leiksins voru mjög góðir og sýndu með leik þessum að hægt er að láta leiki fljóta vel án þess að þeir fari í einhverja vitleysu. Ekkert spjald var gefið þrátt fyrir að mikið hafi verið í húfi fyrir bæði lið og baráttan mikil.