BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Draumabyrjun dugði ekki til sigurs

03.09.2013

Það viðraði ekki vel til knattspyrnuiðkunar þegar stelpurnar okkar tóku á móti FH í Pepsídeild kvenna í gær á Kópavogsvellinum. Slagveður, hávaðarok og rökkur þegar leið á seinni hálfleikinn einkenndi leikinn kannski öðru framar. En þrátt fyrir slakar aðstæður tókst báðum liðum furðu vel að leika knettinum sín á milli og skapa sér færi.

Blikarnir fengu draumabyrjun. Okkar stelpur hófu leikinn, léku knettinum í átt að FH-markinu og fyrirgjöf frá hægri fór í fætur leikmanns FH sem skoraði sjálfsmark eftir aðeins 17 sekúndur. Sannarlega draumabyrjun. Og þó veðrið hafi versnað batnaði staðan hjá okkur því á 5. mínútu fengu okkar stelpur aukaspyrnu örskammt utan vítateigs. Spyrnuna tók fyrirliðinn okkar, Greta Mjöll Samúelsdóttir, og hún klíndi boltanum í markið, virkilega snyrtilega og vel gert hjá Gretu. Frábær byrjun, 2-0 eftir aðeins fimm mínútur og lífið og leikurinn brosti við Blikum.

En það fjaraði dálítið undan leik okkar stúlkna þegar leið á fyrri hálfleikinn og á 22. mínútu mátti Mist Elíasdóttir markvörður, taka á honum stóra sínum og varði hreint meistaralega eftir sókn FH-liðsins. En hún átti ekki svar fimm mínútum síðar þegar FH minnkaði muninn í 2-1 eftir misskilning í vörn Breiðabliks.

FH-ingar efldust við markið og tíu mínútum síðar, á 37. mínútu, jöfnuðu þær leikinn eftir virkilega vel uppbyggða sókn.  2-2 í hálfleik og sjálfsagt hefur Hlynur sagt nokkur vel valin orð við liðið sitt í leikhléinu.

Í seinni hálfleik léku okkar stelpur undan vindinum og voru sannarlega betri aðilinn allan hálfleikinn. Á 77. mínútu fékk Rakel Hönnudóttir besta færið til að taka öll stigin þrjú þegar hún komst ein á móti markverði, lék á hann og skaut að marki en varnarmaður FH barðist vel og komst fyrir boltann og við fengum horn. Úr horninu áttum við skalla sem fór rétt yfir markið.

Rakel komst aftur í gott færi á 88. mínútu en skot hennar fór yfir og þar með fór síðasta færi Breiðabliks til að næla í öll stigin þrjú.

Úrslit leiksins 2-2 og eru það mikil vonbrigði fyrir Breiðablik sem er í baráttu um 2. sætið í deildinni.

Blikastelpur eiga erfitt prógram framundan, leikur gegn ÍBV í Eyjum á laugardag og svo heima gegn Þór/KA miðvikudaginn 11. september.  Blikar þurfa að fjölmenna á völlinn og styðja vel við bakið á stelpunum.

Koma svo – ÁFRAM BREIÐABLIK!!

Til baka