Einn fyrir alla – allir fyrir einn
28.05.2013Sumarið mætti í Mosfellsbæinn í kvöld, loksins, segi ég nú bara. Já það var sunnan andvari á Varmárvelli þegar okkar stelpur mættu þangað til að sækja þrjú skyldustig gegn Aftureldingu. Ég var full eftirvæntingar þegar ég mætti á leikstað og hugsaði með mér, „ætli leikurinn endi 3-0 eins og fimm leikir af síðustu sex sem liðin hafa mæst?“ Og viti menn – 3-0 varð niðurstaðan, okkar stúlkum í vil. Það held ég nú.
Hlynur stillti upp nokkuð breyttu liði frá leiknum gegn Selfossi enda ekki annað hægt þar sem tveir leikmenn (Greta Mjöll og Þórdís Hrönn) meiddust í þeim leik og á Þórdís enn einhverja daga eftir áður en hún verður leikfær að nýju. Það bítur hins vegar ekkert á Gretu Mjöll sem var mætt í þennan leik enn öflugri en fyrr og í spánýja stöðu.
Birna var á sínum stað í markinu, Greta, Fjolla, Ragna og María Rós skipuðu varnarlínuna (já fjórir leikmenn í vörn í stað þriggja áður), svo má deila um hvort þær hafi verið þrjár eða fjórar á miðjunni en ég held að uppleggið hafi verið að Rakel Hönnu, Hlín, Jóna Kristín og Berglind Björg hafi verið á miðjunni en frammi puðuðu þær Björk og Aldís Kara.
23 sekúndur í fyrsta markið
Það var eins gott að leikurinn tafðist um nokkrar mínútur því annars hefðu margir misst af fyrsta markinu sem leit dagsins ljós eftir aðeins 23 sekúndur. Blikastelpur tóku miðju, boltinn barst út á kantinn vinstra megin þar sem Aldís lék í átt að marki og setti boltann af öryggi framhjá markverði Aftureldingar. Já 1-0 og við, fastagestirnir á leikjum Blikastelpna, bjuggumst við markasúpu í blíðviðrinu.
Það virtist líka ætla að verða þannig. Grænklæddar léku við hvern sinn fingur og á 18. mínútu bar Rakel boltann upp miðjan völlinn, framhjá hverjum varnarmanninum á fætur öðrum, sendi stoðsendingu (með viðkomu í varnarmanni Aftureldingar) á sjálfa sig og skilaði svo boltanum í markið. Hreint frábært mark hjá þessari snjöllu knattspyrnukonu. Rakel er sannarlega að komast í sitt besta form og hefur átt frábæra leiki með Blikunum það sem af er sumri. Vel gert Rakel – en bara svo þú vitir það, við viljum meira takk!
En eitthvað gekk meyjunum okkar að fylgja mörkunum tveimur eftir, þær náðu ekki að láta boltann vinna nægilega vel fyrir sig og samspilið úti á vell gekk ekki eins og best verður á kosið. Alltof oft létu stelpurnar það henda sig að senda langa bolta fram í óvissuna í stað þess að taka boltann niður, tala saman og leyfa boltanum að vinna erfiðisvinnuna. Í staðinn komst Afturelding í nokkur ágæt færi en sem betur fer var vörnin okkar og markvörðurinn vandanum vaxinn.
Á 44. mínútu meiddist Aldís Kara á ökkla og varð að fara af velli en í hennar stað kom Rakel Ýr Einarsdóttir. Hlynur þjálfari gerði síðan aðra breytingu í leikhléinu en Björk Gunnarsdóttir haltraði af velli í hálfleiknum og í hennar stað kom Andrea Rán Hauksdóttir. Að gefnu tilefni er rétt að leiðrétta að Haukur Valdimarsson er ekki pabbi hennar, hann á fullt í fangi með þær systur Jónu Kristínu og Hildi Sif sem skiptust á um að vera inná vellinum á 75. mínútu.
Það var tíðindalítið á vesturvígstöðvunum í seinni hálfleik. Leikur okkar stúlkna lagaðist þó nokkuð með ýmsum stöðubreytingum sem Hlynur gerði en fallegasta atvik leiksins átti sér stað á 69. mínútu þegar Rakel óð upp hægri kantinn og sendi frábæra sendingu fyrir markið þar sem Berglind Björg kom og skilaði knettinum meistaralega í netið. Frábært mark og hörðustu stuðningsmenn Mosfellinga sáu sér ekki annað fært en að hrósa þessu glæsilega marki.
Viðraði vel til loftárása
Það viðraði vel til loftárása í Mosfellsbænum í kvöld en stelpurnar okkar voru ekki að hlaða stóru fallbyssurnar sínar í kvöld. Þær gerðu það sem gera þurfti og unnu skyldusigur 3-0. Blikarnir eru með fullt hús stiga og eru á toppi deildarinnar eftir fimm umferðir – við förum ekki fram á meira. En það væri þó skemmtilegra að sjá boltann ganga meira og betur milli manna, sérstaklega á miðsvæðinu og að fá yfirvegun í leik liðsins. Leikmannahópur Breiðabliks í ár er frábærlega vel skipaður og stelpurnar okkar eiga að búa yfir þeirri leikreynslu sem þarf til að láta boltann vinna. Yfirvegun og þolinmæði ásamt öflugum samskiptum inni á vellinum er nauðsyn, og það er gildi skyttanna þriggja sem á að vera leiðarljósið „Einn fyrir alla – allir fyrir einn“.
Liðsheildin er leikmaður dagsins en þó er rétt að nefna þrjá leikmenn sem mér fannst fremstir meðal jafningja. Fjolla Shala var sem klettur í vörninni, átti nokkrar virkilega góðar tæklingar og í seinni hálfleiknum skipti hún sér meira og meira af sóknarleiknum, sem skapaði ógnun og opnaði svæði fyrir miðju- og sóknarmennina. Aldís Kara var að puða vel frammá við á meðan hennar naut við og svo má ég til með að hrósa Rakel Hönnu fyrir frábært mark og stórkostlega fyrirgjöf.
Áfram Breiðablik – alltaf allsstaðar
Ingibjörg Hinriksdóttir, ber ein og óstudd ábyrgð á þessum skrifum og endurspeglar þau ekki endilega skoðun þjóðarinnar.