BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Góður sigur á Selfossi

27.08.2014

Blikastelpur gerðu góða ferð á Selfoss í gær og unnu 2-1 sigur á þéttu Selfossliði.  Fanndís skoraði fyrsta mark leiksins á 19 mínutu með hnitmiðuðu skoti eftir að hafa brotist í gegnum hálft selfossliðið og staðan orðin eitt núll.  Blikastelpur héldu áfram að sækja allan hálfleikinn en inn vildi boltinn ekki.  Síðari hálfleikur hófst með látum því strax á 46 mínútu kom Telma okkur í 2-0.  Eftir það héldum við áfram að sækja en Selfoss komust aðeins meira inn í leikinn með hápressu sem við réðum reyndar ágætlega við með okkar öflugu vörn og öruggan og yfirvegaðan markmann.  Í síðari hluta seinni hálfleiksins misstum við svolítið miðjuna og undir lokin náðu Selfyssingarnir að skora eftir horn og í kjölfarið var eins og smá panic kæmi á Blikana, væntalega hefur heimaleikurinn á móti þeim fyrr í sumar komið upp í hugan, en við héldum út og góður sigur í höfn. Tölurnar segja ekki allt um leikinn því Blikarnir voru mun sterkari aðilinn í leiknum og hefði sigurinn geta orðið stærri en það sem kom kannski mest á óvart í þessum leik var að við höfðum minni stjórn á miðjunni en við höfum haft í allt sumar. 

Besti maður Blika í leiknum var án nokkurs vafa Guðrún Arnardóttir sem var eins og klettur í vörninni gegn sínum gömlu félögum og þetta var einn af hennar bestu leikjum í sumar.  Sonný var traust í markinu og hin unga Arna Dís stóð sig vel í vinstri bakverðinum.

Á meðan við náðum þessum sigri á Selfossi þá gerðu Stjarnan og Valur jafntefli á Hlíðarenda þannig að bilið á milli okkar og Stjörnunar minnkaði aðeins.  Eins og Hlynur þjálfari hefur lýst yfir þá ætlum við að anda ofan í hálsmálið á þeim til enda þessa móts og  dagurinn í gær færði okkur nær því markmiði.  Næsti leikur er heimaleikur á móti Þór/KA  og þar er mjög mikilvægt að halda haus og innbyrða 3 stig. Hvetjum alla til að mæta þar og styðja stelpurnar en leikurinn er miðvikudaginn 3. september kl. 18.  Áfram Breiðablik

Til baka