BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hrikalegt stolt af stelpunum

05.12.2020

Þegar hið óvenjulega Íslandsmót var blásið af í haust var meistaraflokkur kvenna löngu búinn að sanna að þar fór besta lið sumarsins. Mögnuð mulningsvél sem ekkert mátti sín gegn. Þær virtust í betra formi en hin liðin, betur samæfðar, með betra upplegg og toppstykkin í svo góðu lagi að hikstarnir í mótshaldinu, skráveifurnar af veirunni og brottför stormsentersins í atvinnumennsku bitu ekki á þeim. Verðskuldað varð Breiðablik Íslandsmeistari kvenna í 18. sinn á 70 ára afmæli félagsins.

Rétt fyrir skyndileg endalok mótsins var samt ljóst að eitthvað myndi teygjast á boltasparki hjá nokkrum í liðinu. Þær voru búnar að standa sig svo stórvel að þær spiluðu sig þráðbeint inn í byrjunarlið landsliðs Íslands sem var í fínu færi að komast í úrslitakeppni EM á Englandi 2022. Þarna voru samt brekkur framundan fyrir landsliðið, ef ekki hamrar, sem þurfti að klífa og ákaflega skiljanlegt að landsliðsþjálfarinn leitaði í meistaraliðið eftir ferskum hæfileikum sem kæmu sér vel þegar fengist væri við síðustu og erfiðustu hjallana.

Fyrst Svíarnir svo Valur

Þegar síðasta leiknum sem Breiðablik spilaði á Íslandsmótinu lauk með afgerandi 0-1 sigri Breiðabliks á móti Val 3. október, höfðu þrjár verið í byrjunarliðinu tveimur vikum fyrr í mikilvægu jafntefli á móti Svíum hér heima. Þessar þrjár voru allar ófæddar þegar aldamótaárið gekk í garð – þær Sveindís, Alexandra og Karólína – en voru nú að byrja mikilvægan landsleik eins besta landsliðs heims á móti öðru sem er jafnvel enn hærra skrifað. Á bekknum var Agla María sem fæddist rétt fyrir aldamótin en þegar komin með 30 landsleiki og þar af nokkra í byrjunarliðinu.

Ég er þeirrar gerðar að mér finnst svakalega gaman þegar liðið mitt vinnur leiki en jafnvel enn yndislegra að sjá þegar ungt fólk blómstrar í sínu. Þarna var svo sannarlega dæmi um það og mér finnst þetta frábært dæmi um að félagið okkar stendur sig vel í að greiða ungu fólki leið að fjölinni þess. Það skiptir mig miklu, fyrir það er ég þakklátur og af því er ég stoltur.

Í þessum mikilvæga Svíaleik voru líka á bekknum hún Rakel sem ég tek hatt minn ofan fyrir og nánast höfuð í þökk nú þegar hún hefur sagt landsliðsferlinum lokið, Berglind Björg, þá nýfarin til Le Havre, og markmaðurinn Sonný Lára. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að varnarvinna Breiðabliksliðsins í ár hafi haldið Sonný út úr byrjunarliði landsliðsins; þótt hún hafi varið vel þá hefur rosaleg varnarvinna Breiðabliks allt frá fremstu konu haldið henni nánast atvinnulausri milli stanganna. Það getur verið farsælla að vera markmaður í slöku varnarliði 😉

Rúmlega helmingurinn spilað með Breiðabliki

Þetta leiðir hugann að því hversu margar kvennanna sem tryggðu Íslandi þetta sæti á fjórða EM í röð (það er rétt að endurtaka þetta: á fjórða EM í röð!) hafa átt einhvern hluta síns ferils hjá Breiðabliki. Ef við lítum á landsleikina síðasta rúma árið, lokasprettinn að úrslitakeppni EM, og bara til þeirra sem komið hafa inn á í leikjunum þá lítur þetta svona út:

Af þeim sem voru inná í leikjunum frá ágúst 2019 til nóvember 2020 komu sjö úr Breiðabliki:

Agla María Albertsdóttir

Alexandra Jóhannsdóttir

Ásta Eir Árnadóttir

Berglind Björg Þorvaldsdóttir

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir

Rakel Hönnudóttir

Sveindís Jane Jónsdóttir

Svo má bæta við öðrum fimm sem hafa einhvern tíma spilað með okkur:

Fanndís Friðriksdóttir

Hallbera Guðný Gísladóttir

Ingibjörg Sigurðardóttir

Sara Björk Gunnarsdóttir

Svava Rós Guðmundsdóttir

Það hafa 23 konur komið við sögu í leikjunum frá í ágúst í fyrra þannig að þessar tólf eru liðlega helmingur hópsins. Þá hafa þessar hérna verið hluti landsliðsins síðasta árið, tekið þátt í undirbúningnum og verið til taks á tréverkinu;

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir

Kristín Dís Árnadóttir

Sonný Lára Þráinsdóttir

Steini og Óli

Þessi listi hér að ofan finnst mér sýna býsna vel að við stuðningsfólk Breiðabliks megum ekki bara vera stolt af frumkvöðlastarfi félagsins í kvennabolta eða fjölda stelpna sem eru að æfa eða fjölda Íslandsmeistaratitla í öllum aldursflokkum heldur eru Breiðablikskonur líka burðarás í ítrekuðum afrekum Íslands á alþjóðavettvangi. Svoleiðis gerist ekki sjálfkrafa. Það gerist með ræktarsemi, fagmennsku, dugnaði og virðingu allra þeirra sem að starfinu koma; sjálfboðaliðanna á Símamótinu, stjórnarfólksins í knattspyrnudeildinni, áhorfendanna á leikjunum, leikmannanna sjálfra auðvitað og þjálfaranna. Hann Steini á auðvitað heiður skilinn fyrir árangur Breiðabliks í sumar. Hann er einn heiðarlegu þjálfaranna sem talar hreint út og þarf þess vegna stundum að útskýra sig í löngu máli fyrir fáfróðum. Hér er ágætt dæmi um þegar hann tekur góðan tíma í að skýra hlutina. Og svo er hann Ólafur Pétursson, aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna og markmannsþjálfari hjá körlunum. Hann hefur verið hjá okkur Blikum um árabil og er einn þeirra sem við sjáum í skýlinu þegar við horfum á hvern sigurleik kvennalandsliðs Íslands á fætur öðrum.

Stolt er góð tilfinning.

Takk stelpur!

Takk öll!

________________________________________________________________________________________________________________

Eiríkur Hjálmarsson
áhorfandi

Til baka