Markaregn í Fífunni.
27.05.2014Blikastelpur gjörsigruðu andlausa FH-inga 13 – 0 í Pepsí-deild kvenna og sáu andstæðingarnir aldrei til sólar, enda var leikurinn spilaður inni í Fífunni.
Eftir að Blikar höfðu aðeins misstigið sig í leiknum á undan og bara fengið 1 stig úr þeirri viðureign þá var augljóst að stelpurnar ætluðu sér öll stigin í kvöld.
Eins og í fyrsta heimaleik Blika var bara nokkuð vel mætt í Fífuna og sáu um 350 manns stelpurnar okkar sigra andstæðing kvöldsins.
Byrjunarlið Blika í kvöld var þannig skipað:
Sonny, Ásta, Fjolla, Guðrún, Hildur, Jóna, Hlín, Rakel, Fanndís, Aldís og Telma.
Það er skemmst frá því að segja að fjörið byrjaði strax og var Fanndís búin að koma Breiðablik í 1 – 0 eftir einungis 3 mínútur. Þegar dómarinn flautaði til leikhlés var staðan orðin 8 – 0 fyrir Breiðablik og hefðu mörkin getað verið mun fleiri hjá Blikum en stelpurnar óðu í færum.
Mörk Blika í fyrri hálfleik skoruðu Rakel tvö, Aldís tvö, Hlín tvö, Fanndís eitt og Telma eitt.
Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri þar sem Blikar áttu hverja stórsóknina á fætur annarri. Fimm mörk komu hjá Blikum í seinni hálfleik en eins og í þeim fyrri hefðu þau getað orðið mun fleiri.
Mörkin í seinni hálfleik skoruðu Telma þrjú, Rakel eitt og svo eitt sjálfsmark.
Í seinni hálfleik fengu FH-ingar réttilega dæmda vítaspyrnu en Sonny undirstrikaði yfirburði Blika og varði spyrnuna vel.
Þess má geta að þrátt fyrir öll þessi mörk þá má með sanni segja að markvörður FH-inga hafi verið þeirra besti maður og kom oft í veg fyrir enn stærri sigur okkar stelpna.
Blikastelpur spiluðu leikinn af miklum krafti og voru framherjar Blika á allt öðrum hraða en FH-ingar og sluppu margoft inn fyrir vörnina. Blikastelpur spiluðu allar mjög vel í kvöld og var engan veikan hlekk að finna.
Í þessum ham er óhætt að segja að ekkert lið í Pepsí-deildinni stoppi Blika og vonandi að stelpurnar haldi áfram á þessari braut.
Eftir kvöldið þjóta stelpurnar á toppinn í deildinni.
Næsti leikur hjá stelpunum er á móti Val og fer hann fram 2. júní kl. 19:15 á Hlíðarenda. Nú er bara að mæta og styðja stelpurnar enda um toppslag að ræða þar sem bæði liðin eru með 7 stig eftir 3 umferðir.
Áfram Breiðablik!