Mikilvægur sigur á Aftureldingu
21.07.2015Blikastelpur tóku á móti Aftureldingu á Kópavogsvelli í flottu veðri í kvöld. Fyrir leikinn voru Blikar efstar með fjögur stig á Stjörnuna en Afturelding sat á botninum.
Byrjunarlið Breiðabliks var óbreytt frá síðasta leik.
Í markinu var Sonný, í vörninni voru Ásta, Guðrún, Fríða og Hallbera, Á miðjunni voru Jóna, Andrea og Rakel, Svava og Fanndís á köntunum og Telma uppá topp.
Hér má nálgast leikskýrslu.
Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og komst Telma í flott færi strax á 3. mínútu eftir fyrirgjöf frá vinstri en boltinn fór rétt framhjá eftir skalla frá henni.
Á 22. mínútu kom svo þrumuskot fyrir utan teig frá Hallberu en boltinn fór beint á Mist í markinu sem varði en átti samt í smá erfiðleikum með skotið enda fast.
Næstu mínútur sóttu Blikar nokkuð og komst Svava í gott marktækifæri á 24. mínútu eftir fína sendingu frá Telmu en skallaði boltann rétt framhjá. Þremur mínútum seinna brunaði Svava svo upp hægri kantinn og gaf fyrir markið en Afturelding náði að pikka í boltann sem barst á Telmu og smellti hún honum í slánna.
Það var svo lítið markvert sem gerðist fyrr en á síðustu mínútu fyrri hálfleiks þegar Telma komst ein í gegn en setti boltann rétt framhjá markinu, líklega hefur Mist varið skotið þar sem dæmd var hornspyrna sem ekkert varð úr.
Dómari leiksins flautaði svo til leikhlés stuttu seinna. Blikar mun betri en vantaði samt aðeins meiri kraft í leik þeirra.
Seinni hálfleikur var varla byrjaður þegar Telma fékk á sig rautt spjald. Brotið var á Telmu sem var að bruna upp miðjuna í hraða sókn og duttu bæði Telma og mótherjinn. Liggjandi í grasinu sparkaði Telma frá sér í mótherjann og fékk réttilega rautt spjald enda gerðist þetta beint fyrir framan dómarann.
Tíu Blikar virtust fá auka kraft við þetta og má segja að sóknarþunginn hafi í raun aukist í seinni hálfleik. Á 65. mínútu fékk Fanndís flotta sendingu upp hægri kantinn frá Ástu, hótaði skoti með hægri en setti boltann yfir á vinstri og skaut svo rétt framhjá markinu. Tveimur mínútum seinna átti svo Jóna skalla sem Mist rétt náði að verja í horn.
Á þessum tíma var komið smá stress í stúkuna enda máttu Blikar ekki við því að misstíga sig í toppbaráttunni, enda Stjarnan ekki langt á eftir.
Á 70. mínútu kom svo björgunin, Fanndís brunaði upp hægri kantinn og setti boltann fyrir en boltinn hafnaði hjá Mist markmanni sem missti boltann og var fyrirliðinn Rakel mætt til að moka boltanum yfir marklínuna. Rakel sýndi mikinn kraft og vilja að ná þessum bolta yfir línuna og staðan orðin 1 – 0 fyrir Blika.
Rakel var svo aftur í ágætis færi tveimur mínútum seinna eftir fyrirgjöf frá Ástu en náði ekki að stýra boltanum inn.
Dómarinn flautaði svo til leiksloka og 1 – 0 karaktersigur staðreynd. Virkilega vel gert hjá stelpunum að ná öllum stigunum og halda fjögurra stiga forustu á toppnum.
Blikar gerðu tvær skiptingar í leiknum, Hildur kom inn fyrir Svövu á 76. mínútu og Fjolla kom inn fyrir Andreu á 91. mínútu.
Næsti leikur er svo á móti KR í Frostaskjólinu 28. júlí. kl. 19:15. Nú er um að gera að fjölmenna og styðja stelpurnar og sýna að Breiðablik á áfram bestu stuðningsmennina.
Áfram Breiðablik!