Öruggur sigur á Fylki
11.08.2015Topplið Breiðabliks mætti ekki mikilli mótspyrnu þegar Fylkiskonur komu í heimsókn í Kópavoginn. Leikurinn var ójafn frá upphafi til enda og lokatölurnar 3-0 í lægri kantinum miðað við færin.
Leikskýrslu má finna hér og beina textalýsingu hér.
Frá fyrstu mínútu var ljóst í hvað stefndi og þær grænklæddu héldu sig hátt á vellinum.
Fylkisliðið var ekki íklætt neinum silkisokkum og á því fékk Andrea Rán að kenna í tvígang í byrjun, fyrst þegar hún var tækluð upp úr skónum á miðjunni og svo þegar hún var við það að sleppa í gegnum vörnina en var tekin á ippon á síðustu stundu. Í hvorugt skipti sá dómari leiksins ástæðu til að dæma.
Þegar tæpur hálftími var liðinn varði Eva Ýr markvörður Fylkis tvisvar mjög vel frá Aldísi Köru og Svövu Rós en hún gat lítið gert skömmu seinna þegar Aldís slapp ein í gegn, dansaði upp úr áleitnu faðmlagi aftasta varnarmanns, sólaði markvörðinn og skoraði. Vel gert hjá Aldísi sem skóp oft usla í vörn Fylkis í leiknum.
Dómari leiksins fann loks gula spjaldið þegar Rut Þórðar Þórðardóttir tæklaði Svövu Rós undir lok hálfleiksins.
Seinni hálfleikur var ekki gamall þegar bjargað var á línu frá Andreu Rán og svo var Fanndís Friðriksdóttir tekin niður í vítateig og vítaspyrna var dæmd. Fanndís tók spyrnuna sjálf en sendi boltann framhjá markinu í átt að Hamraborginni. Allan hálfleikinn var svo engu líkara en að mótherjarnir byðu Fanndísi upp á hvert tækifærið á fætur öðru til að bæta fyrir vítið en inn vildi boltinn bara alls ekki.
Dómari og línuvörður misstu svo af glórulausu hálstaki Andreu Laiu á Fanndísi og var sú fyrrnefnda heppin að fá að klára leikinn. Á 59. mínútu brást loks stíflan þegar Rakel Hönnudóttir fylgdi vel eftir skoti Aldísar. Þremur mínútum seinna var svo aftur bjargað á línu frá Andreu Rán. Telma Hjaltalín kom inn á fyrir Aldísi þegar korter var eftir og lét strax til sín taka með því að stanga boltann í netið eftir hornspyrnu Fanndísar. Enn var nægur tími fyrir tvö dauðafæri og sitthvort rangstöðumark Fanndísar og Telmu í lokin, en eins og áður segir var sigurinn aldrei í hættu og stigin þrjú urðu eftir á Kópavogsvelli. Sigur Blika var sannfærandi og mikill munur á liðunum. Þær grænu voru sprækar og hefðu með meiri einbeitingu getað sett að minnsta kosti tvöfalt fleiri mörk á Árbæjarliðið. Guðrún og Málfríður voru öruggar í öllum sínum aðgerðum og Sonný róleg þegar eftir hennar þjónustu var óskað. Andrea Rán var beitt á miðjunni og Aldís og Telma gerðu það sem framherjar eiga að gera, skapa usla og skora mörk.
Næsta verkefni er gegn Stjörnunni í Garðabæ 21. ágúst og vonandi fjölmenna Blikar á leikinn enda mikilvægur í toppbaráttunni.