Ótrúlega mikilvægur sigur
26.07.2021Selfoss? Vorum við ekki nýbúin að keppa við Selfoss hugsaði ég með mér þegar ég rölti úr bílnum á Kópavogsvöll til að bera mínar konur augum á laugardagseftirmiðdegi. En jú það var reyndar alveg mánuður síðan (21.6 nánar tiltekið) enda var þessi leikur liður í 16. umferð deildarinnar og hefði átt að fara fram eftir mánuð en vegna þátttöku Blika í Evrópukeppninni var leiknum flýtt.
Veðrið var svo sem ágætt (ekkert júlíveður samt) þegar ég gekk á völlinn en það var samt frekar svalt í stúkunni. Ekki voru margir mættir á völlinn og undir lok leiks staðfesti vallarþulurinn að 110 manns hefðu látið sjá sig á Kópavogsvelli þennan laugardaginn.
Villi þjálfari gerði tvær breytingar á liðinu sem vann stórsigur á ÍBV á þriðjudaginn. Taylor Ziemer og Birta Georgsdóttir fóru á bekkinn og í þeirra stað komu þær Tiffany McCarty og Selma Sól Magnúsdóttir. Leikurinn byrjaði fjörlega fyrir okkur Blika og með smá heppni hefðum við getað skorað strax á fyrstu mínútu eftir misskilning í vörn Selfyssinga. Blikar stjórnuðu leiknum án þess að skapa sér mikið og má segja að það hafi verið ákveðin værukærð yfir okkar stelpum. Svo mikil að Telma okkar í markinu steinsofnaði þegar hún fékk sendingu til baka frá varnarmanni og fipaðist undan pressu Evu Núru og gaf víti sem hún bætti svo heldur betur fyrir og varði. Ömurleg vítaspyrna frá Brenna Lovera, og Telma var löngu búin að skutla sér áður en hún tók spyrnuna, en engu að síður, vel gert Telma. Áfram hélt leikurinn, Blikar héldu í boltann en Selfoss stelpur vörðust vel og gáfu fá færi á sér.
Í seinni hálfleik var það sama uppi á teningnum. Breiðablik var líklegri aðilinn en það var aðallega vegna þess að sóknarleikur Selfyssinga var gott sem enginn. En síðan fór leikurinn allt í einu á fulla ferð. Fyrstu fengu Blikar ansi ódýrt víti og úr því skoraði Agla María auðveldlega þar sem markmaðurinn stóð sem steinrunninn á línunni og hreyfði hvorki legg né lið. Selfoss skipti um gír og jafnaði stuttu síðar eftir sofandahátt í vörn Blika. Sigurmarkið gerði síðan Taylor Marie Ziemer með flottri neglu utan teigs með vinstri sem söng í hliðarnetinu innanverðu.
Ótrúlega mikilvægur sigur Breiðabliks staðreynd sem skilur Selfoss vel fyrir aftan sig núna og nú er endanlega ljóst að þetta verður kapphlaup milli Vals og Breiðabliks um Íslandsmeistaratitilinn.
Mig langar ekki að vera týpan sem talar um hvað dómarinn átti slakan leik en kommon við verðum að fá að kalla eftir standard. Mér fannst þekka hrikalega illa dæmdur leikur fyrir bæði lið. En sem betur fer hafði það ekki áhrif á úrslit leiksins! Munurinn á liðunum í dag var kannski einstaklingsgæði Blika og færanýting. Þegar þú nýtir ekki vítaspyrnu á móti Breiðabliki þá er ekki von á góðu!
-H2O