Skrilljón færi – eitt mark
11.06.2013Það var rok og rigning í Grafarvogi í kvöld þegar stelpurnar okkar kíktu í heimsókn til Fjölnis í Borgunarbikarnum. Hlynur stillti upp nokkuð breyttu liði frá því í síðasta leik, lykilleikmenn voru hvíldir og í markinu stóð Mist Elíasdóttir, sem var kölluð aftur úr láni eftir að Birna okkar Kristjánsdóttir meiddist gegn FH.
Ekki tókst þeirri sem þetta ritar að skrá niður hverjar stóðu vaktina hvar, enda ekki létt verk að pára á blað í rokinu og rigningunni. En ef minnið bregst ekki þá voru í vörninni Fjolla, Lilja Valþórs og Guðrún Arnardóttir. Á miðjunni voru þær Andrea Rán, Greta Mjöll, Hildur Sif og Jóna Kristín og frammi voru þær Berglind Björg, Rakel og Þórdís Hrönn.
Stelpurnar okkar létu rok og rigningu ekki á sig fá og sóttu nær linnulaust allan fyrri hálfleikinn en frábær markvarsla hjá Sonný Láru í marki Fjölnis kom í veg fyrir að stelpurnar okkar kæmust á blað. Markið lá samt alltaf í loftinu, stelpurnar okkar fengu skrilljón færi en inn vildi boltinn ekki. Sem betur fer breyttist það þó á markamínútunni góðu, þeirri 43. þegar boltinn barst út til Þórdísar Hrannar eftir þunga sókn og hún skilaði boltanum þangað sem hann á heima, í netmöskva mótherjanna.
Það var því aðeins líflegra yfir okkur fjölmörgum stuðningsmönnum Breiðabliks í leikhléinu og sjoppustarfsmenn á Fjölnisvelli seldu vel af heitu kaffi í leikhléinu. En baráttan hélt áfram í seinni hálfleik, þær grænklæddu sóttu og sóttu en enn sem fyrr hafði Blikinn Sigurður Víðisson, sem þjálfar Fjölni, agað vörn Fjölnis vel og Sonný Lára varði það sem á markið kom. Stundum hélt maður þó að það vantaði aðeins herslumuninn en markaskórnir voru ekki með í kvöld hjá stelpunum okkar.
Það kom þó ekki að sök, stelpurnar unnu skyldusigur 1-0, og það hefur oft verið sagt að 1-0 sigrarnir væru þeir allra sætustu og það á sannarlega við í kvöld. Baráttan í liðinu var til fyrirmyndar, en liðið hefði þó mátt gefa sér aðeins lengri tíma til að láta boltann ganga. Það er létt fyrir mig og aðra stuðningsmenn Breiðabliks að gagnrýna úr stúkunni en sem betur fer erum við „vitringarnir“ ekki inná vellinum.
Leikmennirnir allir eiga hrós skilið fyrir mikla baráttu. Berglind Björg skapaði sér mörg færi, Mist kom sterk inní markið þó ekki hafi reynt mikið á hana en maður leiksins að mínu mati er hundaeigandinn Hildur Sif, en hún þakkaði þjálfaranum traustið og átti einn sinn besta leik á tímabilinu.
Framundan er erfiður leikur gegn ÍBV og ég efast ekki eitt andartak um það að stelpurnar okkar muni sýna sama baráttuþrek í þeim leik eins og í leiknum í kvöld. Það mun reynast þeim á endanum vel.
Áfram Breiðablik,
Ingibjörg Hinriksdóttir.