Torsóttur sigur
15.08.2014Í gærkvöldi tók Breiðablik á móti Val í 13. umferð Pepsí deildar kvenna. Völlurinn leit vel út og tæplega 300 áhorfendur mættu í dalinn. Loftið var svalt og beit aðeins í þegar líða fór á leikinn.
Breiðablik hóf leikinn með eftirfarandi lið (4-3-3):
Sonný – María – Guðrún – Fjolla – Arna – Jóna – Rakel – Andrea – Aldís – Telma – Fanndís.
Byrjunarlið Vals var eftirfarandi:
Birna – Svava – Laufey – Kristín – Dóra – Hallbera – Hildur – Gígja – Hugrún – Elín – Agnes.
Leikurinn var ekki mikið fyrir augað í þetta skiptið, frekar mikið um misheppnaðar sendingar og lítið af góðum færum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Lítið sem ekkert markvert gerðist fyrir utan góða aukaspyrnu Fanndísar Friðriksdóttur en skot hennar fór rétt framhjá vinklinum vinstra megin á marki Vals.
Seinni hálfleikur var ögn skárri hvaða spilamennskuna varðar hjá báðum liðum. Ingibjörg kom inn á fyrir Andreu á 60. mínútu.
Hjartað tók fyrst kipp á 65. mínútu þegar Jóna Kristín skallaði boltann á markið eftir hornspyrnu Fanndísar en bjargað var á marklínu.
Jóna Kristín fékk svo gult spjald á 68. mínútu fyrir akkurat ekki neitt að mínu mati, smá brot ef eitthvað.
Á 72. mínútu kom Selma Sól inn á fyrir Jónu Kristínu. Selma Sól er í þriðja flokki og mikið efni. Þetta var annar leikurinn hennar í sumar fyrir meistaraflokkinn. Hún stóð sig mjög vel í leiknum. Arna Dís sem er einu ári eldri en Selma stóð sig einnig vel í leiknum en hún lék allan leikinn.
Á 74. mínútu átti Valur algjört dauðafæri þegar Elín Metta slapp ein í gegn en setti boltann framhjá bæði Sonný og markinu. Sem betur fer!
Mínútu síðar fékk Elín Metta aftur dauðafæri eftir sendingu frá Hallberu en Sonný varði frábærlega. Gríðarlega mikilvæg markvarsla.
Á 79. mínútu átti Rakel svo ágætis skot að marki Vals sem bjargað var á marklínu. Aftur munaði litlu.
Á 84. mínútu fengu Blikar aukaspyrnu 27,5 metra frá marki Vals. Fanndís tók spyrnuna, snéri boltann yfir varnarvegginn og í nærhornið. Glæsilegt mark og mikið fagnað í stúkunni. Þetta er svo sætt...
Á 90. mínútu kom Ragna Björg inn á fyrir Telmu, pakkað í vörn!
Meira gerðist ekki og Breiðablik fór með sigur af hólmi. Frábær sigur, flottur vinnusigur hjá stelpunum og 28 stig í hús.
Fimm leikir eftir í deildinni og Blikar átta stigum á eftir Stjörnunni. Stjarnan á eftir að spila á móti Val (úti), Selfoss (heima), Þór/KA (úti), Aftureldingu (heima) og ÍA (úti). Næsti leikur Blika er á móti Selfossi þann 26. ágúst nk. á Selfossi.