BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Valur - Breiðablik

17.06.2015

Það má með sanni segja að leikurinn hafi farið fjörlega af stað. Strax á 5 mínútu komust Blikastúlkur yfir með glæsilegu skallamarki frá Jónu Kristínu Hauksdóttur. Hallbera Guðný Gísladóttir tók horn frá hægri sem Jóna hamraði í netið. Valsstúlkur tóku miðju og örfáum sekúndum síðar átti Rakel Hönnudóttir þrumuskot að marki sem markmaður Vals varði í horn. Á 28.mín var víti dæmt á Blika fyrir litlar sakir. En það skipti engu því meistari Sonný Lára gerði sér lítið fyrir og varði vítið. Þvílíkur leikmaður.  Á 36.mín skoruðu Blikastúlkur svo annað mark. Þar var að verki miðvörðurinn með hjarta úr gulli Guðrún Arnardóttir. Fanndís tók horn og hver önnur en Guðrún með hausinn á réttum stað og skallaði boltann í netið. Á 41.mín jókst forskot Blikastúlkna enn þegar Fanndís nokkur Friðriksdóttir rak endapunktinn á glæsilegt samspil. Svava Rós Guðmundsdóttir tætti í gegnum miðjuna og gaf góða sendingu á Telmu Hjaltalín Þrastardóttur. Telma gaf síðan góðan bolta fyrir í tærnar á Fanndísi sem skoraði eins og fagmaður. Fyrri hálfleikur aldrei spurning, Blikastúlkur miklu betri.

Í seinni hálfleik var svipað uppi á teningnum. Á 54 mín skoraði Fanndís sitt annað mark og 4 mark Blika. Telma fær boltann á miðjunni,  gefur snilldar sendingu yfir á Fanndísi sem hleypur upp allan vinstri kantinn og setur boltann í fjær hornið. Á 68. mín skorar varnarjaxlinn Málfríður Erna Sigurðardóttir með skalla eftir horn frá Hallberu. Þar með eru báðir miðverðirnir búnir að skora. Gaman að því. En ekki var sagan öll sögð því á 79.mín sendir Svava boltann á Telmu sem hleypur upp allan völlinn og skorar öruggleg. 6-0 sigur staðreynd  og sannarlega ekki of stór. Blikastúlkurnar eru því á toppi Pepsideildarinnar með 1 stigs forskot og markatöluna 22-2. Vel gert stelpur, áfram svona.

Leikskýrsla 

Til baka