BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Anna Petryk frá Kharkiv til Breiðabliks

19.03.2022 image

Anna Petryk, landsliðskona frá Úkraínu, er gengin til liðs við Breiðablik. Petryk kemur frá úkraínsku meisturunum Zhytlobud-1 Kharkiv, sem Breiðablik mætti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í haust. Eins og allir vita þá er daglegt líf í Úkraínu fjarri því sem það var vegna innrásar Rússa, og fótboltinn er þar engin undantekning. Blikar hafa sterka tengingu til Úkraínu eftir riðlakeppnina í haust og brugðust skjótt við þegar í ljós kom að þessi öfluga knattspyrnukona hefði áhuga á að koma til Breiðabliks.

Anna Petryk er 24 ára gömul, fædd í höfuðborginni Kiyv en bjó í borginni Maríupol fyrstu sautján árin og spilaði þar sína fyrstu leiki í meistaraflokki. Hún lærði í háskóla í Lviv í vesturhluta Úkraínu áður en hún fór til Kharkiv í austurhlutanum til þess að spila með Zhytlobud-1 Kharkiv, einu besta liði landsins. Hún var þar í stóru hlutverki og meðal annars í byrjunarliðinu í öllum leikjum liðsins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í haust.

Alls á Petryk að baki 102 leiki í efstu deild í Úkraínu og hefur skorað í þeim 27 mörk ásamt því að leggja upp fjölmörg mörk fyrir liðsfélaga sína. Þá býr Petryk yfir mikilli reynslu í Meistaradeild Evrópu þar sem hún hefur spilað 19 leiki og skorað tvö mörk.

Petryk á að baki 20 A-landsleiki fyrir Úkraínu, og einnig fjölda leikja með yngri landsliðum. Petryk mætti á sína fyrstu æfingu með Breiðablik á fimmtudag og bjóðum við hana hjartanlega velkomna í Blikafjölskylduna. Saman ætlum við að gera allt til þess að gera dvöl hennar á Íslandi sem besta. Við hugsum áfram hlýtt til Úkraínu og fordæmum stríð og árásir á saklausa borgara.

Velkomin í Kópavoginn og til Breiðabliks, Anna Petryk

image

Hér handsala Ásmundur Arnarson þjálfari og Anna Petryk samninginn.

Til baka