BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deild kvenna 2025- Deildin hefst að nýju

20.07.2025 image

Stelpurnar okkar taka á móti liði Þróttar fimmtudaginn 24. júlí klukkan 18:00 á Kópavogsvelli en hlé hefur verið á deildinni vegna EM kvenna.

Fyrir landsleikjahlé náðu Blikar að tryggja sér efsta sætið í deildinni og þessi lið sitja því í fyrsta og örðu sæti deildarinnar með jafnmörg stig en Blikakonur með mun betra markahlutfall. Leikir þessara liða hafa alla jafna verið skemmtilegir og miklir baráttuleikir. Leiknum í fyrri umferðinni lauk með 2-2 jafntefli í kaflaskiptum fótboltaleik. Í efstu deild hafa liðin spilað 19 leiki og hefur 13 þeirra lokið með sigri Breiðabliks, 3 með sigri Þróttar og 3 jafntefli hafa orðið. Í leikjunum hafa Blikar skorað 57 mörk á móti 22 mörkum Þróttar. Þó svo að tölfræðin sé okkur í hag þá segir hún ekki mikið núna þar sem mikill uppgangur hefur verið í Laugardalnum undanfarin ár. Þróttaraliðið er með allra bestu liðum deildarinnar og ljóst að það verður boðið uppá alvöru toppslag í Kópavoginum.

Það eru margir leikmenn sem hafa leikið með báðum liðum. Nýleg dæmi um leikmenn er Sóley María sem er uppalin Þróttari en lék með Breiðablik nokkur tímabil áður en hún snéri til baka, Andrea Rut Bjarnadóttir er einnig uppalin í Þrótti en hefur verið í Breiðablik frá 2023 og Ólöf Sigríður (OLLA) sem hefur leikið með báðum liðum. Svo eru það þjálfarar liðanna sem hafa starfað í báðum félögum en eins og allir vita voru Nik og Edda áður þjálfarar hjá Þrótti og má segja að þau eigi stóran hlut í því skriði sem Þróttarar hafa verið á undanfarin misseri, og svo að sjálfsögðu okkar eigin Óli Kristjáns sem þjálfaði og starfaði hjá Breiðablik í mörg ár með eftirminnilegum árangri.

Það verður um alvöru slag að ræða á fimmtudaginn og hvetjum við alla Blika til að mæta á völlinn og styðja stelpurnar okkar- þær þurfa á því að halda, oft var þörf en nú er nauðsyn.

-B

Staðan í deildinni eftir 10 umferðir:

image

Til baka