Deildin búin en stuðið eftir
12.09.2021Sum sumrin eru þannig að síðasti deildarleikur markar lok keppnistímabilsins. Þannig er það ekki hjá Breiðablikskonum – aldeilis ekki. Fyrir niðurstöðuna í deildarkeppninni skipti heimaleikurinn á móti Þróttarstelpum engu máli. Breiðablik yrði í öðru sæti deildarinnar, hvernig sem færi, og Þróttur í því þriðja. Valskonur hampa titlinum í ár en þrátt fyrir ævintýralegt 3-7 tap fyrir okkar konum á Hlíðarenda síðla maímánaðar í vor sýndu þær mestan stöðugleika í deildinni.
Önnur sárabót fyrir annað sætið var hrikalega flottur seiglusigur á Valsstelpum í bikarnum um miðjan júlí. Muniði þegar tvö mörk voru skoruð í uppbótartíma og Áslaug Munda tryggði okkur keppnisréttinn í bikarúrslitunum með marki á 92. mínútu. Bikarúrslitaleikurinn, sem verður ekki spilaður fyrr en eftir þrjár vikur á Laugardalsvellinum út af landsleik í millitíðinni á móti Hollandi, er einmitt á móti Þrótti. Það setti leikinn í dag í merkilegra ljós en staðan í deildinni og skýrir þá hvers vegna baráttan inni á vellinum í dag var jafn stórskemmtileg og raun bar vitni.
Bæði lið með kassann úti
Það hefur verið sláttur á þeim rauðröndóttu síðustu vikur og þær ekki tapað leik síðan upp úr miðjum júlí. En okkar grænklæddu gengu líka fjári hnarreistar til leiksins í votum haustfræsingi í Kópavogsdal, nýbúnar að vinna mesta afrek sem íslenskt félagslið hefur nokkru sinni unið; að tryggja sér keppnisrétt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Við fórum betur af stað í leiknum þótt rokið setti svolítið mark á leikinn. Á 16. mínútu setti Hafrún Rakel Halldórsdóttir hinsvegar glæsilegt mark í leikinn. Eftir að sókn virtist vera að fjara út eftir að fyrirgjöf frá hægri fór í gegnum pakkann og djúpt út til vinstri, mætti Hafrún þar, óð með tuðruna inn í teig, fyrirgjöfin sem allar virtust vera að bíða eftir kom ekki heldur lagði hún boltann fyrir sig og smellti í fjærhornið. 1-0.
Áfram voru tök okkar kvenna heldur sterkari en það kom ekki í veg fyrir að Þróttararnir sköpuðu sér fín færi öðru hvoru, sem hvert og eitt hefði getað fært þeim mark. Það sama var uppi við hitt markið. Við fengum hvert færið á fætur öðru en skotfæturnir voru að bregðast okkur. Lausnin var þá sú að spila bara alla leið inn í markið. Undir blálok hálfleiksins brunaði Agla María upp sinn einkavinstrikant en í stað þess að skjóta úr fínu færi nálægt marki renndi hún honum fyrir þar sem Tiffany var mætt og skoraði örugglega af u.þ.b. 53 sentimetra færi. Vel gert og 2-0 í hálfleik. Þetta var nánast síðasta spark hálfleiksins og síðasta spark Tiffany því Vigdís Lilja Kristjánsdóttir spilaði seinni hálfleikinn í hennar stað.
Dansaðu vindur
Heldur bætti í vind eftir því sem á leið leikinn og jafnvel þykkustu fléttur börðu kinnar í hviðunum. Breiðabliksstelpur, sem höfðu spilað upp í vindinn í fyrri hálfleiknum, áttu erfiðara með nákvæmar sendingar upp kantana og móttakan varð erfið væri boltinn á lofti. Að sama skapi lágu stungusendingarnar oft betur fyrir Þrótturum. Alveg fram á 53. mínútu. Þá kom fín stunga fram áðurnefndan einkakant Öglu Maríu. Nú renndi hún honum fyrir á Vigdísi Lilju sem gerði virkilega vel í að stinga sér fram fyrir varnarmann og stýra boltanum í markið. Fyrsta meistaraflokksmark þessarar 16 ára gömlu stelpu fyrir Breiðablik. 3-0 og þétt græn tök á leiknum tóku við.
Já, þær grænklæddu töldu ekki eftir sér að berjast við vind, regn og Þróttara og uppskáru fjórða markið á 66. mínútu. Enn á ný var Agla María meðsek. Hún átti skot sem var varið út í teig. Þangað mætti Birta og kláraði leikinn endanlega. 4-0.
Ja, endanlega. Breiðablikskonur hafa kannski hugsað eins og ég því það voru ennþá 16 mínútur eftir af þessu 1.620 mínútna Íslandsmóti þegar kæruleysi í vörninni leyfði Ollu Siggu, sóknarkonu Þróttara, að ræna boltanum inni í teig, snúa sér við og skora. 4-1. Nokkrum mínútum síðar vorum við í nauðvörn nokkrum sinnum í röð og hefðum alveg getað fengið á okkur annað mark. Hjúkkit!
Þá ákváðu stelpurnar að standa ekki í þessu lengur. Fóru að vanda sig meira og teiknuðu upp eina ákaflega fallega sókn upp hægri kantinn þegar tæpar 10 mínútur voru eftir. Eftir snotra þríhyrninga er fer Birta með boltann upp að endamörkum, rennir út á Öglu Maríu sem afgreiðir hann í fyrsta í færhornið. Fyrsta mark hennar í leiknum en 12. markið í mótinu öllu. Fimm mörk komin í allskonar fallegum, grænleitum litum, en það vantaði eina týpuna, langskot. Hildur Antonsdóttir tók það verkefni að sér og negldi boltanum í bláhornið af 30 metra færi rétt áður en klukkan small í 90 mínúturnar.
Sannfærandi
Það er ansi hreint vel úti látið veganesti fyrir bikarúrslitaleikinn að vinna Þróttarana 6-1 í Kópavogsdalnum í dag. Mörkin í þessum telja auðvitað ekkert í hinum en það var augljóst að markahrúga okkar kvenna fór talsvert í taugarnar á Þróttarkonum. Það eru tilfinningar sem þær verða að greiða úr. Á meðan þramma Breiðasbliksstelpur hnarreistar inn í haustið og veturinn þar sem dæmalaus fjöldi ævintýra og tækifæra bíður.
Eiríkur Hjálmarsson