Einar Sumarliðason - Kveðja frá Breiðabliki
21.02.2022Í dag kveður Ungmennafélagið Breiðablik góðan félaga, Einar Ragnar Sumarliðason, sem lést langt fyrir aldur fram þann 13.febrúar s.l. Leiðir Einars og Breiðabliks hafa legið saman í hartnær 40 ár eða allt frá því þau Einar og Ásdís fluttu í Kópavoginn. Þau hjónin tóku strax virkan þátt í félagsstörfum og fylgdu auk þess börnum sínum dyggilega í þeirra íþróttaiðkun og starfi fyrir Breiðablik.
Einar lét einkum til sín taka um langt um árabil sem sjálfboðaliði í starfi hjá knattspyrnudeild félagsins og má geta þess að hann var í þeim góða hópi fólks sem sem sá um að koma Gull- & silfurmótinu (sem nú heitir Símamótið) á legg en það er sem kunnugt er elsta og umfangsmesta knattspyrnumót sem haldið er fyrir stúlkur hérlendis. Einar starfaði við Símamótið óslitið síðan. Einar var jafnframt umsjónarmaður yngri flokka drengja um árabil og sat ennfremur í meistaraflokksráði karla um tíma. Frá árinu 1991 varð hann starfsmaður félagsins við íþróttamannvirkin í Smáranum, fyrst gervigrasvöllinn þar sem hann starfaði með Jóni Inga Ragnarssyni, og síðar íþróttahúsið Smárann sem vígt var haustið 1994, og starfaði óslitið hjá félaginu uns hann lét af störfum 27. febrúar 2020, daginn fyrir 70. afmælis daginn, eftir 29 ára starf.
Óhætt er að segja að Einar hafi í starfi sínu í Smáranum verið réttur maður á réttum stað. Frábær samstarfsmaður, ósérhlífinn, þjónustulundaður með afbrigðum og alveg sérlega laginn að umgangast börn og unglinga. Sannkallað ljúfmenni með hjartað á réttum stað, ætið reiðbúinn að leiðbeina og leiðrétta smávægilegar yfirsjónir smáfólks, sem kannski skildi skóna eftir á röngum stað, lét ekki ruslið í ruslatunnuna, eða gleymdi handklæðinu heima. Einar hafði jafnan góð ráð, full af húmor á takteinum fyrir þessa skjólstæðinga sína, þegar þeir fóru útaf sporinu. Þessi ráð voru reyndar fæst fengin úr Biblíunni, en þeim mun minnisstæðari fyrir þiggjendurna, sem sumir vitna í þau enn. Góður vitnisburður um hvað Einar var vel kynntur í sínu starfi eru þær fjölmörgu kveðjur sem honum bárust á sjötugsafmæli sínu frá fjölda Breiðabliksfólks, jafnt afreks- & námsfólki erlendis, sem iðkendum hér heima, fyrr og nú. Við sama tækifæri var Einar ennfremur sæmdur Gullmerki Breiðabliks í viðurkenningarskyni fyrir framlag hans til félagsins. Það er margs að minnast síðan leiðir Einars og Breiðabliks lágu saman, enda hefur á þessum tíma orðið algjör bylting í starfi og aðstöðu félagsins. Félagið margfaldast að stærð og mannvirkin sömuleiðis. Á þessum breytingatímum hefur Einar ásamt öðru starfsfólki félagsins átt hvað mestan þátt í því að skapa þann góða anda sem ríkt hefur í Smáranum frá upphafi.
Genginn er góður drengur.
Breiðablik þakkar Einari ánægjulega samfylgd og sendir Ásdísi og fjölskyldu svo og vinum Einars innilegar samúðarkveðjur.
Ungmennafélagið Breiðablik