BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Erfiður útivöllur

13.10.2021 image

13.10 19:00
2021
Real Madrid
Breiðablik
5:0
2
3
Evrópukeppni | Riðill B - Fyrri leikur
Estadio Alfredo di Stefano | #

Það var ekkert grín að fylgjast með stelpunum okkar keppa á móti Real Madrid útivelli í kvöld. Um hríð hafði ég áhyggjur af kornabarninu á hæðinni fyrir neðan, ég væri að vekja það eða jafnvel að efla með því varanlegan ótta við karlhrúguna á efri hæðinni. Mistökin voru of mörg, uppleggið kannski of óljóst, hugrekkið ekki alveg nægilegt og plönin ekki nógu vel útfærð. Í það minnsta hrópaði ég alltof oft „Nei!“ – „Mæt‘enni!“ – „Vanda sig!“ (samt ekki hún) o.s.frv.

Hikandi í byrjun

Það eru ekki mörg lið sem eiga fyrsta leik undir stjórn nýs þjálfara sem útileik á móti Real Madrid. Það var staðan í kvöld þegar Ási stýrði sínum fyrsta leik með Breiðabliksliðið. (Ási er Breiðablikspabbi, forveri hans, hann Villi, er líka Breiðablikspabbi þannig að ég segi bara: Kæru feður Breiðabliksstelpna: Ykkar tími mun koma!)
Byrjunarliðið var ekki óvænt.

image

Bragurinn á þessum mannskap í byrjun, miðað við byrjunina á móti Parísardömunum, var ekki góður. Það verður bara að segjast eins og er. Voru langt frá andstæðingunum, hikandi í návígjum og hægri bakvörður RM fékk hvað eftir annað flatarmál heilu smáríkjanna í Evrópu til að leika sér með. 
Sú landareign reyndist dýr, rándýr.

Karlinn súr eins og gúrka

Mig langar ekkert að rekja þennan leik, mark fyrir mark. Þau voru öll andstæðinganna og hefðu getað orðið fleiri ef Telma hefði ekki staðið sig eins og hetja, eða tvær hetjur, í okkar marki. Hún var frábær og sannaði að landsliðssætið, sem hún vann sér inn í vikunni, er engin tilviljun. Vörnin okkar, miðja og sókn voru svolítið á eftir, frekar á hælum en tám og þótt snotrar skorpur sæjust, þá vantaði meiri sannfæringu á bak við þær.

image

Af því ég var einn heima - konan á hljómsveitaræfingu og dóttirin að vinna – þá fékk ég mér keto yfir leiknum. Ég varð nærri því eins súr og gúrkan á myndinni af því ég veit að það býr svo miklu meira í liðinu. Stelpurnar eru búnar að sýna mér það - oft.

Framhaldið

Ólíkt flestum öðrum liðum í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, þá er ekki stíft prógramm fram undan heimafyrir hjá Breiðabliksstelpunum. Það er ekkert leikjaprógramm heimafyrir. Það er áhugaverð staða sem strákarnir í fótboltanum eiga kannski eftir að upplifa einhvern daginn.

Næsti leikur í riðlinum er á afmælinu mínu í næsta mánuði á móti þeim úkraínsku í Kharkiv, á útivelli. Þangað til er tæpur mánuður. Minn baráttuhugur er með græna liðinu okkar sem þarf að halda sér í formi, laga það sem þarf að laga án þess að spila alvöruleik vikum saman og peppa sig almennt upp eftir of stórt tap í Madrid í kvöld.

Breiðablikskonur eru betri en þær sýndu okkur í kvöld og ég hlakka til að sjá þær skipulagðari, einbeittari, hugrakkari og ákveðnari eftir tæpan mánuð.
Hlakka til og takk fyrir baráttuna í kvöld. Kemur næst!

Eiríkur Hjálmarsson

Til baka