BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Evrópuævintýrið heldur áfram á Kópavogsvelli á miðvikudaginn

11.11.2025 image

Það verður enn einn stórleikurinn hjá stelpunum okkar á miðvikudaginn þegar þær spila fyrri leikinn í 16 liða úrslitum Evrópubikarsins.

Andstæðingur okkar er lið Fortuna Hjorring í Danmörku.  Þær urðu Danskir meistarar í fyrra en eru núna í öðru sæti á eftir Koge.  Þær eru ennþá eina danska liðið sem hefur náð í úrslit í Evrópukeppni, karla eða kvenna en það gerðu þær árið 2003 og á leið sinni þangað mættu þær einmitt Breiðabliki og fór sá leikur 9-0.

Þau úrslit segja náttúrlega ekkert í dag, rúmum 20 árum síðar, á þessum tíma var danska deildin hærra skrifuð en hún er í dag og dönsku liðin yfirleitt að ná ágætum árangri í evrópukeppnum, þær hafa hins vegar setið svolítið eftir í þeim uppgangi sem hefur verið í kvennaknattspyrnu á undanförnum árum.

Ef við skoðum UEFA ranking á þessum liðum á síðasta tímabili þá er Fortuna númer 48 og Breiðablik númer 49.  Það er því alveg ljóst að við eigum alveg möguleika á að stríða þeim í þessu einvígi, og það er nákvæmlega það sem við ætlum að gera.

Þetta verður erfiður leikur en við erum í séns á að komast áfram í átta liða úrslit sem væri frábær árangur en til þess að það gangi upp þurfa allir að leggjast á eitt.  Þetta er síðasti heimaleikur Nik hjá okkur að sinni og það væri gaman að kveðja hann með góðum úrslitum.

Toppmæting í stúkuna er algert skilyrði eigi vel að fara, og hvetum við alla sem eiga þess nokkurn kost að mæta og öskra Áfram Breiðablik. Leikurinn hefst klukkan 18:00. Græna stofan opnar klukkutíma fyrir leik.

Áfram Breiðablik.

-B

image

Til baka