BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Gott veganesti, frábær mörk og jákvæður hausverkur

10.05.2022 image

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það var sannarlega tilefni til þess að gleðjast eftir 3-0 sigur Blika á Stjörnunni í þriðju umferð Bestu-deildarinnar í gærkvöld. Ekki aðeins var frammistaðan mjög góð og sigurinn öruggur, heldur voru margir jákvæðir punktar til þess að taka með í næstu leiki. Meira af því hér síðar.

Ásmundur þjálfari gerði þrjár breytingar á liðinu frá tapinu í Keflavík í síðustu umferð. Heiðdís var fjarri góðu gamni og þær Alexandra Soree og Helena Ósk fóru á bekkinn. Clara Sigurðardóttir kom á miðjuna og Birta Georgsdóttir og Melina Ayres í sóknina.

Byrjunarliðið:

image

Með þessum breytingum stilltu Blikar upp alveg nýrri sóknarlínu, þar sem Birta, Ayres og Anna Petryk voru saman. Þá leysti Taylor Ziemer svo af í miðverðinum við hlið Natöshu, svo breytingarnar voru töluverðar annars staðar líka. Og miðað við frammistöðuna þá fór Ási með jákvæðan hausverk á koddann, þar sem þær sem inn komu stimpluðu sig vel inn í liðið og breiddin að aukast.

Engin heppnismörk

Það er ekki bara að liðið hafi skorað þrjú mörk, heldur var aðdragandi þeirra allra virkilega góður. Enginn heppnisstimpill. Ayres kom Blikum yfir undir lok fyrri hálfleiks þegar hún var vel vakandi í teignum. Hún er komin á blað og alltaf mikilvægt fyrir framherja að brjóta ísinn. Það er vert að benda lesendum á að finna myndband af glæsilegri stoðsendingu Hildar Antonsdóttur, sem lagði markið upp með hælnum.

image

Melina Ayres að skora sitt fyrsta mark í grænu treyjunni - Mynd: Hafliði Breiðfjörð

Og ef þið hafið flett upp stoðsendingunni, finnið þá einnig glæsimarkið hennar Birtu snemma í seinni hálfleik. Hún fór illa með hvern varnarmanninn á fætur öðrum á hægri vængnum, kom sér í færi í teignum og skoraði með glæsilegu skoti. Frábært mark.

image

Birta Georgsdóttir - Mynd: Hafliði Breiðfjörð

Aðdragandi þess að Blikar fengu vítaspyrnu skal einnig nefna sérstaklega. Markvörður Stjörnunnar var kominn langt út úr teig og ætlaði að skýla boltanum út af, og í raun ekkert í gangi. En baráttan og áræðnin í liðinu varð til þess að boltinn vannst og uppskeran var víti, sem Ayres skoraði úr. Tvö mörk frá henni.

Þrátt fyrir að öll mörk telji jafn mikið, þá er hægt að taka svo miklu meira út úr svona leikjum þar sem spilamennska, kraftur og gæði uppskera svo ríkulega.

image

Blikar völdu Taylor Ziemer besta í leiknum - Mynd: Hafliði Breiðfjörð

Nú þarf að finna réttu blönduna

Mörkin þrjú komu frá leikmönnum sem komu í fyrsta sinn inn í byrjunarliðið á leiktíðinni. Eins og áður var komið inn á þá er komið upp ákveðið lúxusvandamál fyrir Ása þar sem allar þær sem komu inn í liðið í gær, og líka þær sem fóru út, geta allar gert tilkall til sætis í liðinu í framhaldinu. Þá er sérstaklega jákvætt að Ayres sé komin á blað, bæði fyrir liðið en ekki síst hana sjálfa. Hún þurfti tíma til að aðlagast, og þarf eflaust enn, en stíflan er brostin og það er vel.

Jákvæðu hlutirnir voru fjölmargir í leiknum, og ekki síst karakterinn sem liðið sýndi eftir vonbrigðin í Keflavík. Það var alls ekki sjálfsagt að ná svo góðum tökum á öflugu Stjörnuliði eins og raunin varð. Sex stig eftir þessa fyrstu þrjá leiki er vissulega ekki uppskeran sem stefnt var að, en liðið hefur almennt spilað ágætlega.

image

Telma hélt hreinu í leiknum en þurfti alveg að hafa fyrir því - Mynd: Hafliði Breiðabjörð

Þar sem margar gera nú sterkt tilkall til sætis í liðinu þá er það helsta sem liggur fyrir núna að finna réttu blönduna. Það á sérstaklega við þegar kemur að miðjunni og sókninni. Breiddin á miðjunni er ágæt, og ef Ayres er tilbúin til þess að leiða framlínuna hér eftir þá er strax kominn stöðugleiki til þess að byggja á. Meiri samkeppni í liðinu ætti að þýða enn frekari baráttu og kraft, sem gaman verður að fylgjast með í framhaldinu.

Áfram Breiðablik!

-AYV

Umfjallanir annarra netmiðla.

Myndaveisla: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Mörkin og atvik í boði Blikar TV: 

image

Allt er vænt sem vel er grænt!

Leikmannahópur Breiðabiks:

image

Til baka