Hallbera Guðný Gísladóttir hefur gengið til liðs við Blika
27.10.2014Þau gleðilegu tíðindi voru að berast úr Smáranum að Hallbera Guðný Gísladóttir hefur gengið til liðs við Blika og skrifað undir þriggja ára samning. Þetta eru frábær tíðindi fyrir okkur og ljóst að það verður spennandi að fylgjast með Blikastelpum næsta sumar.
Hallbera er uppalin á Skaganum og lék 36 leiki með ÍA í meistaraflokki áður en hún skipti yfir í Val þar sem hún lék 130 leiki og vann 5 Íslandsmeistaratitla og 4 bikarmeistaratitla. 2012 gekk Hallbera til liðs við Pitea í Sænsku úrvaldsdeildinni og 2014 lék hún með Torres á Ítalíu. Hallbera hefur leikið 57 landsleiki fyrir A landsliðið ásamt fjölda leikja fyrir yngri landslið Íslands.
Hallbera kemur með mikla reynslu inn í hið unga lið Breiðabliks og á vafalaust eftir að reynast dýrmæt í að koma okkur Blikum á toppinn þar sem við teljum okkur eiga heima.
Við bjóðum Hallberu velkomna og óskum Blikum nær og fjær til hamingju með þetta.