Komnar í bikarúrslitaleik eftir góðan sigur á Stjörnunni .
22.07.2016Það var boðið upp á frábæran fótboltaleik við góðar aðstæður í Garðabæ í kvöld.
Byrjunarlið Blika var óbreytt frá því í síðasta leik:
Sonný í marki,
Ásta, Guðrún, Fríða og Hallbera í vörninni,
Fjolla, Andrea og Rakel á miðjunni,
Svava og Fanndís á köntunum og Berglind uppá topp.
Textalýsingu er að finna hér og leikskýrslu hér.
Leikurinn byrjaði fjörlega því strax á 2. mín leiksins fékk nýr leikmaður Stjörnunnar Amanda Frisbe fínt færi en sem betur fer var Sonny vel með á nótunum og varði vel. Hægt og rólega tókum við svo öll völd á vellinum og það var því alveg í takt við leikinn þegar Andrea Rán skoraði með fínu skoti fyrir utan teig eftir sendingu frá Fanndísi og um hálftími liðinn af leiknum.
Áfram héldum við að stjórna leiknum og á 43. mín leiksins fáum við aukaspyrnu utan á kanti sem Hallbera tekur. Flott spyrna hennar syngur í netinu eftir smá snertingu frá Svövu og okkar stúlkur fóru með fína forystu inní hálfleikinn. Stjörnustúlkur lítið að ógna okkur fyrir utan fyrstu mínutur leiksins.
Áfram héldum við að stjórna leiknum í seinni hálfleik. Rakel átti gott skot á markið á 58 mín og stuttu síðar var Berglind hársbreidd frá þvi að koma sér í dauðafæri en það var síðan á 66 mín sem Fanndís Friðriks fékk boltann fyrir utan teig, stillti yfir á hægri fótinn og smurði knettinum fallega í netið og kom okkur í 3 – 0. Kátir áhorfendur brostu nú út í bæði því staðan var góð og Laugardalsvöllurinn beið handan við hornið. En Stjörnustúlkur gefast aldrei upp og það vissum við. Á 73 mín leiksins fær Stjarnan hornspyrnu og úr henni skorar Anna Björk með fínum skalla.
Á 80 mín hefðum við átt að gera endanlega út um leikinn, Svava Rós kemst ein í gegn og hefur Berglindi með sér en röng ákvörðunvar tekin á þessu sinni og færið fór forgörðum. Stjörnustúlkur fengu smá kraft við markið og héldu áfram að sækja að okkur en góð vörn og markvarsla koma í veg fyrir Garðbæinga nái að minnka munin nema á 86. mín þegar Ana Cate skorar af stuttu færi og skyndilega staðan orðin 3 – 2 og nokkuð langar mínutur eftir.
Stjarnan fékk svo tvö ágætisfæri til þess að jafna metin alveg undir lok leiksins, annað úr hornspyrnu og hitt úr aukaspyrnu en við sluppum og Laugardalsvöllur bíður okkar föstudaginn 12. ágúst þar sem við mætum annað hvort Þór/KA eða ÍBV en þessi lið mætast á morgun.
Frábær frammistaða hjá okkar stúlkum, en alveg óþarflega mikil spenna í lokin því þær áttu að vera búnar að gera út um leikinn fyrr.