Mildur hasar í millibilsleik
07.09.2021Þótt meistarabaráttan í Pepsi Max kvenna sé ekki jafn þrungin spennu nú á lokametrunum eins og oft áður, þá var ljóst í sunnudagshádeginu að eitthvað gutlaði á tilfinningunum í grannaslag í Garðabæ.
Leikurinn var á milli mikilvægra Evrópuleikja og lítið undir í deildinni hjá Breiðablikskonum. Liðið sem Vilhjálmur stillti upp bar þess nokkur merki og spilamennskan klíka. Leikurinn var svolítið tætingslegur og bauð upp á það sem nákvæmlega gerðist, að fá á sig mark snemma.
Vakna við mark
Við að fá á sig mark á 3. mínútu var eins og Breiðabliksstelpur rönkuðu við sér. Agla María og Hildur skelltu inn hvor sínu markinu með fimm mínútna millibili um miðjan fyrri hálfleikinn. Þá hélt maður að þétt tök væru komin á málin en losarabragur og einbeitingarleysi í vörninni kostuðu grænklæddar jöfnunarmark eftir rúmlega hálftíma spilamennsku.
Ekki tókst að hrista úr sér hremmingarnar og rétt fyrir hálfleik kom Selma Sól sér í vesen sem endaði með broti og rauðu spjaldi. Úbbs!
Heill hálfleikur var fram undan, einni færri, og þótt glitt hafi í fínan fótbolta hjá okkar konum í fyrri hálfleiknum, var ekki laust við ótta um að illa gæti farið. Við hreinlega máttum ekki við frekari skörðum í vörnina.
Jafna einni færri
Og viti menn og konur! Eftir tæpar fimm mínútur í seinni hálfleiknum var Breiðablik komið í forystu. Karítas, sem tekið hafði stöðu í vörninni, óð upp allan Samsung-völlinn og upphlaupið skilaði Tiffany skotfæri fyrir utan teig sem hún smellti upp undir slána. Nú var bara að halda sjó, hugsaði ég, og það var eins og sú slæma pæling hefði skilað sér í nágrannasveitir. Tilfæringarnar með byrjunarliðið og enn frekari eftir rauða spjaldið tryggði einhvern veginn að Breiðabliksliðið komst aldrei í það trausta og einbeitta jafnvægi sem þarf til að kreista fram sigur í svona leik.
Jöfnunarmark Stjörnunnar skilaði sér reyndar eftir bölvaða óheppnishendi við að bjarga á línu, en að vera í þeirri stöðu að bjarga á línu þegar þarna var komið sögu var ekki alveg óvænt.
Úrslitin í þessum næstsíðsta deildarleik skipta engu máli. Sex mörk og rautt spjald gætu gefið til kynna að þetta hafi verið meiri hasar en það var í raun og veru. Þetta var millibilsleikur milli verulega stórra leikja og nú á fimmtudaginn ríður virkilega á að sýna sitt rétta andlit.
Koma svohhh!
Það má alveg fullyrða að heimaleikurinn á Kópavogsvelli við krótatísku meistarana í Osijek sé stærsti leikur sem íslenskt félagslið hefur leikið í seinni tíð. Eftir jafnteflið úti eru Breiðablikskonur í dauðafæri að tryggja sér sæti í endurskipulagðri Meistaradeild Evrópu. Með sigri fer liðið í sjálfa riðlakeppnina. Ólíkt 2019, þegar stelpurnar léku líka það afrek, er riðlakeppnin núna raunveruleg riðlakeppni með bestu liðum álfunnar, en áður var hún einskonar skemmriskírnar útsláttarkeppni.
Nú þarf heldur betur að mæta og hvetja og miðar á leikinn fást hér.
Eiríkur Hjálmarsson
Áfram Breiðablik!