BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Nej nej nej helvede

20.11.2025 image

Nej nej nej helvede

Þessi orð ómuðu hjá dönsku þulunum þegar Blikastelpur skoruðu þriðja markið í uppbótartíma til að tryggja sér framlengingu í þessum sögulega leik sem fram fór á Jótlandi í gærkvöld.

Blikastelpur byrjuðu leikinn vel og voru betri aðilinn í leiknum framanaf.  Danirnir komust smátt og smátt betur inn í leikinn og náðu að skora áður en flautað var til loka fyrrihálfleiks eftir slæm mistök hjá okkur þegar Herdís virðist ætla að sóla leikmann Fortuna en það fór ekki betur en svo að Nikoline Nielsen náði boltanum af henni og setti hann í autt markið og staðan orðin 1-0 fyrir Danska liðið og 2-0 samanlagt.  Þetta virtist setja okkar stelpur aðeins útaf laginu því Dönsku stelpurnar náðu nokkrum tökum á leiknum og áttu nokkrar álitlegar sóknir og þar af dauðafæri undir lok leiksins en núna varði Herdís glæsilega og bjargaði okkur og leiknum.

Eins og í leiknum á Kópavogsvelli þá virtust Blikastelpurnar ekki alveg koma með kveikt á öllum út í seinni hálfleikinn og Joy Omewa kom þeim dönsku í 2-0 strax á 47 mínútu og samtals staðan því 3-0 og ekki margir sem gerðu ráð fyrir að við fengum eitthvað út úr þessum leik á þeim tímapunkti.  

En það var eins og þetta kveikti í okkur því strax á 49 mínútu var Heiðdís búin að minnka muninn með hnitmiðuðu skoti úr teignum.  Blikar náðu í kjölfarið góðum tökum á leiknum og á 65 mínútu náði Karítas góðri fyrirgjöf á Sammy sem skallaði í netið og staðan orðin 2-2 og samanlagt 3-2 fyrir Fortuna, við vorum komin með leik aftur.

Blikar sóttu stíft það sem eftir lifði leiks án þess að skapa sér mikið, en það var svo í 6 mínútu uppbótartíma að við fáum aukaspyrnu sem Sammy gerði sér lítið fyrir og náði að setja í netið með smá aðstoð frá Dönunum og allt jafn.  Leikurinn var í kjölfarið flautaður af og ljóst að framlenging beið.

Fyrri hálfleikur framlengingar var rólegri en bæði lið náðu þó að skapa sér færi án þess að skora.  En það var svo í upphafi seinni hluta framlengingarinnar sem Edith Kristín náði að setja markið mikilvæga, og við komnar með yfirhöndina, búnar að snúa 3-0 stöðu í 3-4 á rúmum 55 mínútum.  Við tóku stressandi mínútur, Fortuna henti öllu fram og þær bættu við 12 manninum inná því dómarinn hætti að dæma á brot Danina og leikurinn fór nánast fram á okkar vallarhelmingi, en allt kom fyrir ekki, Herdís var geggjuð á milli stanganna og stoppaði allt sem á annað borð komst inn fyrir vörnina.  

Lokatölur í Danmörku 2-4 og 3-4 í einvíginu og við búin að tryggja okkur í 8 liða úrslit í Evrópu bikarnum.  Gjörsamlega sturlaður árangur og frábær kveðjuleikur fyrir Nik.  Næsti leikur verður 11 febrúar í Hacken í Svíþjóð og síðari leikurinn í Kópavogi viku síðar.  

Til baka