Stoltur af 50 ára samfelldri sögu
01.10.2022Meistaraflokkur Breiðabliks 2022
Fremsta röð f.v.: Flosi Eiríksson formaður knattspyrnudeildar, Clara Sigurðardóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Herdís Halla Guðbjartsdóttir, Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði, Eva Nichole Persson, Bergþóra Sól Ásmundsdóttir, Birna Kristín Björnsdóttir, Margrét Lea Gísladóttir, Ingibjörg Auður Guðmundsdóttir formaður meistaraflokksráðs. Miðröð f.v.: Ásmundur Arnarson aðalþjálfari, Sigurður Frímann Meyvantsson liðsstjórn, Melina Ayres, Laufey Harpa Halldórsdóttir, Agla María Albertsdóttir, Helena Ósk Hálfdánardóttir, Telma Ívarsdóttir, Karitas Tómasdóttir, Írena Héðinsdóttir Gonzalez, Margrét Brynja Kristinsdóttir, Natasha Moraa Anasi, Særún Jónsdóttir sjúkraþjálfari, Sigurður Hliðar Rúnarsson deildarstjóri knattspyrnudeildar. Aftasta röð f.v.: Aron Már Björnsson styrktarþjálfari, Ólafur Pétursson markmannsþjálfari, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, Rakel Hönnudóttir, Heiðdís Lillýardóttir, Kristjana R. Kristjánsdóttir Sigurz, Elín Helena Karlsdóttir, Taylor Ziemer, Birta Georgsdóttir, Kristófer Sigurgeirsson aðstoðarþjálfari, Hermann Bjarkarson liðsstjórn. Á myndina vantar á mynd: Alexandru Jóhannsdóttur - Alexandra Soree - Anítu Dögg Guðmundsdóttur - Anna Petrik - Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur - Hildi Antonsdóttur - Hildi Þóru Hákonardóttur - Rögnu Einarsdóttur liðsstjórn. Myndataka & umsjón: Helgi Viðar Hilmarsson.
Á sama tíma og hátt í 200 íslenskar konur spiluðu síðustu umferð Bestu deildarinnar í dag steðjuðu stöllur þeirra í Íran út á torg til að fá að vera með í samfélaginu á sínum forsendum. Þær syrgðu vafalaust barnungar kynsystur sínar í grannríkinu Afganistan sem voru drepnar á dögunum í sprengjuáraás af því að þær voru stúlkur í skóla. Ef þér finnast þessi dæmi öfgakennd þá er bara ekkert svo langt síðan stelpur á Íslandi máttu ekki spila á takkaskóm eins og strákar. Það var svo núna, sumarið 2022, að kvennalið í Bestu deild á Íslandi komst ekki á æfingu af því strákarnir voru í utanlandsferð.
Vallargerðið
Þær voru hrikalega góðar sumar. Aðrar ekki eins góðar. Stelpurnar í Breiðabliki sem við yngri flokka strákar spiluðum æfingaleiki við á Vallargerðisvellinum á 8. áratugnum. Binna var hrikaleg. Stakk mann af með tuðruna límda við fæturna. Öxl í öxl við Rósu var eins og að hlaupa á lokaða hurð. Það var önugt þegar Ásta klobbaði mann. Stundum rakst maður í brjóstin á þeim og varð vandræðalegur.
Nokkrum árum fyrir þessa æfingaleiki, í ágúst 1972, spilaði Breiðablik í fyrsta KSÍ keppnisleik kvenna. Hann var spilaður á Vallargerðisvelli gegn Fram. Konurnar hafa notið mismikillar athygli í fótboltanum síðan. Liðið mitt, Breiðablik, er hinsvegar eina félagið sem hefur haft þá þrautseigju og hollustu við stelpur sem hafa áhuga á að spila fótbolta að taka þátt í hverju einasta Íslandsmóti kvenna síðan.
Vagga kvenna í fótbolta
Það er tilefni stolts og það er líka tilefni stolts að allt frá árinu 1985 hefur Breiðablik haldið fjölmennasta fótboltamót fótboltastelpna í landinu. Gull og silfur mótið – seinna Símamótið – er vettvangur sem afrekskonur dagsins í dag muna flestar eftir.
Upp úr eljunni í Kópavoginum spratt landslið kvenna í fótbolta. Fyrsti þjálfari stelpna fyrir sunnan læk varð fyrsti landsliðsþjálfarinn. En vissirðu að Ayatollarnir í KSÍ gáfust upp á kvennalandsliði um hríð? Það var lagt niður um nokkurra ára skeið en nokkrum árum síðar kenndu okkar ágætu fótboltakonur strákunum hvernig ætti að komast á stórmótin og ná þar árangri.
Sumarið 2022
Þetta finnst mér nauðsynlegur inngangur að umfjöllun um kvennalið Breiðabliks sumarið 2022. Auðvitað er það nýtt fyrir okkur stuðningsfólkinu að ná ekki tilsettum árangri og það eru vonbrigði. Það eru vonbrigði að tapa bikarúrslitaleik og það eru vonbrigði að lenda í þriðja sætinu, utan Evrópukeppni. Þetta eru samt ekki fyrstu vonbrigðin í sögunni og ef Breiðablikskonur spila fótbolta næstu 50 árin þá eru þetta væntanlega ekki þau síðustu heldur.
Þetta var umbrotaár hjá liðinu. Margar okkar flinkustu spilara fengu tækifæri í útlöndum eftir að Breiðablik spilaði í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fyrra, fyrst íslenskra fótboltaliða. Þjálfarinn tók við landsliðinu og nýr kom sem var með síbreytilegan hóp allt tímabilið. Sumt gekk vel en annað ekki.
Sem Breiðabliksmaður kýs ég að líta á þetta sumar frekar sem keppnismillibil en keppnistímabil. Að slíkt millibil skili þriðja sæti í deild er viðunandi, finnst mér, og konurnar í liðinu eiga svo mikið hrós skilið fyrir baráttuna, eljuna og frammistöðuna. Mér fannst utanumhald leikja flott og traust og við getum vafalaust gert eitthvað sniðugt næsta sumar til að efla aðsóknina að leikjum Breiðablikskvenna.
Takk fyrir mig og takk fyrir ykkur!
Eiríkur Hjálmarsson
ÁFRAM STELPUR