Súrt tap
20.05.2022
Stundum fannst manni orðið líklegra að jarðhræringarnar á Reykjanesskaganum leiddu til goss í Hrauntungunni en að boltinn myndi rata í markið hjá Eyjakonum. Einhvern veginn sveikst tuðran alltaf um að rata af fótum eða höfðum okkar grænklæddu í netið. Þess vegna var það, eftir ákaflega sjaldséð mistök, að stelpurnar í ÍBV dugguðu heim með Herjólfi með stig í farangrinum.
Leikur Breiðabliks og ÍBV í Bestu deild kvenna frestaðist um sólarhring vegna brælu á sundinu milli Eyja og lands. Eftir þrjá sigra í deildinni gátu okkar konur skellt sér á topp deildarinnar með sigri í leiknum en Eyjakonur mættu til leiks með sigur á KR og jafntefli við Stjörnuna í farteskinu. Þær höfðu hinsvegar tapað fyrir Selfossi og Þrótti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Liðið sem Ási stillti upp var með prýðilegri viðbóta þar sem Áslaug Munda var aftur mætt til landsins eftir skólavetur í Harvarði.
Annars var byrjunarliðið svona:
Anna Petryk - Natasha Moraa Anasi - Hildur Antonsdóttir - Taylor Marie Ziemer - Melina Ayres - Ásta Eir Árnadóttir - Alexandra Jóhannsdóttir - Karitas Tómasdóttir - Telma Ívarsdóttir - Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir - Heiðdís Lillýardóttir.
Við fórum betur af stað í leiknum og boltinn gekk ágætlega á milli en Eyjakonur voru vel skipulagðar og opnanir fáar. Þær náðu sprettum fram á við án þess að hætta skapaðist þeim megin heldur.
Það kom þess vegna eins og skrattinn úr sauðarleggnum að eftir hreinsun frá eftir hornspyrnu Eyjakvenna smellir hvítklæddi varnarjaxlinn Júlíana í markskot milli vítateigs og miðju og einhvern veginn rataði hann yfir Telmu og í netið og 0-1 staðan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við höfum átt svolítið erfitt með það í vor, kannski vegna mikilla breytinga á liðinu, að finna góðan takt. Eftir markið fór hann hinsvegar alveg og með því að Eyjakonum hafði hlaupið kapp í kinn og þær héldu áfram skipulagi, varð leikurinn afar erfiður. Jafnvel eftir að okkar konur voru komnar yfir mesta áfallið náðist ekki agi, skerpa og gleði í leik þeirra. Þegar svo færi og hálffæri fóru forgörðum fannst manni leikurinn einhvern veginn orðinn tapinu brenndur. Tvær tvöfaldar skiptingar komu fyrir ekki og ógnin fram á við ekki nógu mikil.
Ekki góður dagur semsagt nema hjá kvennadeild Kópakabana. Mikið hrikalega sem sú sveit stóð sig vel í stúkunni í kvöldblíðunni þótt margt væri mótdrægt inni á vellinum.
Næsti leikur er heimaleikur á móti Val á þriðjudagskvöldið. Valsstelpurnar eru efstar í Bestu deildinni eftir stórsigur á KR. Þær töpuðu fyrir norðankonum og eru þess vegna bara þremur stigum fyrir ofan Breiðablik. Við getum því jafnað þær að stigum á þriðjudagskvöldið en þá þurfum við að gera talsvert marga hluti öðruvísi en í þessum Eyjaleik.
Öll á Kópavogsvöll á þriðjudagskvöldið kl. 19:15.
Eiríkur Hjálmarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð