3 góð stig í Lautinni.
17.06.2013Byrjunarliðið okkar var þannig skipað;
Gunnleifur
Tómas Óli – Sverrir Ingi – Renee Troost – Kristinn Jóns
Elfar Árni – Finnur Orri - Andri Yeoman – Guðjón Pétur –
Ellert- Árni Vilhjálms
Blikar gerðu enn breytingar á liði sínu frá síðasta leik þegar þeir mættu Fylki í Lautinni í kvöld. Nichlas byrjaði á bekknum og Tómas Óli var í hægri bakverði. Í stað Finns Orra sem fór aftur inn á miðjuna.
Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Olgeir Sigurgeirsson
Jökull I. Elísabetarson
Viggó Kristjánsson
Nichlas Rohde
Páll Olgeir Þorsteinsson
Þórður Steinar Hreiðarsson
Sjúkralisti – Gísli Páll, Rafn Andri
Sjá leikskýrslu HÉR
Blikar byrjuð þennan leik af fullum krafti og voru öryggið uppmálað frá byrjun. Hver stórsóknin á fætur annari dundi á marki heimamanna og markvörður þeirra varði stórkostlega hvað eftir annað frábær skot okkar manna. Eitthvað varð þó undan að láta hjá heimamönnum og Blikar komust verðskuldað yfir þegar……..KÖTT !
Eitthvað á þessa leið hefði lýsing á leiknum í kvöld getað hljómað ef Blikar hefðu verið miklu betri en þeir voru í kvöld og Fylkismenn jafn slakir og þeir voru. En því var ekki að heilsa. Okkar menn voru á köflum eins og svefngenglar, gerðu barnaleg mistök og vor allt að því heillum horfnir. Sendingafeilar óteljandi um allan völl, margar undarlegar ákvarðanir teknar þegar við vorum í álitlegum stöðum, og misheppnaðar ,,úrslitasendingar” álíka margar og hólarnir í Vatnsdal . Það gilti einu hvaða leikmenn um var að ræða, flestir léku vel undir pari (eða öllu heldur yfir pari). Lítill hreyfanleiki var á mönnum fram á við, og það var eins og allir væru að bíða eftir að einhver annar kláraði málið. En hann er sem kunnugt er í allt öðru liði. Fyrri hálfleikur var afar tíðindalítill og bæði færin sem við fengum komu eftir sóknir upp vinstri vænginn sem enduðu með fyrirgjöfum en því miður náði Árni ekki að nýta sér þessi færi. Krafa á senter er að hann klári am.k. annað. Árni er enn að læra, en hann þarf að læra aðeins hraðar og setja meiri einbeitingu í málið. Þá gæti þetta smollið, því hann er að koma sér í færin. Svo áttum við náttúrulega að fá víti þegar varnarmaður Fylkis varði fyrirgjöf Ellerts með hendi. Það sáu allir, nema dómaratríóið og PEPSI gæjarnir. Enn ekki farnir til augnlæknisins.
Í hálfleik var stemmingin þungbúin hjá vísitölublikunum, eins og veðrið undanfarna daga.Að vísu fannst mönnum Blikar hressast eftir því sem leið á hálfleikinn, en töldu meira þurfa til að klára málið. Menn voru eiginlega á þvi að það lið sem fyrr skoraði myndi vinna leikinn, því það yrði sennilega eina mark leiksins. Og hvar voru stuðningsmennir sem hafa haldið upppi stuðinu á síðustu leikjum. Þeirra var sárt saknað. Að öðru leyti var allt gott að frétta. Veiði góð í Ölvesvatni nyrðra, og vænir urriðar að fást á fluguna. Dáldið mý úti í kaffinu, en það fylgir.
Síðari hálfleikur var um margt keimlíkur þeim fyrri, en þó verður að segja að heimamenn voru heldur nær því að gera okkur skráveifu en í þeim fyrri. Í fyrra skiptið náði Guðjón að renna sér fyrir skot á síðustu stundu en í hitt skiptið varði Gunnleifur, þokkalegt skot eftir skyndisókn. Ólafur Helgi freistaði þess að hrista upp í sínum mönnum og skipti Nichlas inn á í stað Renee og um leið fór Finnur Orri í miðvarðarstöðuna við hlið Sverris. Skömmu síðar kom svo Þórður Steinar inn fyrir Tómas Óla. Heimamenn gerðu einnig breytingar og sendu m.a. markhæsta leikmann Íslandsmótsins frá upphafi, Tryggva Guðmundssson, inná. Það er nú ekki hægt að segja að það hafi róað mannskapinn á pöllunum að vita af TG9 snuðrandi í kringum Blikana eins og leikurinn var að spilast. Blikar gerðu svo enn eina breytingu. Árni fór af velli og í hans stað kom Atli Fannar Jónsson, 18 ára, bráðefnilegur leikmaður og þreytti frumraun sína á stóra sviðinu. Atli er grjótharður senter sem lætur finna vel fyrir sér og á eflaust eftir að græta margan varnarmanninn í framtíðinni. Atli stóð sig vel, var rólegur á boltanum og fór a.m.k. í eina fullorðins tæklingu, sem hann vann. Hann tekur mikið lýsi og borðar soðna ýsu í flest mál að sögn.
En svo koma vendipunktur leiksins og það þurfti glæsilegt einstaklingsframtak til að brjóta ísinn. Fylkismenn fengu horn, á stórhættulegum stað, eins og maðurinn sagði, og eftir smá vesen í teignum tókst okkar mönnum að moka boltanum út úr vítateignum. Þar tók Andri Rafn Yeoman við honum og skeiðaði af stað framhjá hverjum Fylkismanninum á fætur öðrum, alla leið að vítateig þeirra gulu, alls 70 metra. Þar renndi hann boltanum út til vinstri, á Nichlas, sem lék á varnarmann og potaði svo boltanum yfir úthlaupandi markvörðinn. Litlu munaði að varnarmaður næði að komast fyrir skotið en boltinn endaði í netinu. Er þá ekki rétt að segja að þetta hafi verið snilldarskipting? 0-1 fyrir Blika sem fögnuðu vel og lengi. Skömmu síðar fengu Blikar annað færi og enn var það Andri sem lagði grunnin að því með flottri sending á Nichlas, en fast skot hans fór naumlega framhjá. Það sem eftir lifið leiks léku Blikar af skynsemi. Áttu nokkrar álitlegar sóknir sem ekki náðist að gera sér mat úr og það má alveg nefna að heimamenn fengu ansi lausan taum hjá dómaranum þegar kom að því að toga og teika menn sem voru við það að sleppa í gegn. Sérstaklega voru þeir lener við Sverri Garðarsson, svo slett sé á seyðfirsku. En okkar menn sigldu þessu heim í rólegheitunum og náðu eiginlega að drepa leikinn þannig í restina að heimamenn fengu ekki eitt færi síðustu 15 mínúturnar. Það var vel gert og væntanlega af tillitssemi við þá stuðningsmenn sem mættir voru. Niðurstaðan sanngjarn 0-1 sigur, því þrátt fyrir að Blikar léku ekki vel voru þeir allan tímann betra liðið á vellinum. Uppskáru 3 stig og héldu hreinu. Það er jákvætt.
Þessi leikur fer sennilega ekki í sögubækurnar margfrægu, þó hann rati á veraldarvefinn. Bæði var að frekar lítið var um almennilegt fjör með færum og flottu samspili, og eins var eitthvað slen yfir mörgum leikmönnum í grænu treyjunni.. Þarna verður þó að undanskilja markmanninn sem hafði nánast ekkert að gera, en var á tánum og lét ekki grípa sig sig í bólinu í þau örfáu skipti sem markinu var ógnað. Svo er ekki hægt að klára þennan leik án þess að minnast á hornspyrnur okkar manna. Alls voru þær sjö (eða átta) og af þeim fóru 4 beint í hendur marmanns andstæðinganna sem stóð ótruflaður á marklínunni. Þarna hljóta menn að geta gert betur. Við erum búnir á fá ógrynni horn- og aukaspyrna í þessu móti og við verðum að fara að nýta þessi færi.
Einu sinni var sagt að ef maður gerði mistök og lærði af þeim væri það út af fyrir sig gott, því það væri góð ,,reynsla”. Ef maður hinsvegar lærði ekkert, endurtæki bara leikinn og byggist við annarri niðurstöðu en í fyrra skiptið, kæmi það manni í koll fyrr eða síðar. Ég veit ekki hvort þetta er satt því ég var einu sinni ekki til, en það má pæla í þessu. Gera hlutina öðruvísi og prufa kannski eitthvað annað en það sem eilíflega klikkar. Það eru komnir svo góðir (og rándýrir) markmannshanskar að nú til dags er mjög sjaldgæft að markmenn missi boltann inn í horni ef þeir fá að grípa hann í rólegheitunum.
Næsti leikur okkar er í Borgunarbikarnum á fimmtudag. Þá förum við upp á skaga og mætum heimamönnum í leik sem við verðum að vinna. Þannig er bikarkeppnin. Upp á líf og dauða.
Ég hvet alla Blika til að fjölmenna og styðja við okkar menn með öflugri hvatningu. Bikar í boði.
Áfram Breiðablik !
OWK
p.s.
Breiðablik OPEN golfmótið verður haldið 28.júní
Allt um það á Blikar.is
Ert þú búinn að skrá þig?