3ja stiga karfa í Keflavík.
14.07.2013
Það er nóg að gera hjá okkar mönnum þessa dagana og nú er spilað alla fimmtu- og sunnudaga. Það er ófyrirséð hvenær þetta einfalda munstur brotnar upp en vonandi verður það ekki á næstunni. Og af því að það er einmitt sunnudagur í dag þá lá leiðin á völlinn og í þetta sinn til Keflavíkur þar sem heimamenn voru okkar andskotar í dag. Blikar nýkomnir úr góðri ferð til Andorra þar sem þeir tryggðu endanlega sæti í annarri umferð Evrópudeidlar UEFA. Þar var fátt annarra tíðenda en þeirra að Sverrir Ingi hélt áfram þar sem frá var horfið í Vestamannaeyjum með styrkleikaprófanir ,fyrir Andrés, á marksúlum í hinum fámennari byggðarlögum Evrópska efnahagssvæðisins, utan alfaraleiða og/eða ofan snjólínu. Bráðabirgðaniðurstöður liggja nú þegar fyrir, og eru þær helstar, að marksúlunar þola spyrnurnar ágætlega, óháð hæð yfir sjávarmáli, og eru nánast óskemmdar, allar með tölu. Bráðabirgðaaukaniðurstaða Sverris er að það telst allajafna ekki mark ef knötturinn kastast út á leikvöllinn, án viðkomu innan marklínunnar. Þetta veit Guðjón Pétur mætavel, en Sverrir telur ekki alveg fullreynt og birtir þetta því til bráðabirgða og með öllum mögulegum fyrirvörum um síðari tíma breytingar.
Blikar gerðu nokkrar breytingar á liðinu frá leiknum gegn Santa Coloma ytra. Ellert var frá vegna smávægilegra meiðsla og Reneé var í leikbanni.
Byrjunarliðið okkar var þannig skipað;
Gunnleifur
Jökull - Þórður Steinar – Sverrir Ingi – Kristinn Jónsson
Tómas Óli - Andri Yeoman – Finnur Orri (F) – Nichlas
Árni Vill - Elfar Árni
Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Atli Fannar Jónsson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Viggó Kristjánsson
Olgeir Sigurgeirsson
Guðjón Pétur Lýðsson
Ósvald J. Traustason
Sjúkralisti; Gísli Páll Helgason – Rafn Andri Haraldsson – Ellert Hreinsson
Leikbann; Reneé Troost
Leikskýrsla í boði KSÍ Myndaveisla í boði Fótbolta.net Uppgjör í boði Heisa
Það voru frábærar aðstæður til knattspyrnuiðkunar í dag. Hægur andvari og úrkomulaust, ekki sérlega hlýtt en völlur góður og hæfilega rakur en hefði kannski mátt vera sleginn ögn sneggra. Semsagt allt hráefni til staðar.
Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega og litlu munaði að Sverrir næði að komast í færi strax í upphafi en heimamenn náðu að bægja hættunin frá. Næstu mínútur þróuðust þannig að Blikar voru meira með boltann en náðu lítið að opna vörn andstæðinganna og fátt var um góð færi. Litlu munaði þó eftir ein hornspyrnu okkar manna, en enn og aftur var það Sverrir sem var náægt því að komast í skotið, en enn á ný höfðu heimamenn heppnina með sér. Eftir hálftíma leik kom svo besta færi fyrri hálfleiks. Blikar áttu þá flotta sókn og Árni sendi góða sendingu innfyrir á Nichlas sem kom á ferðinni í s.k ,,nærstangarhlaup”. Gummi Ben. skilur þetta. En Nichlas, sem gerði eiginleg allt rétt í þessari sókn varð nú aðeins á í messunni, þegar hans hægri og vinstri fótur gleymdu að tala saman og stilla saman úrin. Útkoman varð enda ekki gæfuleg. Því þegar Nichals hugðist smella boltanum í netið með vinstri, eins og við höfum oft séð hann gera svo listilega vel, fór hægri fóturinn gróflega út af sporinu og pikkaði boltanum til hliðar þannig að sá vinstri greip í tómt. Á honum var hinsvegar næg sveifla til að kasta framherjanum knáa kylliflötum til jarðar. Þetta þótti heimamönnum fyndið og höfðu ekkert séð fyndnara síðan Bjössi Bolla kastaði rjómakökunum í beinni útsendingu í den.
Það sem eftir lifði hálfleiks voru Blikar ívið sterkari og Keflvíkingar náðu ekki að skapa sér nein færi sem heitið getur. Hins vegar munaði minnstu að Nichlas gyldi heimamönnum rauðan belg fyrir gráan hláturinn rétt fyrir hlé en markvörður þeirra varði vel af stuttu færi.
Staðan í hálfleik því; ,,markalaus, núll-núll, ekkert mark hefur verið skorað”, svo maður vitni nú beint í meistarann sjálfann.
Það var sitthvað rætt í hálfleiknum. Menn afskaplega óánægðir með Jarlinn og fannst hann leyfa heimamönnum allt of miklar bakhrindingar og peysutog gegn okkar mönnum. Annars voru men bjartsýnir á seinni hálfleikinn en fannst okkar menn óþarflega rólegir og varfærnir í uppspilinu. Meira kantspil.
Svo var náttlega heilmikið rætt um glæsilegan sigur okkar manns í Laugavegshlaupinu um helgina - smella hér.Töldu menn einsýnt að þrotlausar þrekæfingar upp alla yngri flokka væru loks að skila sér að fullu.
Nú nú, en svo hófst síðari hálfleikur og það er skemmst frá því að segja að heimamenn mættu mun grimmari til þess leiks. Fengu strax dauðafæri, og það tvö í sömu sókninni en fóru herfilega með bæði. En það var skammgóður vermir því skömmu síðar náðu þeir forystunni. Markið var reyndar af dýrari gerðinni en aðdragandinn af okkar hálfu hreint ekki til útflutnings. Blikar misstu boltann klaufalega á eigin vallarhelmingi og þar náði Elías Már, kornungur og efnilegur piltur úr 2. flokki Keflavíkur sem Blikar kannast vel við, boltanum. Lék á einn Blika og lét svo skotið vaða á markið. Boltinn söng í netinu, efst í markhorninu og Gunnleifur átti varla möguleika þó hann ætti afmæli. Óneitanlega glæsilegt mark en afar ógeðfellt engu að síður. Staðan 1-0, heimamönnum í vil. Hvað áttu bændur nú til bragðs að taka? Fyrstu mínúturnar eftir markið var eins og okkar menn væru áfram hálf vankaðir og það var lítið í gangi. Blikar settu Guðjón Pétur inn á á 60. mínútu og við þá breytingu var eins og menn vöknuðu aðeins til lífsins. Nokkrar álitlegar sóknir komu upp kantana og einni slíkri lauk með því að Keflvíkingur handlék knöttinn innan teigs. Blikar heimtuðu víti, en fengu horn. Þessi enski skiptinemi sem var á línunni í kvöld var ekki upp á marga fiska og vonandi átti hann mjög slæman dag, því það var hrein hörmung að sjá til hans allan leikinn. Nóg um það, en hann var bara ömurlegur. Skömmu síðar náðu svo Blikar að jafna metin og þar var fyrrnefndur Guðjón Pétur að verki, eftir góða og hraða sókn Blika upp vinstri kantinn sem lauk með því að Kristinn J. sendi eitraðan bolta fyrir markið. Keflvíkingar náðu ekki að herinsa frá og boltinn barst til Guðjóns sem tók boltann viðstöðulaust á lofti og sendi í markið. Vel gert . 1-1.
Þetta setti enn meiri kraft í Blika og þeir keyrðu nú vel á heimamenn sem voru greinilega farnir að þreytast og komið nokkuð fát á spilamennsku þeirra. Atli Fannar kom inn fyrir Nichlas. Blikar fengu nokkrar aukaspyrnur og úr einni slíkri barst boltinn til Andra Yeomans sem var við vítaeigslínuna. Hann hafði engan til að gefa á og ákvað því að skora sjálfur, enda markið tómt og markmaðurinn í lautaferð. Blikar komnir yfir og enn voru 15.mínútur til leiksloka. Blikar tóku nú öll völd á vellinum og fengu nokkur álitleg tækifæri til að auka muninn. Besta færið fékk Atli Fannar þegar hann komst einn á móti markmanni en skaut naumlega framhjá. Vel gert hjá Atla að koma sér í færið en það vantaði kirsuberið. Það sem eftir lifiði leiks héldu Blikar boltanum nokkuð vel. Sverrir átti nokkrar atlögur að marki heimamanna úr aukaspyrnum, hornspyrnu og hraðaupphlaupi, En það vantaði ávallt herslumun. Hinsvegar vantaði ekki græðgina og Sverrir átti sannarlega skilið að setja a.m.k. eitt mark í kvöld. Keflvíkingar náðu svo einu hættulegu upphlaupi í blálokin en skutu naumlega yfir.
Dómarinn flautaði svo til leiksloka þegar 4 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og góður sigur okkar manna var þar með í höfn.
Þrjú mikilvæg stig í húsi og framundan eru skemmtilegar og krefjandi vikur hjá Blikum, með leikjum á öllum vígstöðvum og það er ekkert athugavert við það að stuðnngsmenn taki virkan þátt í veislunni.
Í dag heyrðist ekki múkk í fjölmörgum stuðningsmönnum Blika fyrr en eftir jöfnunarmarkið. En strákarnir stóðu við sitt og það er aðalmálið. Kannski við hin verðum með næst……
Næsti leikur er í 2. umferð undankeppni Evrópudeildar UEFA n.k. fimmtudag kl.19:15. Þá mætum við Sturm Graz frá Austurríki. Við þurum að ná hagstæðum úrslitum hér heima og til þess þarf fullan völl og öskrandi stemmningu. Hver vill missa af þessu?
Miðar verða væntanlega seldir í forsölu og rétt að vekja athygli á því að aðeins er selt í sæti skv. reglum um leiki í Evrópukeppni.
Áfram Breiðablik !
OWK