- Byrjunarlið Blika ásamt Lukku-Blikum. Mynd: BlikarTV
- Andri Rafn Yeoman spilaði 300. meistarflokksleikinn í kvöld.
- Það var hart barist í báðum vítateigum. Mynd: HVH
- Thomas Mikkelsen að skora mark Blika á '70. Mynd: HVH
- Allir eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna í síðari hálfleik, ekki síst ungu strákarnir Kolbeinn og Brynjólfur Darri. Mynd: HVH
Að mæta til leiks í hálfleik
20.08.2018Breiðablik tók á móti Val í kvöld – 20. ágúst á Kópavogsvellinum í toppslag PEPSI deildarinnar. Valsmenn gátu komist á toppinn með sigri en Breiðablik hafði möguleika á að styrkja enn frekar stöðu sína í toppsætinu með sigri. Það var gott veður til knattspyrnuiðkunar, reyndar rigningarúði eins og oft þetta sumar – en logn í Kópavogsdalnum og völlurinn í góðu ásigkomulagi. Byrjunarlið Breiðabliks var óbreytt frá því gegn Víkingi Ólafsvík – nema að Willum Þór Willumsson er lítillega meiddur og Ágúst tók ákvörðun að hvíla hann fyrir komandi átök. Arnþór Ari tók stöðu hans en byrjunarliðin má sjá hér.
Abraham Lincoln sagði einhverju sinni: "Things may come to those who wait, but only the things left by those who hustle." Þessi speki sannaðist á leiknum í kvöld. Þeir sem hafa fyrir hlutunum uppskera iðulega því sem þeir sá. Ágúst var á fjölmennum fundi með Blikaklúbbnum fyrir leikinn og fór yfir taktíkina. Hún var ekki flókin – liðið átti að spila sinn leik og sækja hratt á Valsliðið. Því miður fyrir okkur stuðningsmennina voru okkar menn allt of passívir og sýndu ekki mikið áræði. Valsmenn gengu á lagið og stýrðu leiknum í fyrri hálfleik – en sköpuðu sér ekki mörg færi. Þeir höfðu mikla stöðuyfirburði enda liðið gríðarlega sterkt og reynslumikið. Það var greinilegt að Ólafur Jóhannesson þjálfari lagði upp með svipaða taktík og hefði gefist vel í fyrri leik liðanna á Hlíðarenda þar sem áhersla var á að senda boltann á Dion Acoff sem átti að skapa færin gegn Davíð hægra megin. Eftir rúmlega hálftíma leik brast stíflan. Birkir Sævarsson fékk boltann hægra megin eftir stungusendingu inn í vítateig og því lauk með því að Damir felldi hann í dauðafæri. Patrick Pedersen fór á vítapunktinn og sýndi mikið öryggi. 1-0 fyrir Val. Áfram hélt Valur frumkvæðinu og alveg undir lok hálfleiksins átti Birkir Sævarsson (sem er bróðursonur Gunnleifs markmanns okkar, nokkuð sérstök staðreynd) frábæran sprett upp hægra megin – sendi hann á Acoff sem fann Patrick í teignum og hann skoraði með föstu skoti sem Gulli réði ekki við. Staðan því 2-0 í hálfleik og sannast sagna var upplitið á okkur stuðningsmönnum Blika ekki beisið. Kaffið var einhverra hluta vegna ekki eins gott á bragðið og oft áður.
En upplitið á okkur Blikastuðningsmönnum átti heldur betur eftir að breytast til batnaðar. Gústi gerði eina skiptingu – Kolbeinn Þórðarson kom í stað Arons Bjarnasonar og átti hann stórleik. Klefaræðan hjá Ágúst þjálfara hlýtur að hafa verið í anda frægustu ræðu áðurnefnds Abrahams Lincoln í Gettysburg 1863 þar sem hann brýndi baráttuandann í brjóst hermanna Norðurríkjanna í þrælastríðinu. Það var algerlega óþekkjanlegt lið sem kom inn á í seinni hálfleik og Blikar tóku öll völd og stýrðu leiknum það sem eftir lifði leiks. Við tók frábær spilamennska og við fengum mörg færi til að minnka muninn. Blikar gerðu tilkall til að fá 2 vítaspyrnur á tveggja mínútna kafla og í seinna tilfellinu var reyndar óskiljanlegt hvernig Þóroddur Hjaltalín dómari sleppti víti þegar Hedlund klippti Thomas Mikkelsen niður. Stuttu síðar á Thomas frábært skot en Valsmenn björguðu á línu. Sóknin hélt áfram og enn frekar eftir að Brynjólfur Darri kom inn fyrir Arnþór Ara á 61. mínútu. Ísinn var brotinn á 70 mínútu þegar Mikkelsen skallaði í netið af miklu harðfylgi. Þvílík himnasending frá Vejle sem sá drengur er. Nú fóru menn í efstu röðinni sunnanmegin að vakna til lífsins og Gunnsteinn skólastjóri Lindaskóla var fullviss um að nú myndi kné fylgja kviði. Við breyttum í 3ja manna vörn (það gera ekki mörg lið gegn Íslandsmeisturum Vals) og Elfar Freyr kom inn fyrir Gísla sem var kominn með álagsmeiðsl. Gott að sjá Elfar vera að koma til aftur, okkur veitir ekki af styrkingu á hópnum í toppslagnum. Það var því algerlega gegn gangi leiksins að Acoff náði að skora úr fyrsta færi Vals í síðari hálfleik. Þetta var slys og boltinn datt fyrir fætur hans og afgreiðslan var snyrtileg. Blikar héldu samt áfram að sækja en leikurinn fjaraði út og fyrsta tap Breiðabliks í 10 leikjum var staðreynd.
Það má ýmislegt læra af þessum leik. Kannski er stærsti lærdómurinn sá að það fer Breiðablik miklu betur að stýra leiknum og sýna áræði heldur en að láta öðrum eftir frumkvæðið. Gera eins og Abraham Lincoln mælir með sem sagt. Það gerði liðið í seinni hálfleik – en það gengur ekki upp ef leikurinn er heilar 90 mínútur að lengd og ekki gott að gefa 2 mörk í forgjöf.
Besti leikmaður Blikanna í kvöld var Jonathan Hendrickx. Hann sinnti varnarhlutverkinu vel allan leikinn og var hugmyndafræðingurinn bak við margar af okkar góðu sóknum í seinni hálfleik. Allir eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna í síðari hálfleik, ekki síst ungu strákarnir Kolbeinn og Brynjólfur Darri. Það er með ólíkindum hvað við Blikar getum endalaust sótt hæfileikana í okkar framúrskarandi unglingastarf.
Valur er með gífurlega sterkan hóp enda verið duglegir á leikmannamarkaðnum undanfarin misseri. Knattspyrnufélagið Valur var stofnað árið 1911. Undanfari Vals var Fótboltafélag KFUM en séra Friðrik Friðriksson, sá mikli predikari og æskulýðsfrömuður var hvatamaður að stofnun félagsins.
Valur vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil árið 1930, nítján árum eftir að félagið var stofnað. Langþráður draumur varð að veruleika, en séra Friðrik sagði við nýbakaða meistarana að vissulega væri sigur góður en ekki mætti ofmetnast eða sýna dramblæti, en alla tíð var séra Friðrik með ýmis heilræði til Valsmanna, m.a. um drengilegan leik og háttprýði. Því miður er það svo að ýmis ummæli sem féllu í hita leiksins frá talsmönnum Vals eru kannski ekki alveg í anda séra Friðriks.
Það er einlæg ósk okkar Blika að næst þegar Valur kemur í heimsókn í Kópavoginn að þá fáum við meira af umburðarlyndi og lífsviðhorfum séra Friðriks Friðrikssonar – en minna af því sem eftir mönnum var haft.
Næsti leikur okkar Blika er gegn Stjörnunni á heimavelli nágranna okkar í Garðabænum mánudaginn 27. ágúst. Við eigum góðar minningar þaðan þegar við tryggðum okkur eina Íslandsmeistaratitil Breiðabliks árið 2010. Við getum enn staðið í þeim sporum ef við leikum eins og í síðari hálfleik í kvöld. En þá þýðir ekki að mæta til leiks í hálfleik. Ágúst: Við treystum því að þú haldir þína Gettysborgarræðu fyrir leik í Garðabænum. Þá þurfum við ekkert að óttast.
Hákon Gunnarsson
Myndir: Blikar TV Fótbolti.net