BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ææ og Óó

01.07.2016

Blikar léku í kvöld fyrri leikinn gegn Lettneska liðinu FK Jelgava í Evrópudeildarkeppni UEFA. Blikar renndu kannski eilítið blint í sjóinn með styrkleika andstæðinganna enda lettneskur fótbolti ekki daglegt brauð hér á landi þó hann hafi vissulega sést.

Aðstæður voru allar hinar bestu í kvöld. Logn og þokkalega heitt og sól skein með köflum. Völlurinn allur að koma til eftir erfitt vor og er nú orðinn vel þéttur að sjá, og eftir rigningarskvettur dagsins var hann vel blautur og því bjuggust sumir við hörkuleik og góðu rennsli. Það er hinsvegar ekki hægt að áætla að hinn almenni stuðningsmaður hafi beðið með ofvæni eftir leiknum því áhorfendur voru aðeins 531 skv. vallarþul. Kópacabana sveitin ekki sjáanleg, hvorki tangur né tetur. Það var skaði.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F)
Alfons Sampsted - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Ellert Hreinsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Jonathan Glenn
Varamenn:
Aron Snær Friðriksson (M) - Gísli Eyjólfsson - Sólon Breki Leifsson - Viktor Örn Margeirsson - Guðmundur Friðriksson - Ágúst Eðvald Hlynsson - Arnór Sveinn Aðalsteinsson

Sjúkralisti: Atli Sigurjónsson - Guðmundur Atli Steinþórsson - Höskuldur Gunnlaugsson

Leikbann: Enginn

Blikar mættu einbeittir til leiks í dag og það var góð barátta um allan völl. Stopp, stopp, stopp....
Byrjum upp á nýtt.
Blikar mættu algjörlega andlausir til leiks í dag og annað hvort var hræðilegt (og óskiljanlegt) vanmat í gangi hjá okkar mönnum eða að þeir hreinlega koðnuðu undan pressunni.  Og ég kaupi reyndar ekki þetta með pressuna. Til þess er liðið of reynslumikið og það voru ekki síður hinir reynslumeiri sem klikkuðu í dag. Til að gera langa sögu stutta voru okkar menn gjörsamlega á hælunum til að byrja með og vantaði alla grimmd og ákveðni. Gott dæmi um þetta var klaufalegur varnarleikur okkar strax á 3ju mínútu þar sem Gulli missti boltann en varði svo skotið sem kom í kjölfarið og þar vorum við heppnir að lenda ekki undir. Og satt best að segja stóð ekki steinn yfir steini í leik okkar manna. Enda komu gestirnir tuðrunni í netið hjá okkur strax á 10. mínútu. Og það var alveg hrikalegt mark. Hornspyrna yfir á fjærstöng og þar kom einn leikmanna gestanna aðvífandi eftir langt hlaup og skallaði boltann óáreittur í netið. Þarna hreyfðu Blikar hvorki legg né lið og voru eins og stungnir svefnþorni. „Easy goal at the far post“ segja tjallarnir stundum og þarna var það svo sannarlega raunin. Þau verða ekki auðveldari eða einfaldari en þetta. Blikar lentir undir og eiginlega allt í kalda kolum. En okkar menn létu þetta ekki buga sig alveg og blésu til sóknar. Og það bar árangur aðeins þrem mínútum síðar eða svo þegar Bamberg skoraði mark eftir að Blikar náðu góðri sókn upp hægri vænginn. Sóknin virtist vera að fjara út þegar boltinn barst á Oliver sem lék að vítateignum hægra megin og dró að sér tvo varnarmenn og renndi svo boltanum út á Alfons sem kom með fínam bolta fyrir markið þar sem Glenn kom aðvífandi og setti boltann í stöngina. Það kom þó ekki að sök því Bamberg náði frákastinu og afgreiddi boltann laglega í netið. Staðan orðin jöfn og hresstust nú stuðningsmenn Blika til muna og veitti ekki af. En það stóð ekki lengi því áfram hélt vandræðagangur okkar manna og má eiginlega segja að við höfum verið heppnir að næsta mark gestanna kom ekki fyrr en rúmur háflftími var liðinn og enn var það eftir hornspyrnu. Að þessu sinni virtist spyrnan hálf misheppnuð en hún var þokkalega föst og rataði inn á mijan markteig þar sem leikmaður gestanna kom aðvífandi og skoraði með góðu skoti. Okkar menn víðsfjarri sem fyrr, og því fór sem fór.
En að þessu brugðumst við ekki einu sinni við, heldur hélt ballið bara áfram og minnstu munaði að við fengjum 3ja markið í andlitið skömmu síðar en Elfar náði að moka upp eigin skít áður en tjón hlaust af. En tæpt var það. Og í hvert sinn sem Lettarnir komust upp að teig okkar manna var stórhætta á ferðum. Að ekki sé nú talað um hornspyrnurnar. Við vorum eins og haus- og ráðalaus hænsni og maður var nú eiginlega bara að vona að við myndum hanga á þessu til hálfleiks. En það varð ekki raunin því gestirnir bættu við enn einu markinu þegar við misstum boltann klaufalega á okkar vallarhelmingi. Einn gestanna, öskufljótur skratti, náði boltanum og geystist af stað, rakleiðis inn í vítateig og skoraði örugglega framhjá Gunnleifi. Klaufalegt af okkur en kannski ættum við að kaupa þennan?
Staðan 1-3 og horfur vægast sagt ekki góðar en forysta gestanna verðskulduð. Blessunarlega blés hinn arfaslaki danski dómari til leikhlés skömmu síðar og það var nú eiginlega með því alskársta sem hann gerði í þessar 90 mínútur.

Það var þungt hljóð í stuðningsmönnunum í hálfleik. Þeir þekktu ekki þetta Blikalið. Einn hélt því raunar fram að þetta væru ekki Blikarnir, þessir í grænu búningunum, heldur umskiptingar eins og segir frá í þjóðsögunni um 18 barna föður úr álfheimum. Fæstir lögðu nú trú á þessa skýringu en voru kannski frekar á því að það álfar væru búnir að hneppa liðið í álög vegna yfirstandandi gatnaframkvæmda í Salahvefi og vildu með þessu mótmæla nafni vegarins. Eða kannski voru menn bara búnir að missa sig svona í EM kúlið. En hver svo sem skýringin er var þetta ekki líkt því Breiðabliksliði sem við eigum að venjast. Nú var að sjá úr hverju þeir væru gerðir. Síðari hálfleikur myndi vonandi leiða það í ljós. Vonandi.

Og víst er um það að leikur okkar mann skánaði heldur til hins betra, eins og sagt er. Einkum lagaðist varnarleikur liðsins, enda greinilegt að leikmenn lögðu aðaláherslu á að þétta raðirnar framan af seinni hálfleik. Fram á við var lítið að frétta og olli þar mestu að sendingar voru ónákvæmar þegar við vorum komnir að síðasta þriðjungi vallarins. Oft vorum við í góðri stöðu til að koma okkur í færi en þá klúðruðum við yfirleitt sendingu og allt rann í sandinn.
Blikar gerðu tvöfalda skiptingu þegar stundarfjórðungur var liðinn og inn komu Gísli Eyjólfsson og Sólon Breki Leifsson í stað Arnþórs Ara og Jonathans Glenn. Þegar þarna var komið voru gestirnir aðeins farnir að haltra og lýjast og Blikar náðu ágætum tökum úti á vellinum en gekk lítið að skapa sér færi. En hornspyrnum fjölgaði og ein og ein marktilraun leit dagsins ljós. Besta færið fékk Bamberg eftir góða sendingu Alfons, en skotið geigaði. Enn þyngdist sókn Blika og gestirnir vörðu mark sitt af nokkurri hörku og fóru nokkrir í bókina hjá dómaranum. Blikar gerðu svo lokaskiptinguna þegar Águst Hlynsson kom inn fyrir Andra Rafn þegar korter lifði leiks og enn bættu okkar menn í sóknarleikinn en komust sem fyrr lítt áleiðis þrátt fyrir ágæta viðleitni á köflum. Gestirnir lögðust nú niður einn af öðrum, flestir með krampa en a.m.k tveir reyndu að blekkja dómarann með uppgerðar höfuðmeiðslum til að stoppa sóknarlotur okkar manna. Dómarinn, sem eins og fyrr segir var ekki góð sending sá þó í gegnum þetta. Blikar reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn en það var ekki fyrr en á lokamínútu uppbótartíma sem það tókst og það var Oliver sem kom boltanum í netið með sannkölluðu þrumuskoti af 20 metra færi eftir linnulitla sókn okkar manna. Kannski var þetta mark líflína. En bara kannski.

Blikar fóru illa að ráði sínu í kvöld og það er sennilega rétt hjá Arnari Grétarssyni, og haft er eftir honum í viðtölum í kvöld, að frammistaðan í fyrri hálfleik hafi sennileg verið með því lakasta í háa herrans tíð.
Einvígið er ekki búið en við þurfum margfalt betri frammistöðu í seinni leiknum ef Blikar ætla áfram í keppninni. En það er allt hægt ef menn leggja líf og sál saman í verkefnið. Við höfum einmitt séð dæmi þess að undanförnu.

En nú er það næsti leikur. Hann er á okkar heimavelli næsta sunnudag gegn ÍBV í Borgunarbikarnum og hefst kl. 14:00.
Það er bikar í boði og nú dugar ekkert nema sigur.

Við fjölmennum þar og styðjum okkar menn. Vonandi mætir Kópacabana sveitin.

Áfram Breiðablik!

OWK

Umfjallanir annarra miðla.

Ágúst Eðvald varð fjórði yngsti leikmaður sögunnar til að spila í Evrópudeildinni þegar hann kom inn á 78. mín aðeins 16 ára 3 mánaða og 2 daga gamall.

Til baka