Andri Fannar Baldursson til Bologna
31.01.2019Miðjumaðurinn ungi og efnilegi Andri Fannar Baldursson hefur verið lánaður með forkaupsrétti til ítalska úrvalsdeildarliðsins Bologna fram á sumar. Bologna getur gengið frá kaupunum á meðan lánssamningnum stendur.
Andri Fannar sem er nýorðinn 17 ára gamall er einn efnilegasti leikmaður landsins. Hann hefur að undanförnu vakið mikla athygli erlendra liða. Í nóvember síðastliðnum fór hann á reynslu til ítalska úrvalsdeildarliðsins SPAL sem gerði í kjölfarið tilboð í Andra Fannar. Áhuginn á Andra var mikill og fleiri ítölsk félög höfðu áhuga á því að fá Blikann unga til liðs við sig. Í desember fór Andri Fannar svo á reynslu til ítalska úrvalsdeildarliðsins Bologna þar sem hann stóð sig vel og leist Andra vel á aðstæður. Félögin komust í kjölfarið að samkomulagi um að Andri Fannar færi á láni til Bologna til 30.júní. Bologna á svo möguleika á því að ganga frá kaupum á Andra Fannari á meðan lánstímanum stendur.
Bologna hefur orðið ítalskur meistari sjö sinnum en þetta fornfræga félag er fimmta sigursælasta félag Ítalíu frá upphafi.
Andri Fannar lék sinn fyrsta leik í Pepsi-deildinni í sumar aðeins 16 ára og er á meðal yngstu leikmanna til þess að spila í efstu deild með Blikum frá upphafi. Andri Fannar hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands og hefur leikið 21 leik fyrir U-17 og U-18 ára landslið Íslands.
Það verður spennandi að fylgjast með þessum efnilega leikmanni í framtíðinni. Við óskum Andra Fannari góðs gengis á Ítalíu.