Árangursríkt strandhögg í Ólafsvík
25.07.2016Í Eyrbyggju segir frá berserkjum miklum er Vermundur Jarl í Bjarnarhafnarhöfn á Snæfellsnesi fékk til liðs við sig frá útlöndum. Á margan hátt má segja að Ólafsvíkingar hafi fengið nokkra slíka til liðs við sig og hafa þeir farið mikinn í sumar. En berserkir þessir mættu algjörum ofjörlum sínum á vellinum í gær og áttu þeir ekki roð í baráttukappana úr Kópavogi. Ekki þannig að við höfum gengið frá þeim á jafn lúalegan hátt og segir í Íslendingasögunni en lúpulegir voru þeir í leikslok. Lokatölur voru 0:2 og var það síst of stór sigur.
Byrjunarlið Blika: Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M) - Arnór Aðalsteinsson (F) - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Ellert Hreinsson - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Árni Vilhjálmsson
Varamenn: Alfons Sampsted - Hlynur Örn Hlöðversson (M) - Atli Sigurjónsson - Viktor Örn Margeirsson - Ágúst Eðvald Hlynsson - Höskuldur Gunnlaugsson - Jonathan Glenn
Sjúkralisti: Guðmundur Atli Steinþórsson
Leikbann: Oliver Sigurjónsson
Ólafsvíkurvöllur skartaði sínu fegursta er Blika mættu á staðinn. Heitt var í veðri og örfáir rigningardropar féllu á meðan á leiknum stóð. Fjölmargir Blikar lögðu leið sína á völlinn og yfirgnæfðu alveg heimamenn. Samkvæmt opinberum tölum voru 635 áhorfendur á leiknum og má gróflega áætla að minnsta kosti helmingur þeirra hafi stutt við Blikaliðið. Gestalisti Ingólfs veðurguðs bliknar við hliðina á þeim stórmennum sem mættu. Þar má til dæmis nefna Tóta Gísla, Óla Björns og Snæja bróður hans, Bergsveinn Sampsted og Hrönn, Helga Basla Helgason og Gunnur, Borghildi formann og Halldór barnsfaðir hennar, Björgvin vallarþul, golffélagana Magnús Rögnvaldsson verkfræðing og Björn Guðmundsson ljósameistara, Kristínu Davíðs og Óla, Pétur Ómar fyrrum USA Bliki, Guðjón Már ,,The Voice", Hákon Sverrisson þjálfari með allt sitt barnastóð, frænkurnar Ástrósu Traustadóttir dansara og Sigrún Heba Ómarsdóttir, Villi Ásgeirs verkfræðing og Katrínu S. Guðjónsdóttur. Og margt annað stórmenni.
Blikar byrjuðu mun betur í leiknum. Fyrstu 10-15 mínútur leiksins buldu sóknarloturnar á marki Ólafsvíkingana en inn vildi knötturinn ekki. Smám saman dróg því máttinn úr okkar mönnum án þess þó að að heimapiltar næðu að ógna okkar marki að neinu ráði. Þó tóku varnarmenn okkar upp á því að lauma boltanum rétt fram hjá okkar eigin marki í einni af fáum sóknarlötum Víkinga í háflleiknum. Ekki var laust við að Blikar í stúkunni fengu hland fyrir hjartað en við sluppum með skrekkinn í það sinn.
Í hálfleik skoðuðu áhangendur Blika vallaraðstæður enda eru þær hinar smekklegustu í Ólafsvík. Bjössi Hilmars olíukóngur á Snæfellsnesi og fyrrum stjórnarmaður í Blikaklúbbnum blandaði geði við gestina og viðurkenndi að hans gamla lið væri mun betra. En meiri greddu vantaði fram á við. Blikar tóku undir þetta sjónarmið Bjössa en Óli Björns lofaði að minnsta kosti tveimur útivallarmörkum í síðari hálfleik.
Kópacabanahópurinn er vaknaður af dvala og fjölmenntu drengirnir á leikinn. Þeir létu vel í sér heyra og virtist það kveikja í okkar mönnum í síðari hálfleik. Meðal annars frumfluttu Kópacabana drengirnir nýtt kraftmikið lag um Árna Vill og var hluti textans ekki fyrir börn undir fermingaraldri. En það virtist samt hafa góð áhrif á framherjann okkar því um miðjan hálfleikinn splundraði Daniel Bamberg vörn heimamenna með snilldarsendingu á Davíð Kristján sem renndi knettinum inn í teiginn. Þar var Árni Vill réttur maður á réttum stað og smellti tuðrunni í markið. Þar með voru úrslitin ráðin. Við tókum öll völd á vellinum og þrátt fyrir nokkrar máttlausar sóknir Ólafsvíkinga þá vorum við miklu hættulegri í okkar sóknaraðgerðum. Skömmu fyrir leikslok bætti Arnþór Ari við öðru marki með fínu skoti fyrir utan teig eftir að Atli og Glenn höfðu gert harða hríð að markinu.
Þjálfararnir skiptu Atla Sigurjóns inn á síðari hálfleik fyrir Ellert og einnig fengu Glenn og Alfons að spreyta sig. Þessar skiptingar virkuðu vel og átti Glenn meðal annars tvo dauðafæri sem markvörður Ólafsvíkinga varði snilldarlega. En við sigldum öruggum 0:2 sigrí í hús og þar með var árangursríku strandöggi í Ólafsvík lokið.
Blikaliðið var mjög sannfærandi í leiknum þrátt fyrir að þó nokkurn tíma tæki að brjóta niður varnarmúr Víkinga. Hafsentarnir tveir, Elfar Freyr og Damír stigu ekki feilspor í leiknum, og eru án nokkurs vafa sterkasta miðvarðarpar í deildinni. Andri Rafn leysti stöðuna hans Olivers á miðjunni mjög vel og er oft unun að sjá rennitæklingar hans á vellinum. Árni Vill var sífellt ógnandi en dómarinn var allt of ragur að taka á fólskubrotum varnarmanna á honum. Gulli var öruggur í markinu og hann virðist bara verða betri og betri með aldrinum! Glenn og Atli áttu fína innkomu og gaman að sjá hve Glenn var fljótur að koma sér í færi. Þegar markastíflan brestur þá eiga mörkin örugglega eftir að koma á færibandi.
Hópurinn er geysilega sterkur hjá Blikaliðinu nú þegar allir eru heilir. Það verður ekki létt verk fyrir þjálfarana að velja liðið í næsta leik! Þetta er kallað lúxusvandamál og við kvörtum ekki undan því.
-AP