BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Árni Vill sá um ÍBV

12.01.2013

Blikar lögðu ÍBV 3:1 í fyrsta leik Fótbolti.net mótsins árið 2013.

Það voru þeir Árni Vill 2 og Arnar Már sem sáu um mörkin okkar megin. Öll mörkin voru mjög góð; Arnar Már jafnaði leikinn rétt fyrir leikhlé með góðu einstaklingshlaupi og vippu yfir markmanninn. Mörkin frá Árna voru stórglæsileg; það fyrra setti hann með frábærri bakfallsspyrnu eftir þunga sókn Blika og það síðara með ekki síðri hliðarspyrnu eftir góða sóknarvinnu Atla Fannars. Fyrstu stig ársins 2013 eru því í húsi!

Sigurinn var nokkuð sanngjarn þótt Eyjamenn hefðu átt aðeins meira í fyrri hálfleiknum. Miklar breytingar hafa orðið á ÍBV liðinu en ungir Eyjapeyjar börðust vel allan leikinn. Í síðari hálfleik kom hins vegar leikreynslan í ljós og Blikar sigldu öruggum sigri í hús.

Bestu menn Blikaliðsins voru varnarmennirnir sterku Sverrir Ingi og Þórður Steinar enda spiluðu þeir allan leikinn. Atli Fannar kom sterkur inn í síðari hálfleik og svo má ekki gleyma þætti Árna Vill sem minnti hressilega á sig með tveimur glæsilegum mörkum. Arnór stóð líka ágætlega í markinu og verður ekki sakaður um markið sem við fengum á okkur. Einnig áttu unglingalandsliðsmennirnir Palli Þorsteins og Ósi ágætar rispur í sitt hvorum hálfleiknum.

Óli notaði marga leikmenn og skipti meðal annars sjö leikmönnum inn á í leikhléi. Samt sem áður vantaði nokkra lykilmenn í liðið meðal annars Gunnleif markvörð, Kidda Jóns, Tómas Óla og Ellert Hreinsson. Það er því ljóst að hörkubarátta verður um sæti í liðinu næstu vikurnar.

Næsti leikur okkar í Fótbolta.net mótinu er gegn Skagamönnum á laugardaginn kl.11.00 í Fífunni.

-AP

Til baka