Arnór Gauti kláraði Eyjamenn!
13.01.2019Blikar unnu öruggan 4:0 sigur á Eyjamönnum í Fífunni í fyrsta leik Blika í Fótbolta.net mótinu árið 2019. Viktor Karl Einarsson og Arnór Gauti Ragnarsson(3) sáu um markaskorunina.
Gestirnir úr Eyjum byrjuðu af miklum krafti og pressuðu okkur hátt. Þetta virtist koma okkur dálítið á óvart en smám saman unnum við okkur inn í leikinn. Það kom því ekki á óvart að Viktor Karl stimplaði sig inn í íslenskan fótbolta á 20. mínútu með góðu marki eftir flotta fyrirgöf frá Jonathan Hendrix. Mörkin urðu ekki fleiri í hálfleiknum enda vorum við ekki að skapa okkur mörg færi.
Eyjamenn hófu leikinn á svipaðan hátt í seinni hálfleik með miklum hlaupum og djöfulgangi. En munurinn var hins vegar sá að maður að nafni Arnór Gauti Ragnarsson var kominn inn á seinni hálfleik. Hann byrjaði á því að setja mark með glæsilegri kollspyrnu á 62. mínútu, svo bætti hann tveimur flottum mörkum við á næstu fimmtán mínútum. Lokatölur urðu því 4:0 og var það síst of stór sigur.
Þetta var flottur leikur hjá Blikaliðinu. Þrátt fyrir að lykilmenn eins og Willum Þór, Davíð Kristján, Andra Rafn, Thomas Mikkelsen, Aron Bjarna og Viktor Örn vantaði þá sýndu hinir spilararnir hvað í þá er spunnið. Sérstaklega var gaman þegar ungu strákarnir Andri Fannar, Benedikt og Óskar Jónsson komu inn á þá tókum við öll völd á miðjunni.
Leikurinn lofar góðu um framhaldið. Viktor Karl kom inn með miklum krafti og greinilegt að hann á eftir að verða mikilvægur hlekkur í Blikaliðinu á þessu ár. Vörnin var sterk að vanda og innkoma Arnórs Gauta í síðari hálfleik var frábær.
En til að kvarta undan einhverju þá er skrýtið að ekki sé hægt að koma klukku til virka í Fífunni. Áhorfendur eru yfirleitt margir á þessum leikjum og miðað við aðra góða umgjörð þá mætti félagið fara að kippa þessu klukkuleysi í lag. Annars erum við góðir!
-AP