BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Betur má ef duga skal.

03.06.2014

Betur má ef duga skal.

Blikar úr Kópavogi sem áður var í Seltjarnarneshreppi,  mættu Stjörnunni úr Garðabæ, sem áður hét Garðahreppur, í  6.umferð PEPSI deildar í Smáranum. Ætli sé ekki í lagi að segja í Smáranum, núna þegar er búið að afhenda okkur stúkuna til umsjónar og rekstrar? Kópavogsvöllur er samt alveg ágætt. Kópavogsvöllur í Smáranum. Þarna kom það. Samt ekki alveg.

Þessi leikur markaði þau tímamót, sem mjög hefur verið um fjallað, að þetta var síðasti leikur Blika undir stjórn Ólafs Helga Kristjánssonar. Í þessari lotu, a.m.k. Morinho er aftur kominn til Chelsea eftir útstáelsi, svo maður skyldi aldrei segja aldrey, og þaðan af síður skrifa. En að öllu gamni slepptu þá var þetta kveðjuleikur Óla og aðstæður til knattspyrnu voru alveg hreint prýðilegar. Völlurinn allur að koma til, en talsvert þungur enn. Grasið fallega grænt og veðrið með albesta móti. Hægviðri, nánast áttleysa og hiti nálægt 11°C. Nokkuð rakt.
Blikar í erfiðum málum með aðeins 3 stig eftir 5 leiki. Menn voru því að vonast til að næla í 3 stig.

Byrjunarlið Blika;

Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m)
Höskuldur Gunnnlaugsson - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason  - Jordan L. Halsman
Tómas Óli Garðarsson - Finnur Orri Margeirsson  - Stefán Gíslason – Olgeir Sigurgeirsson
Elvar Páll Sigurðsson  -  Árni Vilhjálmsson

Varamenn:

Arnór Bjarki Hafsteinsson (m)
Andri Yeoman
Elfar Árni Aðalsteinsson
Guðjón Pétur Lýðsson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Ellert Hreinsson
Arnór Aðalsteinsson

Sjúkralisti

Gísli Páll Helgason

Blikar léku með sorgarbönd í minningu Jóhanns Baldurs, þess mæta Blika, sem lést á dögunum  á 89. aldursári og fyrir leik var hans minnst með mínútu þögn.

Leikurinn hófst með braki og brestum og minnstu munaði að Elvar Páll kæmist á blað innan örfárra sekúndna þegar markvörður gestanna hugðist sparka fram völlinn en þrumaði boltanum í síðuna á Elvari (Kiddi kjöt kallar þetta reyndar slög held ég). En til allrar ólukku lak tuðran framhjá markinu. Það var því enn 0-0 eftir hálfa mínútu. Svo gekk þetta sitt á hvað fyrsta korterið en smátt og smátt náðu gestirnir yfirtökunum og hættulegri upphlaupum en við vorum of mikið í því að rétta þeim boltann með ónákvæmum og vanhugsuðum sendingum. Og það var ekki beint gegn gangi leiksins að gestirnir náðu forystunni því þeir voru búnir að fá eitt dauðafæri og tvo góða ¾ sénsa áður en markið kom. Markið kom eftir að Blikar leyfðu tveim gestum að dúlla sér með boltann á okkar vallarhelmingi og síðan við teiginn í stað þess að mæta þeim af krafti og taka af þeim boltann, for helv... Afleiðingin varð eitt að mörkum mótsins til þessa. Því verður ekki lýst nánar hér. Forljótt mark og ömurlegur aðdragandi. Staðan 0-1.
Það dofnaði heldur yfir leiknum við þetta og næstu mínúturnar voru gestirnir aðgerðalitlir en okkar menn færðust heldur í aukana og sér í lagi voru Höskuldur og Elvar Páll að láta til sín taka en það vantaði herslumun að skapa hættuleg færi. Hornspyrnur skiluðu litlu sem engu, enda sumar arfaslakar sérstaklega þær sem voru teknar fjær stúkunni. Samt munaði litlu í tvígang að okkar menn jöfnuðu. Fyrst eftir hættulega aukaspyrnu, en þar vantaði græna treyja á endann á sendingunni og svo þegar Elvar Páll óð á vörn gestann og renndi boltanum á Tómas Óla en sendingin of laus og Stjörnumaður komst í veg fyrir skotið. Á lokamínútunum áttu svo Blikar hættulegustu tilraunirnar, fyrst Olgeir með þrumuskoti frá vítateigslínu, sem var á leið framhjá. Tómas kom tánni í boltann en náði því miður ekki að stýra honum í netið. Skömmu síðar prjónaði Höskulduir sig svo skemmtilega inn í teiginn og plataði einn og svo annan en skot hans var varið af varnarmanni. Flott hjá Höskuldi. Hann lætur verkin tala og mættu margir taka það sér til fyrirmyndar.
Staðan í hálfleik 0-1 og komin smá harka í þetta undir lokin.Fyrri hálfleikur ekki nógu góður hjá okkar mönnum og gestirnir með sanngjarna forystu þegar á allt er litið.

Blikar skiptu Andra Yeoman inn á hálfleik í stað Olgeirs. Andri er búinn að glíma við meiðsli frá leiknum við Fram og hefur lítið getað æft frá því, en hann kom inn af krafti. Sendingarnar þurfa þó að batna hjá honum því hvorki vantar hraða né kraft. Of margar sendingar enda hjá andstæðingum eða utan vallar, og þetta sama gildir reyndar um of marga leikmenn Blika þessa daga. Það er nýlunda.

Fyrsta korterið gerðist fátt markvert í leiknum annað en að menn söfnuðu gulum spjöldum á bæði borð og það er varla hægt að setja út á eitt einast þeirra. Allt brot sem verðskuldu gul spjöld. En það fór minna fyrir samleik. Háloftaspyrnur og feilsendingar og ekki góður gangur í málunum. Bleik var brugðið og Blikar brugðu á það ráð að skipta Arnóri inn á 60. mínútu. Og það var eins og við manninn mælt að það kom meira flæði í leik okkar manna. Arnór var rólegur á boltanum og kom honum ávallt á samherja. Og svo vann hann obbann af návígum sem hann fór í. Grimmd og gæði, það er málið. Blikar sóttu nú af meiri krafti en áður og það var allt annað að sjá til liðsins. Gestirnir létu þó vita vel af sér og áttu líka sín færi en náðu ekki að nýta þau. Jöfnunarmarkið kom svo þegar ríflega stundarfjórðungur var til leiksloka. Blikar höfðu verið aðgangsharðir í dálítinn tíma fyrir markið og Árni tvívegis nálægt því að skora, en það var svo Elvar Páll sem var réttur maður á réttum stað þegar boltinn kom fyrir markið, eftir góðan undirbúning Arnórs og Tómasar, og lagði hann snyrtilega í netið. Blikar búnir að jafna og nú átti að láta kné fylgja kviði. Ellert Hreinsson kom nú inn fyrir Höskuld sem orðinn var lúinn og vígamóður eftir stanslaus hlaup fram og aftur kantinn. Tómas Óli fór í bakvörðinn og Ellert í framlínuna. En skjótt skipast veður í lofti og örfáum andartökum síðar fékk Árni að líta gult spjald fyrir glannalega tæklingu,nýstiginn uppúr annari, og þar sem hann hafði áður séð sama lit kom rauða spjaldið í kjöfarið. Dómari sem er nýbúinn að sleppa manni við gult, með tiltali, er ekki líklegur til að sleppa manni hálfrí mínútu seinna fyrir samskonar brot, eða verra, nema maður heiti Magnús Lúðvíksson og sé í KR. Árni Vilhjálmsson dugar ekki. Því miður.

Þar með fór stóra sóknarplanið út um gluggann og það sem eftir lifði leiks héldu okkar menn haus og sjó og sigldu stiginu í höfn. Fengu að vísu á sig nokkrar aukaspyrnur við vítateig, en ekkert varð úr þeim. Besta færið fengu svo okkar menn þegar við áttum flotta skyndisókn sem lauk með skoti frá Tómasi sem markvörður gestann varði á afar ógeðfelldan hátt.
Niðurstaðan því enn eitt jafnteflið, hið fjórða í 6 leikjum.
Þetta voru ekki óskaúrslit fyrir okkur Blika og það hefði verið við hæfi að kveðja Ólaf Helga með sigri. En það er önnur Ella og því alls ekki sú Lilja sem allir vildu kveðið hafa. Seinni hálfleikur okkar manna sennilega sá besti hingað til í mótinu, og sérstaklega eftir innkomu Arnórs. Elvar Páll skoraði gott mark og þau eiga eftir að verða fleiri hjá honum. Höskuldur í góðum gír. En það eru margir leikmenn hjá Blikum, og raunar flestir, sem þurfa heldur betur að rífa upp um sig buxurnar. Fleiri orð verða ekki höfð um það hér, en þau eru til á lager. Nú hafa leikmenn nokkra daga til þess, því næsti leikur er ekki fyrr en 11.júni n.k. Þá mætum við Fylki í Lautinni í Árbænum.
Nýir menn eru nú teknir við stjórnvelinum hjá Blikum. Blikar.is óska þeim velfarnaðar og vænta þess að þeir rífi drengina í gang svo um muni. Með góðu eða illu. Það er satt!

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka