BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Bikarsigur í baráttuleik

28.06.2019

Blikar unnu erfiðan en sanngjarnan 4:2 sigur á baráttuglöðum Fylkismönnum í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á Kópavogsvelli í gær. Ekkert var gefið eftir í leiknum og þurfi framlengingu til að knýja fram úrslit. Þar settu okkar drengir tvö mörk og erum við því komnir í undanúrslit keppninnar. Vel gert drengir!

Fyrir leikinn afhenti Orri Hlöðversson formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks Elfari Frey Helgasyni viðurkennigu fyrir leikjaáfanga. Elfar hefur leikið 250 mótsleiki með Breiðabliki. 

Þrátt fyrir þessi góðu úrslit þá gerðu strákarnir okkar sér þetta of erfitt fyrir. Eins og í allt of mörgum leikjum í sumar er eins og liðið sé ekki tilbúið í byrjun leiks. Fylkismenn keyrðu á okkur frá fyrstu mínútu og mikið lá á okkur í upphafi. Það kom því ekki mjög mikið á óvart að við fengum á okkur mark strax á 12. mínútur. Það mark var af ódýrari gerðinni og með betri varnarvinnu hefði það ekki átt að verða að veruleika.

Ekki er vitað hvort andi Árbæingsins Sigurðar Arasonar sem tekinn var af lífi við þingstað í Kópavogi árið 1704 hafi sótt svona á okkur en við Blikar vorum ekki líkir sjálfir okkur fyrstu mínúturnar. En Sigurður þessi varð nágranna sínum Sæmundi Þórarinssyni að bana við Skötufoss í Elliðaánum. En þeir bjuggu í tvíbýli í Árbænum. Talið er að Sigurður hafi gert þetta á áeggjan Steinunnar konu Sæmundar. Réttað var yfir þeim skötuhjúunum á Kópavogsþingi og voru þau dæmd til dauða þann 11. nóvember. Sigurður var höggvinn skammt frá þinghúsinu og höfuð hans sett á stöng við gröf hans en Steinunni var drekkt í Kópavogslæknum þar fyrir austan. En lýkur þá frásögn þessari af örlögum þeirra skötuhjúa.

En Blikastrákunum til hróss þá trúa þeir ekki á drauga og tóku hraustlega við sér eftir þessa slöku byrjun. Síðasta hálftíma hálfleiksins var bara eitt lið á vellinum. Það gaf reyndar bara eitt mark. Það gerði danska dýnamítið Thomas úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Höskuldi. En þeir appelsínugulu sluppu með skrekkinn og staðan því 1:1 í leikhléi. Sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik. Við vorum sterkari aðilinn og komust yfir í leiknum. Þar var Daninn dásamlegi aftur á ferðinni með marki aftur úr vítaspyrnu eftir að brotið hafið verið á honum sjálfum. En Adam var ekki lengi í Paradís því gestirnir jöfnuðu eftir slaka varnarvinnu okkar drengja.

Framlenging að hefjast

Í framlengingu kláruðum við leikinn með tveimur góðum mörkum frá Höskuldi Gunnlaugssyni. Nokkrir Árbæingar hafa vælt um um að fyrra markið hafi verið ólöglegt en svona er fótboltinn. Höskuldur gerði vel og kláraði færið á frábæran hátt. Á sama hátt slúttaði hann vel í síðara markinu eftir að Thomas hafði fíflað vörn og Aron Snæ markvörð Árbæinga. Leiðinlegt fyrir fyrrum félaga okkar því hann stóð sig annars vel í markinu eins og hann hefur gert í allt sumar. Ákveðnir fjölmiðlar hafa gert mikið mál úr þriðja marki Blika og tala um dómaramistök. En það er þá skrýtið að ekki skuli hafa verið minnst á dómaramistökin þegar fullkomlega löglegt mark var dæmt af Damir. Það er ekki nóg að einblína á eina ákvörðun dómara þegar fleiri ákvarðanir hafa áhrif á leikinn. Það verður að vera samræmi í frásögnum af leiknum.

Blikamenn völdu Höskuld Gunnlaugsson mann leiksins.

Ágúst gerði fjórar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik og var það líklegast mjög skynsamlegt. Leikjaálagið er mikið á leikmönnum núna og því mikilvægt að dreifa álaginu. Einnig er bráðnauðsynlegt að gefa fleiri leikmönnum tækifæri því sú staða getur komið upp mjög skyndilega að lykilleikmenn séu í banni eða fjarverandi vegna meiðsla. Þá er gott að geta komið með góða leikmenn inn í byrjunarliðið. Gott dæmi um þetta er bakvörðurinn snjalli Davíð Ingvarsson sem hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði eða jafnvel ekki í hóp. En þegar hann hefur fengið tækifæri þá hefur leikmaðurinn nýtt það mjög vel.

Liðsuppstillingin í leiknum

Þrátt fyrir góð úrslit verður Tuðmundur aðeins að láta í sér heyra varðandi umgjörð Kópavogsvallar. Hið nýja gervigras kemur vel út en það vantar enn að klára smáatriðin. Skiltamálin eru enn hálf-kláruð og vallarklukkan sæmir ekki svona flottum velli. Ef við ætlum að standa undir nafni sem stærsti og flottasti klúbbur á Íslandi þá verðum við að hafa þessi mál í lagi. Nú verður deildin og bæjaryfirvöld að sameinast í því að kippa þessum málum í liðinn. Það styttist í Evrópuleik og við Blikar viljum hafa hlutina í lagi bæði innan vallar sem utan.

Til að enda á jákvæðum nótum þá er var stúkan að styðja vel við bakið á liðinu. Ungir stuðningsmenn Blikaliðsins hafa tekið upp gunnfána Kópakabanahópsins sem því miður virðist hafa gufað upp. Þessir ungu Blikar láta vel í sér heyra og hinn almenni áhorfandi fylgir í kjölfarið. Vonandi er þetta upphafið að nýrri og öflugri bylgju stuðningsmannakjarna sem styður Blikaliðið í blíðu og stríðu.

Mörkin og atvik úr leiknum í boði BlikarTV

Næsta mál á dagskrá er toppslagur í Frostaskjóli á mánudaginn. Þrátt fyrir erfiðan leik hlýtur þessi sigur að gefa okkur Blikum byr í seglin. Mætum öll og hvetjum okkar lið til sigurs í vesturbænum á mánudagskvöldið. Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

 Thomas Mikkelsen skorði tvö örugg mörk af vítapunktinum. Thomas er klár í slagainn á mánudaginn.

Til baka