BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar barðir til bókar

12.05.2013

Blikar héldi í dag til Eyja og áttu stefnumót við heimamenn í 2.umferð PEPSI deildar karla. Fjölmargir stuðningsmenn fylgdu okkar mönnum yfir hafið og studdu sína menn með kröftugum hrópum. Byrjunarlið okkar manna var óbreytt frá leiknum gegn Þór og menn geta dundað sér við að raða þessu 4-5-1 eða 4-3-3 efitr smekk.;

Gunnleifur - Þórður Hreiðarsson – Sverrir Ingi – Renee Troost – Kristinn Jóns - Elfar Árni – Andri Yeoman – Finnur Orri (F) – Guðjón Pétur – Nichlas Rohde - Árni  Vilhjálmsson

Varamenn;

Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Sindri Snær Magnússon
Olgeir Sigurgeirsson
Viggó Kristjánsson Jökull I Elísabetarson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Tóms Óli Garðarsson 

Rétt fyrir leik gerði úrhellisrigningu í Eyjum og völlurinn var greinilega flugháll og mjúkur þegar leikur hófst . Aðstæður því frekar  erfiðar fyrir liðin, og buðu upp á ýmis tilbrigði við íþróttina. Það blés ekki byrlega fyrir okkar menn í upphafi leiks því á 3ju mínútu náðu heimamenn forystunni eftir að Þórður rann til og missti knöttinn við miðlínu. Heimamenn brunuðu upp  í sókn og gáfu fyrir þar sem einn heimamaður hljóp yfir boltann með gabbhreyfingu og annar fylgdi á eftir og smellti föstum bolta í hornið án þess Gunnleifur kæmi vörnum við. Vel að verki staðið hjá heimamönnum, en Blikar alveg á hælunum þegar boltinn tapaðist. Þetta var ekki alveg óskabyrjunin og það tók okkar menn megnið af hálfleiknum að jafna sig á áfallinu og ná áttum í leiknum. Menn misstu sig aðeins í pirring og svona smá vesen. Náðu sér í óþarfa  spjöld og létu Eyjamenn æsa sig aðeins upp. Kannski spennustigið hafi verið aðeins of hátt fyrir leikinn hjá okkar mönnum. Hver veit. En það skal sagt strákunum til hróss að þeir náðu aftur ágætum tökum á sínum leik og unnu sig inn í leikinn. Herslumun vantaði þegar Þórður skallaði í stöng heimamann eftir skottilraun Rohde og eins var Árni nálægt því að komast í færi, Guðjón Pétur átti hörkuskot úr aukaspyrnu sem markvörðu Eyjamanna varði, fleira má telja til. En það vantaði herslumuninn. Eyjamenn pressuðu hátt með sína fremstu menn en lágu ekki hátt með vörnina og við náðum ekki að nýta okkur svæðin þar á milli til fullnustu. Staðan 1-0 í hálfleik, heimamönnum í vil. Ólafur gerði skiptingu strax í hálfleik. Tómas Óli kom inn í bakvörðinn í stað Þórðar sem kominn var með gult spjald og var aukinheldur búinn að eiga í nokkrum léttum útistöðum við eyjamenn og gerði sig alveg líklegan til að næla sér í seinna spjaldið. Hárétt ákvörðun hjá Ólafi. Það má hinsvegar hrósa dómara leiksins sem hefði hefði getað spjaldað fleiri og meira en tók þá skynsamlegu ákvörðun að leyfa þessu aðeins að fljóta. Flottur leikur hjá Magnúsi Þórissyni og hans mönnum í dag.
Blikar náðu ágætum tökum á leiknum í seinni hálfleik og gerðu oft harða hríð að marki heimamanna. Fengu urmul af hornspyrnum og jöfnunarmarkið lá í loftinu.En skjótt skipast veður í lofti, og Blikar fengu rækilega lexíu í knattspyrnu von bráðar. Á 59. mínútu fengu Blikar réttilega dæmda vítaspyrnu þegar Ian Jeffs keyrði hnéð í Renee Troost innan vítateigs og dómari leiksins dæmdi réttilega víti, þrátt fyrir áköf mótmæli og efasemdir skólastjóra Áslandsskóla sem lýsti leiknum á Stöð2 Sport og sá ekki einu sinni í 3ju endursýningu hvað átti sér stað. Og er hann þó talinn ágætur dómari – en að vísu í annari íþróttagrein.Rífa upp gleraugun Leifur.
Það er skemmst frá því að segja að Sverrir Ingi spyrnti í stöngina og vítaspyrnan fór því forgörðum.  Eyjamenn voru ekki mikið að spá í það en brunuðu í sókn á sömu mínútunni. Nú fóru þeir upp hægri vænginn og síðan kom fyrirgköf inn á vítapunkt þar sem einn heimamaður tók við boltanum og smellti honum í netið. Alveg óverðskuldað  að okkur fannst – en stundum er sagt að menn skapi sér sína heppni. Gæti verið klisja. En svona er boltinn grimmur. Þetta var fyrsta alvöru sókn eyjamanna í seinni hálfleik.... 2-0.
Okkar menn gáfust ekki upp við þetta mótlæti og héldu áfram að sækja og gerðu nú harða hríð að heimamönnum. Hornspyrnur og hálffæri á færibandi en inn vildi boltinn ekki fyrr en á 75. mínútu þegar Blikar fengu enn eina hornspyrnuna. Guðjón Pétur sendi boltann beint á Kristinn Jónsson sem var rétt utan vítateigs og hann var ekkert að tví nóna við hlutina heldur þrumaði knettinum í markvinkil heimamanna með vinstri fæti, án frekari málalenginga. Glæsilegt mark og nú glæddist vonin hjá okkar mönnum, nær og fjær. Blikar sóttu án afláts og fengu fleiri horn og aukaspyrnu. Renee skaut í slá eftir klafs í teignum, Guðjón Pétur skaut í slá úr aukaspyrnu og jöfnunarmarkið bókstaflega lá í loftinu, aftur. Blikar gerðu nú tvöfalda skiptingu. Jökull og Olgeir komu inn fyrir Árna og Reene og Blikar fóru í 3ja manna vörn. Allt var lagt í sölurnar. En það voru síðan varnarmistök okkar mann sem gerðu út um leikinn þegar við töpupum boltanum á eigin vallarhelming þegar engin virtist hættan og eyjamaður hirti knöttinn af okkar mönnum brunaði að marki og skaut hnitmiðuðu skoti í bláhornið, óverjandi fyrir Gunnleif. Þarna sofnuðum við illilega á verðinum og var refsað grimmilega. Tveim mínútum síðar keyrðu svo heimamenn síðasta naglann í kistuna þegar þeir léku okkur grátt og settu 4ða markið.
Grátleg niðurstaða. Sigur heimamann full stór miðað við gang leiksins og færi en markatalan lýgur ekki og við fengum að kenna rækilega á því í þessum leik að það er ekkert gefið í fótbolta.

Blikar gerðu margt vel í þessum leik en það var of margt sem fór úrskeiðis. Liðið hélt skipulagi sínu lengst af leik og sótti án afláts á löngum köflum. En það er auðvitað ekki nóg. Varnarleikurinn var of brothættur á köflum og úr því þarf að bæta fyrir næsta leik. Undir lokin bar svo kappið menn ofurliði þegar reynt var að sækja stigið.. Þessi leikur er vonandi á leiðinni í reynslubankann og við treystum okkar mönnum til að koma betra skikki á heildarmyndina fyrir næsta leik. Hann er á fimmtudaginn gegn skagamönnum og verður líka erfiður. Við mætum á völlinn og styðjum við bak okkar manna og við ætlum að eiga stúkuna !!

Áfram Breiðablik !

OWK.

Til baka