- Elfar Freyr kom inn á í seinni hálfleik sem var fyrsti leikur Elfars í Íslandsmóti síðan í leik gegn Þór í júlí 2011. Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
- Byrjunarlið Blika var að sjálfsögðu breytt frá því síðast og bar þar helst til tíðinda að Gísli Páll Helgason hóf leikinn og lék sinn fyrsta leik í sumar, eða allt frá leik okkar við Val í úrslitum lengjubikarsins. Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Blikar færðu ÍA stig á silfurfati
23.08.2013
Blikarnir mættu heimamönnum á Skipaskaga í kvöld i 14. umferð PEPSI deildarinnar.
Byrjunarlið Blika var að sjálfsögðu breytt frá því síðast og bar þar helst til tíðinda að Gísli Páll Helgason hóf leikinn og lék sinn fyrsta leik í sumar, eða allt frá leik okkar við Val í úrslitum lengjubikarsins. Það var ánægjulegt. Á sama tíma söknuðum við að sjálfsögðu Elfars Árna en þökkum almættinu, en ekki síður snarræði og fagmennsku þeirra sem komu honum til aðstoðar, fyrir að hann er á góðum batavegi. Vonandi jafnar hann sig að fullu, en það mun tíminn leiða í ljós. Blikar.is senda Elfari Árna góðar batakveðjur.
Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;
Gunnleifur
Gísli Páll - Sverrir Ingi – Renée - Kristinn J
Tómas Óli - Andri Rafn - Finnur Orri (F) - Guðjón Pétur
Nichlas - Árni Vill
Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Elfar Freyr Helgason
Ellert Hreinsson
Jökull I. Elísabetarson
Þórður Steinar Hreiðarsson
Olgeir Sigurgeirsson
Viggó Kristjánsson
Sjúkralisti; Rafn Andri Haraldsson
Leikbann; Enginn
Hef það fyrir satt að stuðningsmenn Blika hafi fjölmennt á skipaskaga í kvöld og hvatt sína menn af krafti. Veðrið var frekar óhagstætt til knattspyrnu, stífur vindur, 8 – 13 m/sek skáhallt eftir vellinum frá suðaustri og lofthiti um 13°C. Völlurinn hinsvegar í prýðilegu standi. Loftraki 70%.
Undirritaður tíðindamaður Blikar.is átti því miður ekki kost á að sjá leikinn en hefur samt skoðanir á því sem til tíðinda bar eftir að hafa séð myndbrot í PEPSI. Ætlar því ekki að tjá sig um það, nema lítillega, fyrr en að betur athuguðu máli en vísar í atvikalýsingar hinna ýmissa miðla sem aðgengilegar eru á internetinu og vísað er á hér. Samt athyglivert að velta því fyrir sér að annað árið í röð er aðstoðardómari brekkumegin með stóra og afdrifaríka ákvörðun í leik Blika á Skaganum. Bæði skiptin okkur í óhag. Í fyrra var hún alveg 100 % kolröng þegar Skagamaður sparkaði tvisvar í boltann á leið hans út fyrir hliðarlínu en fékk samt dæmt innkast sem vítaspyrna, og jöfnunarmark skagamann kom upp úr. Núna dæmdi aðstoðardómarinn mark sem ekki var skorað (og það er bjargföst skoðun undirritaðs eftir ítrekaða skoðun atvika í hægum og mjög hægum endursýningum). Svona getur boltinn verið grimmur og tilviljanakenndur. (En til að fyrirbyggja allar samsæriskeningar þá er rétt að geta þess að þetta var ekki sami aðstoðardómari og í fyrra.)
Það var auðvitað hundfúlt að missa þennan leik niður í jafntefli eftir að hafa náð 2-0 forystu og alveg ljóst að við höfum ekki efni á svona gjafastarfsemi. Því þrátt fyrir að aðstoðardómarinn hafi verið úti að aka í kvöld þá geta Blikar sjálfir nagað sig í handarkrikann fyrir að hafa glutrað þessu niður. Stundum þarf bara að verja markið með kjafti og klóm. HFF.
Næsti leikur okkar er á sunnudag undir jökli þegar við mætum Víkingi í Ólafsvík. Þar verðum við væntanlega ekki teknir neinum vettlingatökum af snæfellingunum, og ljóst að það er gríðarlega mikið undir hjá báðum liðum. Spái grófum leik.
Nú má enginn bila eða leggja niður skottið. Hvorki utan né innan vallar. Þess vegna stendur Blikaklúbburinn fyrir hópferð vestur og mun bjóða far á sérstökum vildar- og kjarakjörum. Og farkosturinn verður ekki af verri sortinni frekar en vanalega, eða einsog segir í frægri bíómynd ; ,, ..það verður sko engin helv....rúta. Það verður langferðabíll !“
Skyldi Dúddi mæta með hattinn hans Kris?
Fjölmennum og styðjum okkar menn. Þeir eiga það skilið þó þeir hafi aðeins gert í bólið í kvöld.
Það kemur ekki fyrir aftur er mér sagt.
Áfram Breiðablik !
OWK