BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar fara til Eyja

28.06.2015

Leikurinn í dag er annar leikur liðanna á þessu ári. Fyrri leikurinn bæði vannst og tapaðist. Breiðablik vann leik 2-0 í 3. umferð Lengjubikarsins í Akraneshöllinni 9. mars í vetur. Leikurinn var fyrsti leikur Kristins Jónssonar með Blikum eftir að hann koma úr láni frá Brommapojkarna í Svíðþjóð. Kiddi fór á kostum í leiknum og sýndi hvers hann er megnugur. Hann skoraði mark og lagði upp annað. En svo kom í ljós að ekki var rétt staðið að félagaskiptum Kristins frá Svíðþjóð til Íslands og hann því ólöglegur leikmaður Blika í leiknum. ÍBV var dæmdur 3-0 sigur.  

ÍBV og Breiðablik hafa mæst 82. sinnum í opinberri keppni. Þar til viðbótar eru mjög margir óskráðir leikir í svonefndri Bæjarkeppni liðanna. Keppni sem var leikin heima og heiman vor og haust. Keppnin hófst  í kjölfar eldgossins í Eyjum enda mikill vinskapur á milli Kópavogs og Vestmannaeyja.

Fyrsti opinberi keppnisleikur liðanna var í 2. deildinni 1. júlí 1960. Eyjamenn unnu þann leik nokkuð stórt og þannig urðu úrslit oft í leikjum liðanna alveg fram undir 1980. Blikar vinna reyndar 4-0 sigur árið 1963 og 2-3 sigur 1972 en ÍBV voru oftast sterkari aðilinn. Heilt yfir frá árinu 1960 til 2015 sigra Blika 30 sinnum, ÍBV sigrar 37 sinnum og það er jafnt 15 sinnum.

Allra fyrsti leikur liðanna var æfingaleikur við ÍBV í Vestmannaeyjum sumarið 1958 þegar Breiðabliksliðið var að stíga sín fyrstu skerf á knattspyrnuvellinum. Knattspyrnudeild Breiðabliks er stofnuð 1957. Myndin með fréttinni er einmitt tekin við það tækifæri. Það er fróðlegt að lesa þennan texta með myndinni „Búningarnir voru grænir með hvítri rönd. Rendurnar vísuðu í stöðu þeirra á vellinum, hægra og vinstra megin og mynduðu V. Sá sem vara með röndina frá vinstri öxl og niður til hægri spilaði vinstra megin á vellinum“. Og meiri fróðleikur því einn leikmaður Breiðabliks í umræddum leik er Grétar Kristjánsson - faðir Arnars Grétarssonar þjálfara Blika.

En fyrsti leikur liðanna í efstu deild var 1971 - árið sem Breiðablik lék fyrst í efstu deild. Sá leikur tapaðist stórt, eða 6-0. Liðin hafa mæst 50 sinnum í efstu deild. ÍBV hefur unnið 20 sinnum, Blikar 18 sinnum og jafnt 12 sinnum. Blikaliðinu hefur ekki gengið sérstaklega vel í Eyjum því að sigrarnir eru bara fimm í 25 tilraunum. Maður er því hóflega bjartsýnn á 3 stig í dag.

Arnar Grétarsson er leikmaður þegar Blikaliðið fer til Eyja árið 2006. Leikurinn var fyrsti leikur Arnars með Blikum frá árinu 1996 eða í 10 ár. Leikurinn vannst með glæsilegu marki frá Marel Baldvinssyni. Leikurinn var jafnfram fyrsti sigurleikur Ólafs H. Kristjánssonar sem var að stýra liðinu í annað sinna eftir að hafa tekið við Blikum af Bjarna Jó um mitt sumar 2006. ÍBV fellur um deild um haustið en er komið aftur meðal þeirra bestu árið 2009 þá er Arnar Grétarsson í liði Blika sem vinnur aftur sigur með marki frá Alfreð Finnboagasyni. Síðan þá höfum við ekki unnið ÍBV í Eyjum. Reyndar tapa Blikar einu sinni (4-1 árið 2013). Hinir leikirnir í Eyjum eru að enda með 1-1 og 0-0 jafnteflum.

Áfram Breiðablik, alltaf, alls staðar - líka í Eyjum!

Til baka